Ég var nýlega svo lánsamur að sitja tónleika Sinfóníunnar þar sem einleikari var Evgeny Kissin og stjórnandi Vladimir Ashkenazy. Tónleikarnir voru í alla staði frábærir en það sem gerði þá reynslu dálítið óvenjulega fyrir mig var að ég sat fyrir aftan hljómsveitina, horfði framan í stjórnandann og hafði stútfullan sal af tónleikagestum fyrir framan mig. Ég sat hinum megin við borðið og leið næstum því eins og ég væri orðinn einn af hljómsveitarmeðlimum. Hljómsveitin flutti Sinfóníu nr. 3 eftir Johannes Brahms fyrir hlé og síðan Píanókonsert nr. 2 eftir Sergei Rakhmanínov þar sem Kissin lék af miklu öryggi og snilld. Þrátt fyrir að einn virtasti píanósnillingur samtímans væri að spila þá var það annar píanósnillingur, fæddur 1937, Vladimir Ashkenazy sem fangaði athygli mína. Hann er ótrúlega kvikur í hreyfingum og kom bókstaflega stökkvandi inn á svið Eldborgar. Það var eins og einhver stæði fyrir aftan hann og ýtti honum hressilega út um sviðsdyrnar. Ég heillaðist alveg af Ashkenazy og því hvernig hann stjórnaði með öllum líkamanum, svipbrigðum og látbragði. Hann þekkti píanókonsertinn vel þar sem hann hefur leikið hann sjálfur margoft og gefið út á hljómplötum. Af þeim sökum gat hann gefið sig allan í stjórnunina, kannski ekki alltaf með skýru slagi heldur með ógleymanlegu látbragði.
Hann hélt höndunum að sér þegar að spila átti veikt, baðaði út öllum öngum þegar að spila átti sterkt og allt þar á milli. Þegar hann var sérlega ánægður með innkomu hljóðfæranna, til dæmis fiðlur á einum stað og pákur á öðrum, setti hann þumalinn upp til að láta það í ljós og blikkaði kankvíslega til hljómsveitarmeðlima. Á einum stað þegar að hljómsveitin var ekki að spila, heldur einungis einleikarinn, stappaði hann niður fæti í takt við einleikskaflann. Á öðrum stað vakti eitthvað kátínu hjá honum því hann hló dátt framan í hljómsveitina. Allt bar þetta vott um einlæga gleði og virðingu fyrir verkefninu. Eftir að tónleikum lýkur er hefð fyrir því að hljómsveitarstjóri taki í hönd konsertmeistara en Ashkenazy tók í hönd allra hljóðfæraleikara sem hann náði til áður en hann gekk af sviðinu á eftir einleikaranum klappandi saman höndum. Hljómsveit og einleikara var fagnað með þvílíku lófataki að annað eins hefur varla heyrst í húsinu. Ashkenazy kom fram einu sinni ásamt Kissin og hneigði sig, en eftirlét svo sviðið þeim síðarnefnda sem spilaði tvö aukalög. Í því fyrra sá ég Ashkenazy gægjast út um sviðsdyrnar en svo dró hann sig í hlé, þannig að ekkert skyggði á Kissin.
Þetta var alveg ný og frábær upplifun á Sinfóníutónleikum – að fá að sitja hljómsveitarmegin í salnum.
Að hverfa inn í annan heim
26. september, 2023Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor í íslenskum samtímabókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands fjallar um sýninguna Með Guð í vasanum eftir Maríu Reyndal sem sýnd er í Borgarleikhúsinu.Ritið:2/2023. Kynjahugmyndir, menning og trúarbrögð
21. september, 2023Þrjú víðfeðm hugtök vörðuðu veginn að áhugaverðum þemagreinum sem birtast í öðru hefti Ritsins sem nú er komið út. Það eru hugtökin kynjahugmyndir, menning og trúarbrögð.„Ég hef ákveðið að hætta að skilgreina mig sem kven-eitthvað eða karl-eitthvað“
12. september, 2023Unnur Steina K. Karls, meistaranemi í almennri bókmenntafræði, skrifar um kynseginleika í íslenskum skáldsögum.Deila