Reykjavíkurborg var nýverið útnefnd ein af Bókmenntaborgum UNESCO. Reykjavík er fimmta borgin í heiminum til að hljóta þennan titil, en í samtökum Bókmenntaborga UNESCO eru fyrir Edinborg í Skotlandi, Iowa City í Bandaríkjunum, Melbourne í Ástralíu og Dublin á Írlandi. Reykjavík er því fyrsta borgin utan enska tungumálasvæðisins til að hljóta titilinn. Bókmenntaborginni Reykjavík verður formlega hleypt af stokkunum á Alþjóðlegu bókmenntahátíðinni í Reykjavík í september næstkomandi.
Í útnefningu UNESCO segir meðal annars að Reykjavík státi af framúrskarandi bókmenntahefð í formi ómetanlegra miðaldabókmennta sem varðveittar eru í borginni og eru Íslendingasögurnar, Eddukvæði og Íslendingabók nefnd sérstaklega. Þá segir að þessi rótgróna hefð sýni sig í varðveislu, miðlun, bókmenntakennslu og kynningu bókmennta nú um stundir. Einnig er tekið til þess að svo fámenn borg sinni bókmenntum af svo miklum krafti sem raun ber vitni, með þátttöku og samvinnu ólíkra aðila sem koma að bókmenningu og miðlun bókmennta, svo sem útgefenda, bókasafna og rithöfunda. Hægt er að nálgast umsókn Reykjavíkurborgar á vefnum bokmenntir.is.
Rúnar Helgi Vignisson, lektor í ritlist við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, tók þátt í vinnu við gerð umsóknar Reykjavíkurborgar um titilinn. Hugrás hitti Rúnar að máli og ræddi meðal annars við hann um hvaða þýðingu útnefningin hefði fyrir Reykjavík og íslenskt bókmenntalíf. Rúnar segir meðal annars að nú sé þýðingarmest að koma á samstarfi milli bókmenntaborga UNESCO til að efla sköpun í þeim.
Leave a Reply