Nýlega var opnuð sýningin Fjallið innra með málverkum Stefáns V. Jónssonar, betur þekktur sem Stórval, í galleríinu i8 á Tryggvagötu. Þrjátíu ár eru liðin síðan Stefán féll frá.
Stefán flutti frá Mörðudal á Austurlandi til Reykjavíkur árið 1955 til að sinna verkamannavinnu og listinni. Hann nýtti sér málverkið til að tjá sig, sínar upplifanir og þrá eftir sveitinni. Hann var afkastamikill listamaður og hélt fjölmargar sýningar undir berum himni frá árinu 1959. Fyrsta sýning Stefáns innandyra var haldin árið 1979 í Gallerí SÚM við Vatnsstíg.[1] Galleríið var rekið af SÚM-hópnum sem kom sem ferskur andblær á sjöunda áratug síðustu aldar með nýjar listhugmyndir sem ekki höfðu áður sést í íslensku listasenunni. Meðlimir hópsins litu á FÍM, Félag íslenskra myndlistarmanna, sem boðbera íhaldsseminnar og vildu búa til vettvang til að skoða ókannaðar slóðir listarinnar.[2] Stefán segir sjálfur í viðtali við Pál Heiðar Jónsson dagskrágerðarmann að hann hafi orðið fyrir mismunun og ítrekað svikinn um sýningarhald, þar til Sigurður Guðmundsson, einn stofnanda SÚM, leitaði til hans. Sýningin sem haldin var í kjölfarið í Gallerí SÚM vakti mikla athygli, meðlimir hópsins löðuðust að afdráttarlausu viðhorfi Stefáns gagnvart listinni, sköpunarkrafi hans og dugnaði. Stefán varð Stórval og eru verk hans nú orðin að eftirsóknarverðum listmunum.[3] En það voru ekki aðeins verk hans sem vöktu athygli, Stefán var sjálfur óvenjulegur karakter sem synti á móti straumnum.
Í kynningartexta sýningarinnar Fjallið innra, skrifaður af Unnari Erni, er dregin upp mynd af listamanninum. Ljóst er að Stefán var litríkur karakter í lífi miðbæjar Reykjavíkur. Tungumál og flæði textans er taktfast og ljóðrænt og minnir á form ævintýranna. Unnar Örn fer ansi stórum orðum um Stefán í textanum. Lof hans um Stefán varpar vissum skugga á sýninguna þar sem verk Stefáns og listsköpun eru upphafin og á þar persónugerð hans ríkan þátt í. Verkin sjálf eru sjarmerandi á sinn einfalda hátt en vinsældir þeirra eru sterklega tengdar við sjálfan listamanninn. Sérstaða málverka Stefáns í samtímanum mótast því af áhrifum persónuleika hans á upplifun áhorfandans. Ef listamaðurinn er fjarlægður úr formúlunni sitja eftir naív málverk og erfitt er að færa rök fyrir upphafningunni á þeim. Stefán var vel þekktur maður, kynlegur kvistur, sem almenningur tók eftir á götum Reykjavíkur. Sýningin er knúin áfram á goðsögninni um Stefán sem er það nátengd verkunum að ekki er hægt að aðskilja þau. Inntak verkanna fellur því í skugga goðsagnarinnar.
Frásögn í óheflaðri litanotkun
Sýningarrýmið í i8 er með náttúrulegri birtu þar sem heill veggur er þakinn gluggum. Það er því hægt að virða fyrir sér sýninguna frá gangstéttinni og horfa inn í hugarheim Stefáns. Málverk sýningarinnar eru hengd upp á veggi rýmisins og minnir uppsetningin á frásögn, eða jafnvel tónstef. Stefán hengdi upp verkin á sínum eigin sýningum frá gólfi til lofts, eins og algengt var á listsýningum í Evrópu fyrr á öldum. Uppsetning i8 rímar því við hefðir samtímans, línuleg frásögn mynda. Það sem einkennir verk Stefáns er litagleði og endurtekningar sem birtast skýrt á sýningunni. Til að mynda málaði hann fjölmörg málverk af Herðubreið, í mismunandi litum og stærðum, og eru nokkur dæmi af þeim til sýnis í i8. Einfaldleiki Herðubreiðarverkanna, formfesta þeirra og óhefluð litanotkun, vekur upp gleðitilfinningu. Titill sýningarinnar, Fjallið innra, gefur í skyn að fókusinn sé á tilfinningalega miðlun Stefáns á sveitinni þar sem lögð er áhersla á gleði og gaman. Þegar áhorfandinn gengur um salinn þarf hann að velja hvaða leið hann gengur og þar með hvaða frásögn hann vill skapa. Ef valin er sú leið sem rýnir tók, klukkuhringinn, þá hefst sýningin á verkum sem best væri að lýsa sem draumkenndum. Guðlaugsstaðir „Húnvassá“ er málað í jarðlitum, allar línur þess eru fljótandi og lausar og því algjör andstæða við verk Stefáns af Herðubreið. Á næsta vegg tekur málverk á móti manni, Örnefni í Möðrudal og Víðidal, sem kallar fram hugleiðingar um ævintýralönd. Það minnir þó einnig á götulistaverk, ekki síst verk hins bandaríska Jean-Michel Basquiat. Landslagsmyndir og fjöll eru áberandi viðfangsefni en einnig eru til sýnis hestar, hrútar og nokkur málverk af konum. Kvennaverkin bera öll titilinn Untitled og eru máluð í svipuðum stíl og verkin af Herðubreið. Mikil formfesta er yfir myndunum og uppbyggingin sterkleg. Litavalið og svipir kvennanna vekja upp forvitni um hvaða hlutverki þær eigi að sinna í frásögninni – hverjar eru þær og hvað vilja þær áhorfandanum?
Skrúður eða eik
Það sem stingur rýnanda þó allra helst í augu eru myndarammar sýningarinnar. Öllum upprunalegum römmum verkanna, sem voru skrúðugir og umfangsmiklir, var skipt út fyrir hinn klassíska eikarramma – einkenningsbúningur verka í galleríum. Með því er búið að breyta upplifun áhorfenda af verkunum, aðlaga þau að hvíta kassanum. Rammar eru stór hluti af verkum og geta breytt upplifun áhorfanda á verkinu. Val á römmum fyrir málverk ætti ávallt vera gert í samstarfi við listamanninn sjálfan. Þar sem listamaðurinn í þessu tilfelli er látinn og hefur því ekki tækifæri til þess að tjá skoðun sína á valinu ætti helst að líta á verkin eins og safngripi eða sögulegar heimildir. Sem dæmi eru verk Kjarvals alltaf sýnd í þeim römmum sem endurspegla þau tímabil sem verkin voru máluð. Hægt er að líta á ramma sem framlengingu af verkum sem gefa aukna dýpt í sögulegt samhengi verkanna. Verk sýningarinnar koma öll úr einkaeigu og það hefði verið mun hversdagslegra ef upprunalegu rammarnir hefðu fengið að fylgja. Sú ákvörðun að skipta þeim út vekur upp spurningar um hvað á í raun heima innan veggja gallería. Ef það þarf að fjarlægja hluta verksins til þess að það passi betur inn í sýningarsalinn, á verkið yfir höfuð heima þar?
Hverjir eiga að endurskrifa listasöguna?
I8 er eitt elsta og áhrifamesta gallerí Íslands sem leggur áherslu á hugmyndafræðilegan aga og vitsmunaleg vinnubrögð listamanna.[4] Galleríið er faglegt, þ.e. það vinnur með sérvöldum atvinnulistamönnum með þann tilgang að koma þeim á framfæri og selja verk þeirra.[5] Fjallið innra er því sölusýning sem ætlað er að koma verkum Stefáns á framfæri, bæði hérlendis og erlendis. Stefán hefur verið kallaður alþýðulistamaður, hann var sjálflærður, utangarðsmaður í íslenskri myndlist. Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur, tók saman í bók sinni Einfarar í íslenskri myndlist þá listamenn sem nefndir hafa verið næfir eða einfarar og fjallar þar meðal annars um Stefán. Lykiorðið er þó utangarðsmaður. Stefán, ásamt öðrum næfum listamönnum, fékk ekki að vera með, hann var lægra settur en listaelítan.[6] Síðastliðin ár hafa verið haldnar sýningar með verkum einfara í íslenskri myndlistarsögu, t.d. Sölva Helgasonar (Sólon Íslandus) á Kjarvalstöðum og Ísleifs Konráðssonar í gamla bókasafninu á Drangsnesi. Er þetta augljós tilraun til þess að endurskrifa íslenska myndlistarsögu og horfa á verk þessara alþýðulistamanna með sömu augum og á verk viðurkenndari listamanna. Verk Stefáns hafa haft áhrif á mjög stóran hóp íslenskra listamanna sem hafa kunnað að meta skarpleikann og leikinn sem verk hans bera vott um.
Verk Stefáns eru mikilvægur hluti íslenskrar listasögu, en rétti staðurinn fyrir þá staðfestingu er ekki innan veggja hugmyndafræðigallerís. Sýningin er í raun sett upp á röngum stað. Ef það á að endurskrifa listasöguna er það hlutverk listasafna að taka þátt í þeirri umbreytingu. Listasöfn safna verkum og varðveita, rannsaka þau og sýna.[7] Með því hafa þau mjög mikil áhrif á hvernig sagan leggur sig. Listamannarekin rými, eins og Gallerí SÚM á sínum tíma, taka einnig virkan þátt í endurritun listasögunnar. Þar er list oft sýnd án hagsmunasjónarmiða og áhersla lögð á vinnu og verk listamannanna. Þar gefst jaðarlistamönnum tækifæri til þess að miðla sinni list til almennings og einnig geta þeir fangað athygli stærri stofnanna eins og listasafna. Stefán var ekki hugmyndalistamaður og því passa verk hans ekki í hugmyndafæðilegt umhverfi i8. Þar sem galleríið starfar með sérvöldum listamönnum sem eiga það sameiginlegt að vinna með hugmyndalist er spurning af hverju Stefán varð fyrir valinu. Hann er settur í hóp með atvinnulistamönnum vegna persónueinkenna sinna og hafinn upp á stig snillingsins. Hver hefur það vald til að ákveða hvaða alþýðulistamenn eru upphafnir sem snillingar? Upphafning Stefáns setur hann ofar í hefðarveldi listasögunnar en kvenkynseinfara á borð við Gunnþórunni Sveinsdóttur og Sigurlaugu Jónasdóttur. Verða þær líka teknar inn í endurskoðun myndlistarsögu Íslands?
Þegar á heildina litið eru sýnd í i8 verk manns sem var jaðarsettur og er sýningin tilraun til þess að upphefja bæði verkin og manninn. Málverkin draga fram bros, litadýrð þeirra og frásagnargleði, og eru ljós í haustsúldinni. Þó að verkin beri ekki saman við áherslur gallerísins hvetur rýnir til áframhaldandi umfjöllunar um fleiri einfara íslenskrar myndlistarsögu.
Sunna Austmann Bjarnadóttir er með BA gráðu í myndlist, stundar meistaranám í listfræði við Háskóla Íslands og starfar sem bóksali.
Textinn er unninn í Vinnustofu í menningarblaðamennsku við Háskóla Íslands.
[1] Unnar Örn, „Stefán V. Jónsson a.k.a. Stórval,“ i8, 3. september 2024.
[2] Inga S. Ragnarsdóttir og Kristín G. Guðnadóttir, Útisýningarnar á Skólavörðuholti 1967-1972 (Reykjavík: Minningarsjóður um Ragnar Kjartansson 1923-1988 í samvinnu við Myndlistaskólann í Reykjavík og Myndhöggvarafélagið í Reykjavík, 2017), bls. 52.
[3] Unnar Örn, „Stefán V. Jónsson a.k.a. Stórval.“
[4] „About,“ i8, 3. september 2024.
[5] Einar Falur Ingólfsson, „Samtímalist sem skiptir máli.“ Lesbók Morgunblaðsins, 30. október 1999: bls. 17.
https://timarit.is/page/3314947#page/n16/mode/2up
[6] Aðalsteinn Ingólfsson, Einfarar í íslenskri myndlist (Reykjavík: Almenna bókavélagið, 1990), bls. 5, 7-8, 13-14.
[7] „Hvernig virkar listasafn?,“ Listasafn Íslands, 11. september 2024. https://gamli.listasafnreykjavikur.is/midlun/abrakadabra/spurtogsvarad/hvernigvirkarlistasafn