Hamraborgin/Harmaborgin

Leikmynd Barkar Jónssonar var það fyrsta sem kom manni á óvart á Litla sviði Borgarleikhússins í gær. Þar gnæfðu háir hamraveggir yfir stofu þar sem Ingi (Sigurður Þór Óskarsson) er að hengja upp jólaskraut og Davíðsstjörnu, hangikjöt sýður í potti, grænar baunir í skál. Það er aðfangadagskvöld. Kona Inga, Lúna, (Ásthildur Úa Sigurðardóttir)kemur á svið, reiðubúin til að fagna jólunum, klædd í einhvers konar hiphop galla, gjafabol frá Pepsy, „sem fylgja pylsupökkum“ og öskureið. Þetta eru síðustu jól þeirra hjóna því að Lúna vill skilja. Hún geisar um stofuna, rífst við Inga sem stendur við eldhúseyju aftarlega í stofunni og ögrar honum af mælsku og illsku en hann tekur lítið af öllu. Hún hefur lengi þráð að eignast barn en hann ekki. Þau eru föst í þrátefli sem þau komast ekki út úr af ástæðum sem koma fram undir lok verksins. Og nú eru komin jól.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum, fjallar um Lúnu í sýningu Borgarleikhússins.

Lúna strunsar út til að heimsækja (ömurlegan) elskhuga sinn og þá hringir dyrabjallan og eins og segir í kynningu verksins: „þar er ekki kominn jólasveinn eða andi jólanna heldur Heiðar snyrtir.“ (Hilmir Snær Guðnason) Hann er gamall fjölskylduvinur Inga og á við hann erindi. Heiðar er búinn að klúðra öllu, kominn upp að vegg samfélagslega og búinn að gefa fjölskyldu sinni innistæðulaus loforð og þarf fjárhagslega hjálp og huggun. Þetta hlutverk er ekki auðvelt eftir mótmælin sem fóru á undan sýningunni en Hilmir Snær fer afar vel með það. Hann hermir eftir Heiðari og miðlar bæði misgóðum bröndurum hans og frekar eitruðum athugasemdum í bland við hlýju og innsæi sem hann hefur í þjáningu unga fólksins. 

Í verkinu skiptast á bráðfyndnir kaflar þar sem Heiðar snyrtir (Hilmir Snær Guðnason) sýnir okkur bæði fyndinn, viðkvæman og kaldhæðinn Heiðar snyrti sem hefur risið hátt og fallið lágt um sína daga. Hann segist elska og lifa fyrir fegurðina og getur þulið upp nöfn allra fegurðardrottninga á Íslandi í áraraðir og dýrkar þær allar. Ein þeirra er mamma Inga.

Heiðar skoðar það sem hlutverk sitt að „hjálpa“ konum að kalla fram fegurð sína og verða fallegar og vel klæddar eftir árstíðakerfi sem hann hefur sjálfur búið til. Hann er eins og íslensk útgáfa af Siggu Kling og prófessor Henry Higgens. En frægðarsól hans er hnigin og nú leitar hann til síns gamla vinar, Inga.

Leikur Sigurðar Þórs var afbragðsgóður og smám saman skýrast tengsl þeirra Heiðars og fyrir honum afhjúpar hann leyndarmál sitt.  

Samband þeirra tveggja á sér sögu, er enn viðkvæmt og sterkar tilfinningar eru enn til staðar þó ýmislegt sé óuppgert líka. Allt leikritið verður áhorfandi raunar að taka afstöðu til persóna sem virðast vera á einn veg en reynast vera á annan.

Í eigin augum er Heiðar bjargvættur kvenna og verulega góður maður þar sem hann frelsar kvenfólkið undan náttúrulegu útliti sínu. Hann hefur fengið dóm og refsingu fyrir eftir Egilsstaðamálið og það hefur sýnt honum kolsvart á hvítu að þrár hans eru fordæmdar af mörgum og hann er ekki lengur velkominn meðal þeirra sem áður dýrðuðust með hann. Virði hans í bransanum er kolfallið og það gerir Lúna honum vel ljóst í jólaveislunni. Þar mætast aldeilis stálin stinn og ekki hægt að kvarta yfir skorti á mælsku og illgjörnnum skotum en á endanum er ekkert eftir nema opin sárin.

Endir verksins er harmrænn og Ásthildur Úa/Lúna setti punktinn aftan við sýninguna með glæsibrag. Hún er á tiltölulega stuttum tíma orðin mögnuð leikkona.

Ég var búin að hlakka til þessarar sýningar eins og allra verka Tyrfings Tyrfingssonar sem er athyglisverðasti leikhöfundur vorra daga. Það má líka hæla leikstjórn Stefáns Jónssonar. Mér finnst það líka vel við hæfi að verkið hafi verið kallað Lúna en það er heiti tunglsins sem er frá fornu fari tengt líkama og kynferði konunnar framar öðru og þar af leiðandi undirlagt dulúð, ótta og sterkum tilfinningum.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum.