Frá ofurhetju til afbyggingar

Í Kvikmyndir, Rýni höf. Björn Þór Vilhjálmsson

Heimildarmynd Baldvins Z. um Reyni sterka, eða Reyni Örn Leósson (1939–1982), hefst með persónulegu ávarpi leikstjórans á hljóðrásinni. Þar lýsir Baldvin því hvernig sagan af Reyni hefur fylgt honum frá barnæsku og að næstum það sama megi segja um ásetninginn að gera myndina. Svipað hefur verið haft eftir leikstjóranum í viðtölum og því óhætt að segja að myndin hafi verið lengi í vinnslu. Ákveðnum áfanga við gerð hennar var náð þegar filmur myndanna sem Reynir lét gera og framleiddi um sjálfan sig og afrek sín, „Fangaklefapolki“ til dæmis og Sterkasti maður heims, fundust, og nýtur mynd Baldvins tvímælalaust góðs af þessum fjársjóði. Sjálfur var Reynir um sumt dæmigerður karlmaður íslensku eftirstríðsáranna: menntunarskortur og fátækt skipa honum í verkamannastétt og myndin lýsir lífi sem einkennist af striti, byggingardjobbum í rísandi úthverfum og vélabraski, fágætum heimilisstundum (Reynir er alltaf í vinnunni) og, þegar líða tekur á, brennivíni. Það er þó ýmislegt sem gerir Reyni að fráviki, og eru það ekki aðeins kraftarnir, en þeir voru miklir.

Frá unga aldri fer af Reyni það orð að hann sé gríðarsterkur og sagðar eru sögur af honum sem unglingi lyftandi hestum, glímandi við naut og, þegar komið er að verkamannavinnunni aðeins síðar, verandi margra manna maki í erfiðisstörfum. Svo koma heimsmetin, en kemur þar jafnframt að hugvitinu sem birtist jafnt í uppfinningasemi Reynis, óvanalegum hæfileikum til sjálfsframsetningar í fjölmiðlum (Reynir er vel máli farinn, yfirvegaður í tali og sérkennilega sjarmerandi blanda af hógværð og gorti), og þeirri staðreynd að hann skynjar strax að kraftaafrekin eru lítils virði séu þau aðeins varðveitt sem munnmælasögur og fjölmiðlafurður. Til að forðast slíka útkomu leitar hann (að því er virðist) snemma til áreiðanlegra stofnana og fær þær til að votta verk sín, leitast við að hafa þau mynduð á filmu, sækist eftir samstarfi við lögregluna og fer á fund forsætisráðherra.

Ætla má að hann taki að misstíga sig á þessari braut þegar hann nokkuð síðar ferðast með mynd sína, Sterkasti maður heims, um landið og stendur fyrir sýningum á henni. Þar er hætt við að hann hafi byrjað að virka sem einhvers konar viðundur í farandleikhúsi, og er um það talað í myndinni að þegar líða tók á hafi orðspori Reynis hrakað. Þarna tekur óregla einnig að setja mark sitt á líf Reynis. Þá bendir einn viðmælanda réttilega á að það rýrir mjög sönnunarþunga kvikmyndaverka hans að hann skuli sjálfur hafa staðið að baki þeirra og framleitt (og væntanlega klippt).

Kraftaverk?

Það breytir reyndar ekki öllu um það að afrek Reynis virðast, eins og þau eru framsett í myndinni, söguleg. Kraftajötunn einn er fenginn af kvikmyndagerðarmönnunum til að endurskapa sumar frægustu lyftingar og keðjuslit Reynis, en án árangurs. Ekkert bifast, hreyfist eða slitnar og standa heimsmet Reynis enn í bók Guinnes. Í upphafsorðunum sem getið er hér að ofan kemur fram að Baldvin hafi þegar hann var yngri eiginlega séð Reyni fyrir sér sem ofurhetju, og myndin leikur sér skemmtilega með slíka vangaveltu. Í upphafi eru geislar látnir ganga út úr augum Reynis á ljósmynd, líkt og væri hann DC ofurmennið skikkjuklædda, og sömuleiðis er vöngum velt yfir því hvort hann hafi (óbeint) getað flogið – þá í bíl sínum. Raunar má sjá dramatíska byggingu myndarinnar sem vegferð frá ofurhetjuímyndinni til afbyggingar. Í atriðum sem þessum, þar sem goðsögninni um Reyni er gefið svigrúm, kjarnast jafnframt forvitnileg nálgun Baldvins á heimildarmyndaformið, en umgjörð myndarinnar er hrá og að sumu leyti tilraunakennd. Viðtöl eru eins og gjarnan í heimildarmyndum mikilvægur þáttur af heildarmyndinni. Framsetning þeirra er hins vegar gjarnan brotin upp á óvenjulegan hátt, til dæmis með því að sýna viðmælendur í mynd án þess að þeir tali, hugsanlega áður en sjálft viðtalið fór fram (eins og í eitt skipti þegar klapptréið sést smella), en hafa engu að síður viðkomandi viðtalsbút á hljóðrásinni. Þá eru kaflaskiptingar í myndinni og grafík er notuð á frumlegan hátt.

Afbygging myndarinnar á hetjuímynd Reynis er engu að síður afdráttarlaus. Kemur þar að innleiðslu hins yfirnáttúrulega og trúarlega í frásögnina. Talað er um að Kristur hafi birst Reyni er hann var sex ára og hafi hann uppfrá því orðið annar maður, og er gefið í skyn að til þessarar spámannsvisitasíu megi rekja óvenjulega kraftana. Á bak við þessa sögu leynist þó mikill harmleikur. Móðir Reynis var yfirgefin af manni sínum og barnsföður og börnin í framhaldi tekin af henni og send í fóstur. Lenti Reynir á sveitabæ sem er eins og klipptur út úr hryllingsmynd. Tveir bræður sáu um búreksturinn, sá „skárri“ lokkaði börn inn til sín með nammi en var aldrei kærður, það var yngri bróðirinn hins vegar, sem vitnað er um að hafi vakað yfir héraðssundlauginni eins og pervertískur vágestur. Vitað er að bræðurnir börðu Reyni en myndin getur sér jafnframt til – eða leyfir áhorfendum að geta sér til – um að Reyni hafi verið nauðgað kvöldið sem Jesú sótti hann heim. Hvor bræðrana það var er svo sem ómögulegt að vita, eða hvort aðeins annar hafi verið sekur, og sama gildir um það hvort um einangrað atvik hafi verið að ræða eða reglubundinn viðburð. Reynir var að minnsta kosti fastur á bænum fram á unglingsár. Þessi þráður er sláandi hluti af myndinni og skapar mikla samúð með viðfangsefninu, auk þess að skapa svigrúm fyrir vangaveltur um aflvaka þess og sálræðilegar rætur að drengurinn einsetur sér að verða sterkari en allir aðrir.

Umrót

Samúðin er þó ekki langlíf, eða verður í öllu falli margfalt flóknari og blandast óbragði, þegar næsta skref er tekið, en myndin gengur eins langt og mögulegt er við að gefa í skyn að Reynir hafi misnotað dóttur sína af síðara hjónabandi. Fram kemur að Reynir hafi (allavega) í síðara hjónabandi verið heimilisofbeldismaður, og að á þeim tíma hafi viðgengist mikil óregla. Dóttirin, móðir hennar (sem er nú að öðru leyti skemmt í viðtölum), frænka dótturinnar og leikstjórinn fara öll eins nálægt þessu erfiða efni og þau treysta sér til, og verður að segjast að hafi það ekki verið ætlun leikstjórans að miðla ásökun á hendur Reyni um kynferðisofbeldi gagnvart dóttur sinni þá séu þessi atriði misráðin. Sé það á hinn bóginn ætlunin, og það finnst mér vera næstum gefið, skapast annað vandamál. Eftir þennan kafla er afskaplega erfitt að snúa sér aftur að kraftaverkum Reynis eins og ekkert hafi í skorist, fleiri heimsmetum, uppfinningu hans á stálvélvirki fyrir bifreiðar, mögulegu sambandi við handanheima, og öðru slíku. Reiðarslagið sem fylgir þessari uppljóstrun er slíkt að flæði og bygging myndarinnar taka róttækum umskiptum; Reynir sterki er farin að fjalla um allt annað en hún virtist í upphafi ætla að gera. Hvörf af einhverju tagi eru auðvitað algeng í heimildarmyndum og er í mörgum tilvikum aflvaki þeirra. Þegar glímt er við veruleikann innan þessarar formgerðar er alltaf lagt út í óvissuna í einhverjum skilningi. Um þetta eru mörg fræg dæmi, það svakalegesta er ef til vill heimildamyndaserían The Jinx, sem HBO sendi frá sér árið 2015.

Það sem erfitt er að sætta sig við eða samþykkja er að hvörfin eigi sér stað og upphaflegri stefnu sé samt haldið, að hvörfin séu sett inn í sviga líkt og þau geti annað en litað allt sem á eftir kemur, og endurskilgreint allt sem á undan hefur komið. Þetta er helsti ágalli myndarinnar. Undir lokin flytur leikstjóri útgangsorð, líkt og hann var með inngang í upphafi, og þar kemur fram að ferðalagið við gerð myndarinnar hafi verið öðruvísi en hann átti von á en vilji hans standi til að saga Reynis, sem tekin hafi verið að gleymast, verði með þessu móti varðveitt. Þarna glatast síðasta tækifæri myndarinnar til að takast á við það sem fram hefur komið. Myndin er auðvitað löngu hætt að snúast um það að reisa Reyni minnisvarða, sem er þó það sem sumir viðmælendur í myndinni virðast halda að verið sé a gera.

Það að Reynir hafi verið aflraunamaður, uppfinningamaður, kvikmyndagerðarmaður, snyrtimenni, og sjálfskynningarsnillingur – og margt fleira – fellur í skuggann af því að hann hafi verið ofbeldismaður og hugsanlega brotið gegn dóttur sinni. Fram hefur komið að leikstjórinn stígur inn í myndina með persónulegri vangaveltu tvisvar en raunar gerir hann það oftar – í samskiptum við dóttur Reynis heyrist Baldvin ræða hvort hún treysti sér til að ræða um áðurnefnd atvik í æsku hennar, en hún segir það ekki eiga erindi í heimildarmynd, og að hún hafi fyrirgefið föður sínum. Í þessum kafla myndarinnar má ímynda sér leikstjórann stíga með meiri þunga inn í myndina, líkt og hann gerir í upphafi og við lok hennar, og glíma með beinum hætti við þá stefnu sem verkið hefur skyndilega tekið. Aðrar leiðir má auðvitað ímynda sér, en efni sem skapar jafn mikið umrót í frásögninni kallar á að mínu mati á djarft formrænt og efnislegt svar, og það eru það mistök að aðhafast ekkert frekar. Að öðru leyti er hér er um framúrskarandi heimildarmynd að ræða, ágallinn sem ræddur hefur verið tengist með beinum hætti því hversu margslungið og flókið viðfangsefnið er.

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila