Mynd af kápu bókarinnar

Óður til smánudagsins

Friðgeir Einarsson
Takk fyrir að láta mig vita
Benedikt, 2016
Takk fyrir að láta mig vita er fyrsta bók Friðgeirs Einarssonar, en hann hefur víða látið að sér kveða, meðal annars sem meðlimur leikhópsins Kriðpleir, sem nú um mundir setur upp leikritið Ævisaga einhvers í Tjarnarbíói.

Bókin inniheldur þrettán smásögur sem hver um sig bregður upp skyndimynd af lífi sögumanna þar sem þeir fljóta missofandi í gegnum tilveruna. Lítið sem ekkert er um útskýringar á aðdraganda þeirra aðstæðna sem lesandi finnur sögumenn í, og oft er ýjað að áhugaverðri forsögu sem aldrei er farið í saumana á. Þetta gerir það að verkum að sögurnar fara að minna á ljósmyndir; þær fela meira en þær afhjúpa og verða þess valdandi að ímyndunarafli lesandans er gefinn laus taumurinn. Stíllinn er knappur og maður fær það á tilfinninguna að hvert einasta orð sé vandlega valið og hvert smáatriði sé þýðingarmeira en ætla mætti við fyrstu sýn.

Þetta gerir það að verkum að sögurnar fara að minna á ljósmyndir; þær fela meira en þær afhjúpa og verða þess valdandi að ímyndunarafli lesandans er gefinn laus taumurinn.
Persónurnar sem hér líta dagsins ljós eru hvunndagshetjur af ýmsu tagi; ófullnægði úthverfapabbinn, samviskusama skrifstofublókin, steggjapartýið sem er í bæjarleyfi frá daglegu lífi, snúbúinn sem orðinn er fráhverfur Íslandi, reglufasti eldvarnarfulltrúinn og þar fram eftir götunum. Sögumenn eru af báðum kynjum, á ýmsum aldri og bakgrunnur þeirra er harla ólíkur. Einnig er sögusviðið alþjóðlegt; skotist er frá úthverfum Reykjavíkur austur á land, suður til Frakklands, í austurrískan smábæ, til helgidóma Indlands og aftur í miðbæinn með viðkomu í Køben.

Það sem sameinar allar þessar sögur er ládeyða raunveruleikans og máttleysi eða viljaleysi sögupersóna til að raska henni, hvort heldur sem það er af vanmætti, eins og í Mjólkinni sem ég kaupi, af barnslegri einfeldni, eins og í Hlutverki, eða reglufestu stofnanavélmennisins, eins og í Rökstuðningi við ástandsmat. Meira að segja þegar sögupersónur eru á ferðalagi um framandi slóðir nær smásálarlegur gráminn oft í skottið á þeim. Persónulegt hreinlæti verður að bitbeini hjá Indlandsförum í Heilögum stöðum, elskendur kýta um allt og ekkert þar sem þeir þeytast fram og aftur um Frakkland í Staðsetningartæki, og sjálfur Arnold Schwarzenegger gefur heimahögum sínum fingurinn í sögunni Í Thal.

Rauði þráðurinn er einmitt þessi: kvíði gagnvart því sem framtíðin ber í skauti sér sem veldur því að erfitt er að einbeita sér að líðandi stund og njóta hennar.
Í sögunni Mjólkin sem ég kaupi er minnst á „nýtt hugtak á enskri tungu: Smonday, sambræðingur sunnudags og mánudags. Með öðrum orðum; sunnudagur sem fer í vaskinn af því að maður er heltekinn af kvíða yfir því að þurfa að mæta í vinnu á mánudegi. Ég stakk upp á þýðingu: Smánudagur. Það passar eiginlega enn betur, myndað á sama hátt en felur í þokkabót í sér smán og lítilleika. Smánudagur.” Þetta hugtak nær að fanga andrúmsloft þessa smásagnasafns nokkuð vel. Rauði þráðurinn er einmitt þessi: kvíði gagnvart því sem framtíðin ber í skauti sér sem veldur því að erfitt er að einbeita sér að líðandi stund og njóta hennar.

En þegar þetta andleysi hvunndagsins er sett fram á svona blátt áfram og sakleysislegan hátt fer það að verða ansi nærgöngult. Svona lifum við.
Oft er listilega dansað í kringum banalitetið og það sett fram á hálfpartinn ögrandi hátt. Við könnumst flest við grámósku hversdagsleikans og heilalausrar skrifstofuvinnu, eða grámósku djammsins og heilalausra dólgsláta, þar sem við föllum þægilega inn í hlutverk sem við höfum skapað okkur (eða okkur hefur verið skapað). Þetta hlutverk fellur ekki að sjálfsmynd okkar og aðspurð myndum við þvertaka fyrir að það skilgreindi okkur sem einstaklinga. En þegar þetta andleysi hvunndagsins er sett fram á svona blátt áfram og sakleysislegan hátt fer það að verða ansi nærgöngult. Svona lifum við. Svona er vor innri mónólógur. Það er erfitt að neita því. Og það er þar sem hárbeittur húmor frásagnarinnar liggur.

Á heildina litið er Takk fyrir að láta mig vita stórskemmtilegt smásagnasafn, oft og tíðum launhæðið en inn á milli er tekist á við miskunnarlausan raunveruleikann. Höfundi tekst að gera sögur af hinu hversdagslega, gráa og andlausa skemmtilegar aflestrar. Sérstaklega þóttu mér sögurnar Mjólkin sem ég kaupi, Rökstuðningur við ástandsmat og Hlutverk vel heppnaðar, útsjónarsamar og eftirminnilegar. Hér er á ferðinni óður til smánudagsins sem óhætt er að mæla með.

Um höfundinn
Gunnhildur Jónatansdóttir

Gunnhildur Jónatansdóttir

Gunnhildur Jónatansdóttir er með BA-próf í íslensku frá Háskóla Íslands og MA-próf í keltneskum fræðum frá University College Cork á Írlandi. Hún hefur einnig lagt stund á kennslu og þýðingar.

[fblike]

Deila