Hugleiðing: Sólarmegin í Hörpunni

Í Rýni, Tónlist, Umfjöllun höf. Einar SigurmundssonLeave a Comment

 
Um höfundinn
Einar Sigurmundsson

Einar Sigurmundsson

Einar Sigurmundsson er með M.A. - próf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Hann hefur áður lokið B.A. - prófi í almennri bókmenntafræði og lagt stund á meistaranám í íslenskum bókmenntum.

Harpa, tónlistarhúsið við höfnina, er töfrahús. Þar er alltaf einhver galdur í gangi. Í hvert sinn sem ég geng þaðan út eftir tónleika er ég ríkari en áður, hef upplifað einhverja gleði og ánægju. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða Íslensku óperuna, Kraftwerk, Stuðmenn, Hjaltalín, Stórsveit Reykjavíkur, Tómas R. Einarsson, Todmobile eða ýmsa kvennakóra landsins – allt á þetta svo vel heima í Hörpu. Þarna er loksins komið hús sem er byggt fyrir tónlist – alls lags tónlist. Síðast en ekki síst hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands eignast þarna samastað sem hentar henni og er hún sú hljómsveit sem ég hef hvað oftast séð og heyrt í Hörpu.

Ég var nýlega svo lánsamur að sitja tónleika Sinfóníunnar þar sem einleikari var Evgeny Kissin og stjórnandi Vladimir Ashkenazy. Tónleikarnir voru í alla staði frábærir en það sem  gerði þá reynslu dálítið óvenjulega fyrir mig var að ég sat fyrir aftan hljómsveitina, horfði framan í stjórnandann og hafði stútfullan sal af tónleikagestum fyrir framan mig. Ég sat hinum megin við borðið og leið næstum því eins og ég væri orðinn einn af hljómsveitarmeðlimum. Hljómsveitin flutti Sinfóníu nr. 3 eftir Johannes Brahms fyrir hlé og síðan Píanókonsert nr. 2 eftir Sergei Rakhmanínov þar sem Kissin lék af miklu öryggi og snilld. Þrátt fyrir að einn virtasti píanósnillingur samtímans væri að spila þá var það annar píanósnillingur, fæddur 1937, Vladimir Ashkenazy sem fangaði athygli mína. Hann er ótrúlega kvikur í hreyfingum og kom bókstaflega stökkvandi inn á svið Eldborgar. Það var eins og einhver stæði fyrir aftan hann og ýtti honum hressilega út um sviðsdyrnar. Ég heillaðist alveg af Ashkenazy og því hvernig hann stjórnaði með öllum líkamanum, svipbrigðum og látbragði. Hann þekkti píanókonsertinn vel þar sem hann hefur leikið hann sjálfur margoft og gefið út á hljómplötum. Af þeim sökum gat hann gefið sig allan í stjórnunina, kannski ekki alltaf með skýru slagi heldur með ógleymanlegu látbragði.

harpasinfo

Hann hélt höndunum að sér þegar að spila átti veikt, baðaði út öllum öngum þegar að spila átti sterkt og allt þar á milli. Þegar hann var sérlega ánægður með innkomu hljóðfæranna, til dæmis fiðlur á einum stað og pákur á öðrum, setti hann þumalinn upp til að láta það í ljós og blikkaði kankvíslega til hljómsveitarmeðlima.  Á einum stað þegar að hljómsveitin var ekki að spila, heldur einungis einleikarinn, stappaði hann niður fæti í takt við einleikskaflann. Á öðrum stað vakti eitthvað kátínu hjá honum því hann hló dátt framan í hljómsveitina. Allt bar þetta vott um einlæga gleði og virðingu fyrir verkefninu. Eftir að tónleikum lýkur er hefð fyrir því að hljómsveitarstjóri taki í hönd konsertmeistara en Ashkenazy tók í hönd allra hljóðfæraleikara sem hann náði til áður en hann gekk af sviðinu á eftir einleikaranum klappandi saman höndum. Hljómsveit og einleikara var fagnað með þvílíku lófataki að annað eins hefur varla heyrst í húsinu. Ashkenazy kom fram einu sinni ásamt Kissin og hneigði sig, en eftirlét svo sviðið þeim síðarnefnda sem spilaði tvö aukalög. Í því fyrra sá ég Ashkenazy gægjast út um sviðsdyrnar en svo dró hann sig í hlé, þannig að ekkert skyggði á Kissin.

Þetta var alveg ný og frábær upplifun á Sinfóníutónleikum – að fá að sitja hljómsveitarmegin í salnum.

Yfirþyrmandi náttúrukraftur smásagna Rómönsku-Ameríku

17. október, 2017Út er komið annað bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins sem hefur að geyma smásögur eftir ýmsa fremstu smásagnahöfunda Rómönsku-Ameríku, þar á meðal Jorge Luis Borges og Gabriel García Márquez. Smásagnaritun hefur verið mikilvæg í löndum álfunnar alla 20. öldina og fram á okkar daga og frá henni koma leiðandi höfundar í smásagnaskrifum. Í bókinni eru 22 smásögur frá sextán löndum og er elsta sagan frá 1917 en sú yngsta frá 2006. Aðalritstjóri þessa bindis, Kristín Guðrún Jónsdóttir, segir langflestar sögurnar vera þýddar úr spænsku, en einnig séu sögur þýddar úr portúgölsku, frönsku og ensku. Sögurnar eru allar þýddar úr frummálinu og ...

„Vér hverfum frá oss sjálfum“

16. október, 2017Franska leikritaskáldið Florian Zeller hefur fengið fjölmörg verðlaun fyrir verkið Föðurinn, meðal annars Moliere verðlaun árið 2014. Verðskuldað er það. Þetta er ákaflega vel skrifað og sterkt leikrit en það er þannig gert að það leiðir áhorfandann stig af stigi inn i hugarheim föðurins, André, (Eggert Þorleifsson). Sá hugarheimur er framandlegur og kemur okkur á óvart, það tekur smátíma fyrir áhorfandann að ná áttum. Ég ætla því að vara ykkur við og segja: ef þið ætlið að sjá þessa sýningu Þjóðleikhússins ættuð þið ekki að lesa lengra núna – lesið þegar þið eruð búin að sjá sýninguna! Má ég spyrja: ...

Leikstjóraspjall við Baltasar Kormák

13. október, 2017Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði, fjallar um Leikstjóraspjall Baltasar Kormáks, en hann svaraði spurningum um eigin feril og kvikmyndir, íslenska kvikmyndamenningu og framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar.

Deila

Leave a Comment