Hér kvikna draumar um atvinnutónlistarferil

[container] „Þetta er ótrúlegur skóli og í raun fyrsti smekkur af því sem koma skal leggi maður tónlistina fyrir sig“ segir Hekla Finnsdóttir, konsertmeistari Ungsveitar Sinfóníunnar, en árlegir tónleikar sveitarinnar voru haldnir í Hörpu um síðustu helgi. Þeim verður útvarpað á Rás 1 næstkomandi fimmtudagskvöld. Ungsveitin er hljómsveitarnámskeið fyrir ungt tónlistarfólk á aldrinum 13-25 ára. Forsenda fyrir að komast í inntökupróf sveitarinnar er að hafa lokið miðstigi á sínu hljóðfæri. Hekla hefur, ásamt Ástu Kristínu Pjetursdóttur víóluleikara, tekið þátt allt frá því að starf þetta hófst, árið 2009. „Við þurfum öll að fara í inntökupróf á hverju ári þar sem við spilum fyrir aftan tjald, til að tryggja jafnrétti í ákvarðantöku dómnefndar. Það er allt gert til að leyfa okkur að sjá inn í heim atvinnutónlistarmanna.“

Hjörtur Páll Eggertsson, leiðari sellósveitarinnar, tekur í sama streng en hann hefur verið þátttakandi í Ungsveitinni frá 2011. „Þarna fáum við tækifæri til að vinna með heimsklassa stjórnendum sem er náttúrlega ómetanlegt, sérstaklega hér á litla Íslandi.“

Já, og að fá að takast á við þessu stóru verk, hvar annars staðar fengi maður tækifæri til þess á okkar aldri? Þess vegna er ungsveitin svo magnaður vettvangur, þar er fólk á bak við tjöldin sem leggur á sig ómælda vinnu til að leyfa okkur að upplifa hvernig það er að tilheyra sinfóníuhljómsveit. Meðlimir Sinfóníuhljómsveitar Íslands þurfa til dæmis að hjálpa okkur á hverju ári því við höfum ekki mannskap í heila sveit. Kontrabassinn er þar verst settur, en það er bara einn strákur sem spilar á hann,

segir Ásta Kristín. „Þetta andrúmsloft hefur mikil áhrif á mann. Það er í rauninni fyrst hér sem maður byrjar að láta sig dreyma um að leggja tónlistina fyrir sig” segir Hekla.

Tónlistarmennirnir ungu segjast þó ekki gefa eldri kollegum sínum neitt eftir og leggi allt undir til að geta leikið hlutverkin sín fullkomlega af hendi. Hekla heldur áfram: „Undirbúningurinn hefst í rauninni á vorin en við fáum nóturnar okkar í apríl frá skipuleggjendum sveitarinnar og byrjum þá strax að æfa. Maður verður að vera tilbúinn að takast á við þá vinnu sem fylgir því að geta spilað almennilega.”

Á tónleikunum flutti Ungsveitin Rómeó og Júlíu eftir Tchaikovsky og Myndir af sýningu eftir Músorgskíj í útsetningu Ravel. „Þetta eru mjög ólík verk“ segir Hekla, „en alveg himneskt að spila hvort um sig. Maður er með gæsahúð allan tímann þó maður sé að spila þetta í hundraðasta skipti.

sinfo3

„Já og það er líka svo mikið „kikk“ að fá að spila í þessum sal,“ segir Ásta Kristín um Eldborgarsalinn. Og Hekla tekur undir það: „Þetta er svo mikil hópupplifun. Við erum búin að æfa verkin lengi og á þeim tíma myndast stemning fyrir ákveðnum augnablikum í verkunum. Maður er alltaf spenntur fyrir að sjá einbeitinguna í augum hinna á þeim augnablikum.“

Ungsveitarmeðlimirnir eru þó ekki fastir í heimi aga og einbeitingar enda er nauðsynlegt að geta hlegið að öllum þeim óvæntu uppákomum sem gerast, ekki síst á miðjum tónleikum.

Einu sinni á tónleikum, í hæga kaflanum í Mahler V, féll axlarpúðinn minn á gólfið með miklum látum. Þetta var mjög fyndið en það náðu samt allir að halda einbeitingu. Þetta hefur víst gerst tvisvar í sögu ungsveitarinnar, svo að ég er ekki ein um að hafa lent í þessu.

segir Ásta Kristín. „Þessi kafli er samt heilagur staður og svo heyrðist þetta meira að segja í útvarpinu,“ fullyrðir Hekla og þær skellihlæja.

Hjörtur á einnig ljóslifandi minningar frá ferli sínum með ungsveitinni. „Ég lenti í því þegar við spiluðum með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands að mæta seint inn á svið af því að ég var svo lengi að hnýta á mig bindishnút. Ég labbaði sumsé inn á eftir konsertmeistaranum, sem má hreinlega líkja við helgispjöll.“

„Það besta við Ungsveitina er hins vegar að kynnast fólki á sama aldri og maður sjálfur, sem hefur þennan gríðarlega áhuga á tónlist. Það gefur manni mjög mikið að sjá metnað annarra, þar kviknar áhuginn fyrir alvöru,“ segir Hekla að lokum.

Útsendingin á Rás 1 hefst klukkan 19 á fimmtudagskvöld.

Sólveig Ásta Sigurðardóttir, meistaranemi í menningarfræði.

[/container]

 

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *