Um höfundinn
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Gunnþórunn Guðmundsdóttir er prófessor í almennri bókmenntafræði. Rannsóknasvið hennar eru sjálfsævisögur á síðari hluta 20. aldar og 21. öld, minnis- og trámafræði í bókmenntum, ljósmyndir í skáldskap og æviskrifum, samtímabókmenntir, spænskar og franskar bókmenntir. Sjá nánar

Fólk mótmælir óeirðunum í Lundúnum með því að ganga um götur borgarinnar með kúst í hönd. Mynd: AP.
Fólk mótmælir óeirðunum í Lundúnum með því að ganga um götur borgarinnar með kúst í hönd. Mynd: AP.

Sagt er að í London búi fátækasta fólk Evrópu og það ríkasta, miðjan hafi verið kreist út í nærliggjandi byggðarlög. Það hefur enginn efni á að búa í London. Í Knightsbridge keyra olíufurstarnir um á brynvörðum bílum og það klingir í skartgripum Dorrit og hinna ,,ladies who lunch“. Í Chelsea, Hampstead, Belsize Park og Primrose Hill skutlast liðið með börnin í skólann á jeppunum sínum (aka The Chelsea Tractor) með tíu punda kaffi í pappamáli og Helenu Bonham-Carter og öðrum leikaralufsum sést bregða fyrir í antíkbúðunum.  Í Tottenham, West Ham, Peckham, Brixton, Hackney o.s.frv. o.s.frv. sjást endalausar breiður af bæjarblokkum, þar sem atvinnuleysið gengur í ættir (í sumum fjölskyldum þrjá til fjóra ættliði), og ekkert er við að vera, nema stunda einhverja smáglæpi sem koma þó fáum nokkurn tímann út úr hverfinu. Tony Blair/Ken Livingstone ætluðu einhvern tímann að reyna að koma upp húsnæði fyrir ,,venjulegt fólk“ því nú búa hjúkkur, kennarar og slökkviliðsmenn (svo einhverjir séu nefndir) svo langt frá vinnustöðum sínum að til vandræða horfir.

Það er gömul klisja að London sé samsafn af þorpum og bæjum sem hafa lítið samneyti og að það sé bara þegar konunglegar athafnir (helst jarðarfarir eða brúðkaup) eru haldnar eða þegar barist er á götum úti að íbúarnir hittast eða taka eftir hver öðrum. Eitt sinn vann ég á rannsóknarstofnun, sem sérhæfði sig í félagssálfræðirannsóknum á þunglyndi, við að skrá niður viðtöl við fátækar mæður í borginni (jú, það var mjög upplífgandi starf…). Fæstar fóru nokkru sinni út úr sínu hverfi og ein þeirra átti í mesta basli að muna nafnið á Regents Park sem hún hafði einu sinni heimsótt til að fara í dýragarðinn.

Allt endurspeglar þetta hina margumtöluðu bresku stéttaskiptingu sem virðist ætla að takast að verða langlífari en nokkurn hefði grunað og nú þegar ConDem-stjórnin sker niður húsnæðis- og atvinnuleysisbætur, hækkar skólagjöld o.fl. o.fl. festist þetta allt saman enn í sessi. Dýrara er að ferðast um London en nokkru sinni fyrr, dýrara að lifa af, færri peningar til skiptanna og færri atvinnu- og námstækifæri en áður.

Þegar ég flutti fyrst í þessa borg, bjó ég í bæjarblokk í Peckham, sem logaði í óeirðum í fyrradag. Þaðan tók ég lestina frá Waterloo í hálftíma til skólans míns sem var í 19. aldar eftirlíkingu af franskri höll í Egham í Surrey sem státaði helst af Ferrari bílasölum (í miðju svokölluðu stockbroker belt). Í hvert sinn fannst mér eins og ég hefði stolist uppí Tardis vél Dr Who; þessir heimar áttu ekkert sameiginlegt og mættust aldrei nema hjá laumufarþeganum mér, sem strauk svo auðvitað fljótlega úr Peckham.

Mín uppáhaldsborg, sem var endalaus uppspretta nýrra hluta til að sjá og gera í öll þau ár sem ég bjó þar (enda var markmið okkar að heimsækja sem flest hverfi hennar), virðist þessa dagana ekkert hafa breyst síðan í óeirðunum á Thatcher-árunum. En svo slæmt er það ekki. Maður þarf ekki annað en að þvælast um lífleg hverfi eins og Brick Lane, Hoxton, Camden eða Borough markað, til að sjá að í hversdeginum í London býr allskonar fólk, allsstaðar að, saman alla daga og mætir svo vopnað kústum til að sópa eftir óeirðirnar, eins og húsmæður á nýársdag. Bara að þessu öllu sé ekki sópað undir teppið og látið eins og þetta skipti ekki máli og eigi sér engar ástæður sem hægt sé að takast á við…


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *