Aðventa Gunnars Gunnarssonar er áhugaverð blanda skáldskapar og veruleika. Þórður Jónsson (1882–1968) í Brekkukoti fitjaði upp á efninu 1931 með frásöguþætti í Eimreiðinni þar sem hann rakti hrakningasögu sögupersónunnar á aðventu 1925. Gunnar prjónaði síðan við uns sagan var fullbúin á þýsku 1936, á dönsku 1937, í íslenskir þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar 1939 og höfundarins sjálfs 1976.
Það er áhugaverð spurning hvað sé sameiginlegt með Benedikt Sigurjónssyni (1872–1946) frá Grímsstöðum í Mývatnssveit, þekktum sem Fjalla-Bensa, og nafna hans í Aðventu. Fjalla-Bensi var knúinn af dýraverndarhugsjón og öræfafíkn af líku tagi og mörg okkar þekkja sem heyrum „óbyggðirnar kalla“. Benedikt í Aðventu hafði á hinn bóginn hafið ferðir sínar um „Strembu“ (svæðið vestan Jökulsár á Fjöllum) í sálarangist, leit að fró og innri friði, sátt vegna brostinna vona. Ferðir hans eru öðrum þræði glíma við vonbrigði og harm.
Í sögunni hefur alvitur sögumaður orðið og lýsir Benedikt úr kaldri fjarlægð. Sögumanni finnst í einu og öllu „eitthvað hálfgildings og lítilmótlegt“ við Benedikt, hann sé „að hálfur maður, að hálfu skepna“. Benedikt er þó íhugull maður sem hugleiðir bæði stöðu sína og hlutverk í heiminum.
Siðfræði sögunnar endurspeglar klassískt, íslenskt gildismat. Enginn skyldi liggja á liði sínu heldur leggja sig allan fram. Æðruleysi er æðst dyggða ásamt hógværð, hófsemi, aðgætni og virðingu fyrir höfuðskepnunum en lengst af sögunnar tekst Benedikt á við stórviðri líkt og strákurinn í Harmi englanna eftir Jón Kalman. Þá eiga menn að bera harm sinn í hljóði. — “Enginn skyldi áhyggjum við annan deila. Hver og einn á nóg með eigin armæðu“.
Gildismat Benedikts víkur þó í grundvallaratriðum frá viðteknum hugsunarhætti hins forsjála bónda þannig að hvorugur skilur hinn. Benedikt leggur „jafnvel líftóruna í sölurnar til þess eins að bjarga fáeinum flökkurollum, sinni úr hverri áttinni! Sjálfur á Benedikt aðeins fáar kindur og vantar enga“. Þarna leynist biblíuminni. Benedikt er góður hirðir á ferli um Mývatnsöræfin.
Benedikt hugleiðir líka inntak og boðskap aðventunnar og í huga hans tengir hún saman himinn og jörð, helgi og hversdag. Í einveru og kyrrð hvarflar hugur hans út fyrir tíma og rúm og um leið skynjar mann merkingu og tilgang í ófullkomnu lífi sínu á jörðinni:
Aðventa! … Benedikt tók sér orðið í munn af stakri varfærni, þetta mikla hljóðláta orð, furðulega annarlegt og þó um leið innfjálgt, sennilega það orð sem snart hann dýpra en öll önnur. Hverju það bjó yfir var honum að vísu alls ekki ljóst, nema að það fól í sér að einhvers væri vant en eftirvænting á næsta leiti, undirbúningur einhvers betra — það fór ekki milli mála. Eftir því sem árin færðust yfir hann var sem allt hans líf væri orðin ein aðventa. Því hvað var líf hans, rétt á litið, hvað var líf mannsins á jörðinni ef ekki ófullkomin þjónusta sem helgaðist af bið eftir einhverju betra, eftirvænting, undirbúningi — þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða. (Gunnar Gunnarsson, 1996: Aðventa. Reykjavík, Mál og menning. Bls. 12.)
Aðventan kallaði líka fram sælustu minningar og heitustu drauma Benedikts eða hvaða draumur er heitari en „von um sumarland“:
Og þarna í næturkyrrðinni og einverunni undir skörðum mána hvarflaði aftur að honum aðkenning af aðventu, leifar af hljómum, endurminningar um sólskin og heyilm, von um sumarland — eða hvað það nú var. Ef til vill aðeins einskonar innri kyrrð og friður. (Gunnar Gunnarsson, 1996. Bls. 58.)
Sum okkar muna heyilm bernskunnar hvort sem er úr flekk eða hlöðu . Öll dreymir okkur þó líklega sólskin og sumarland í svartasta skammdeginu. Á þann hátt tjáir Gunnar Gunnarsson sammannlega kennd í sögu sinni. Öðrum þræði boðar Aðventa því von — eins og aðventan í kirkjuárinu.
Leave a Reply