Ljósbrot í táradalnum

Flóki Larsen er íslenskufræðingur, meistaranemi, bóksali og bókavörður. 

Ljósbrot er nafn nýrrar kvikmyndar Rúnars Rúnarssonar sem frumsýnd var 28. ágúst. Handritið skrifar Rúnar ásamt því að leikstýra myndinni. Hún hefur hlotið góðar viðtökur hjá íslenskum gagnrýnendum. Myndin keppti á kvikmyndahátíðinni í Cannes í flokknum „Un Certain Regard“ en þar er myndum hampað sem sýna listræna djörfung. Ljósbrot ferðast nú á milli alþjóðlegra kvikmyndahátíða og hlaut á dögunum aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Osló.

Elín Hall leikur aðalpersónu myndarinnar, Unu, sem er í gjörninganámi í Listaháskólanum og í hljómsveit, m.a. með skólafélögum úr LHÍ. Hún á í leynilegu ástarsambandi við annan meðlim sveitarinnar, Didda, en sá á kærustu úr sínu gamla plássi úti á landi. Því sambandi hafði Diddi ákveðið að ljúka en kemur því ekki í verk áður en hann deyr skyndilega í umferðarslysi ásamt fjölda fólks. Í framhaldinu neyðist Una til að bera harm sinn í hljóði í kringum vini Didda sem hún umgengst í kjölfar slyssins. Þeirra á meðal er Klara, gamla kærstan leikin af Kötlu Njálsdóttur, sem kemur í bæinn og slæst í hópinn. Elín fer vel með hlutverk Unu þegar tilfinningarússibani sorgar, reiði og samviskubits tekur yfir sálarlíf hennar um leið hún gerir upp við sig hvort hún eigi að leysa frá skjóðunni um samband sitt við Didda eða ekki.

Heillandi fyrir auga og eyra

Ljósbrot er að mörgu leyti vel gerð mynd. Rúnari tekst ásamt samstarfsfólki sínu að skapa stemmingu sem er heillandi fyrir auga og eyra. Fagurfræðin er til fyrirmyndar, kvikmyndataka Sophiu Olsson er metnaðarfull og þess má geta að tekið er upp á filmu. Sú aðferð gefur myndinni sérstakt yfirbragð sem hjálpar til við að fanga þau mörgu feiknafallegu skot sem eru í myndinni. Þá er tónlistin í umsjón Kjartans Sveinssonar einnig góð og fellur vel að efni og stemningu myndarinnar.

Ljósbrot er frekar stutt, aðeins 82 mínútur og líður töluvert fyrir þá lengd. Þrátt fyrir góðan leik Elínar og flestra aukaleikara, þeirra Kötlu, Ágústar Wigum, Mikaels Kaaber og Gunnars Hrafns Kristjánssonar gefur Rúnar sér ekki nægilegt rými til að sinna persónusköpun í handritinu. Harmleikurinn á sér stað snemma í myndinni en það hefði gert sögunni gott og aukið á dýpt aðalpersónunnar Unu ef áhorfendur hefðu fengið að kynnast henni betur áður en Diddi fellur frá. Árekstrar milli persóna í myndinni eru tiltölulega fáir en það myndi styrkja söguþráðinn ef sögupersónurnar tækjust meira á og við fengjum að kynnast persónueinkennum þeirra og baksögu betur. Þá hefði gjarnan mátt kafa dýpra í þann risavaxna árekstur sem lagt var upp með á milli Unu og Klöru. Hægt hefði verið að einblína á þá sögufléttu sem er spennandi en ekki nægilega vel fylgt eftir. Þess í stað fer sagan í auknum mæli að snúast um samheldni ungmennanna í skugga áfallsins. Þau rækta hópinn með því að skemmta sér, þ.e. drekka, tala og dansa saman þrátt fyrir að á móti blási.

Betur má ef duga skal

Augljóst er að mikill kærleikur er á milli þessa unga fólks, jafnvel meiri en tilefni er til að sýna í ljósi þess hve takmarkað áhorfendur kynnast meðlimum vinahópsins. Í myndinni eru allmörg atriði, þar sem persónurnar bölva fráfalli Didda með ekka og tárin í augunum, fallast í faðma og syrgja með ýmsum öðrum hætti. Það er ekki nema eðlilegt í þessum aðstæðum enda um hræðilegt slys að ræða. Hins vegar er það hlutverk handritshöfunda og leikstjóra að velja slík augnablik sparlega þannig að þau verði ekki væmin. Tilhlaupið að tárunum er ekki nægilega langt í svo stuttri mynd. Eins og Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur sagði í pistli nýlega, þá er versta synd stéttarbræðra og -systra hans þegar rithöfundur biður lesendur sína um að gráta án þess að hann vinni fyrir því fyrst. Það er beinlínis tilætlunarsemi að ætlast til að lesendur eða áhorfendur finni til með persónum sem þeir þekkja ekki neitt.

Rúnar á þó hrós skilið fyrir að taka sig ekki of alvarlega. Í táradalnum birtir reglulega til þar sem myndin er oft fyndin og Rúnar vinnur á sniðugan hátt með gjörningalistnám Unu sem skotspón grínsins. Samtöl unga fólksins í Ljósbroti eru þó á köflum tilgerðarleg og tilfinnanlegt er, a.m.k. fyrir kvartaldargamlan kvikmyndagagnrýnanda, að samtöl um grasreykingar og kynlíf séu skrifuð af handritshöfundi sem er talsvert eldri en sögupersónurnar. Þar hefði Rúnar getað notið aðstoðar frá sér yngra fólki við handritsgerðina eða jafnvel mátt leyfa  leikurunum að finna taktinn í spuna.

Án þess að láta of mikið í ljós um endalokin má segja að Una fái tæplega úrlausn sinna mála. Rúnar býður upp á áhugaverða sögu en tekst ekki að fylgja henni eftir. Ljósbrot hefur þónokkur gæði á ýmsum sviðum. Kostir myndarinnar falla þó í skugga handritsins og nægja því ekki til að úr verði heilsteypt verk.

Heimildir:

Flóki Larsen er íslenskufræðingur, meistaranemi, bóksali og bókavörður

Textinn er unninn í námskeiðinu Vinnustofa í menningarblaðamennsku við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.