Áhrifamikil Edda

Í Eddunni sem nú er sýnd í Þjóðleikhúsinu syngur stuðboltinn Sif (Þuríður Blær), kona þrumuguðsins Þórs, lag Britney Spear „Baby one more time“ við mikinn fögnuð og undirtektir yngri áhorfenda.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum, fjallar um Eddu í sýningu Þjóðleikhússins.

Mig langar líka til að vitna í Britney og segja við Þorleif Arnarsson: „Oops, You did it again.“ Þorleifur lætur sér ekki nægja að hafa endurtúlkað sjálfa Njálu, nú skrifar hann Eddu Snorra Sturlusonar með samstarfsmönnum sínum, skáldunum Hörpu Rún Kristjánsdóttur og Jóni Magnúsi Arnarssyni – og gerir það með stæl.

Snorra Edda byggist á goðsögum sem hafa raunar verið endurunnar með ýmsu móti gegnum tíðina og gert vart við sig í óperum, þungarokki, leikritum, kvikmyndum, teiknimyndum og hetjusögum – enda bæði skemmtilegar og dramatískar.

 Æsirnir leggja Ásgarð undir sig bæði með valdi og svikum en tveir aðrir hópar ásælast landgæði og hlunnindi þeirra, það eru jötnar og vanir sem eru af annarri goðaætt. Vanir eða „innflytjendurnir“ hafa sæst á að sameinast ásum en er mætt með tortryggni, fordómum og glósum sem við könnumst við úr samtímanum.

 Í Ásgarði búa einnig valdamiklir„blendingar“ eins og Loki (Atli Rafn Sigurðsson) sem er fóstbróðir Óðins (Arnars Jónssonar) af jötnaættum, hann er óræður svo ekki sé meira sagt, transpersóna, heillandi, óútreiknanlegur, slægur, brögðóttur, svikull og gerir margt illt af sér („einn veldur öllu bölvi“) en hann má eiga það að hann bætir oftast þann vanda sem hann hefur búið til. En honum er ekki sama um börn sín og það er hægt að ganga of nærri honum. Atli Rafn túlkaði þennan ómótstæðilega óþokka mjög vel og sýndi hans mörgu hliðar.

Stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu er einn forógnarmikill dökkur gámur sem myndar kaldan bakgrunn sýningarinnar. Lífstréð, Askur Yggdrasils, er túlkað með einhvers konar búri sem hangir yfir sviðinu, fullt af alls konar dóti hvers hlutverk ég ætla ekki að hætta mér útí að túlka. Það er Vytautas Narbutas sem á leikmyndina en lýsing sýningarinnar var stílhrein og falleg. Hún var verk Ástu Jónínu Arnardóttur.

Þeir sem elska Snorra Eddu og vilja fá leikgerð á henni, helst með hliðsjón af húmor danska teiknarans Peters Madsen, fá það ekki í þessari sýningu. Áhersla hennar er á þann myrka endi sem allir áhorfendur vita að kemur, þ.e. ragnarökin, hjaðningavíg og eyðing heimsins. Hvað leiðir þessar skelfingar yfir heimsbyggðina?

Það eru persónur leiksins og gjörðir þeirra sem svara þessum spurningum í sýningunni.  

Þrumuguðinn Þór (Hallgrímur Ólafsson) er yfirböðull Ásgarðs, böðullinn sem staglast á því að hann sé ekki ofbeldismaður. Sif, kona hans (Þuríður Blær) tekur við barsmíðum hans og ofbeldi og huggar hann því „einhver verður að „vera í þessu“ fyrir fjölskylduna“. Vísanir til samtímaumræðunnar eru augljósar.

Óðinn brýtur tvisvar á fóstbróður sínum, í fyrra skiptið þegar hann lætur taka barnaófreskjur hans og meðhöndlar þær og móður þeirra barnsmóður Loka svívirðilega í þágu „landvarna“, og seinna þegar hann tekur folaldið Sleipni nýfæddan og með valdi frá móður sinni Loka, eins og folaldið fagra sé nýtt leikfang fyrir hann. Arnar Jónsson lék alföðurinn og sýndi grimmd hans vel, hann fer illa með völd sín og illvirki hans stafa af fyrirlitningu og hroka valdhafans sem heldur að hann „eigi það og megi það“.

Loki hefnir sín með því að drepa Baldur, son Óðins og Friggjar sem elskar soninn mjög. Hún var leikin af Guðrúnu S Gísladóttir sem túlkaði harm hennar af dýpt og innlifun.

Þarna verða hvörf í Snorra Eddu, segja ýmsir fræðimenn, Baldur er táknmynd hins góða og miskunnsama, hreinn, bjartur og flekklaus. Þegar hann er drepinn er hið góða afskrifað og siðrof hefur orðið. Goðin hafa fyrirgert rétti sínum til að ráða heiminum.

Þetta móralska fall er upphafið að upplausn og heimsendi. Kannski hafa kirkjunnar menn togað Edduna hans Snorra til sín með þessari siðfræðilegu áherslu? Það vitum við ekki. Það er ekki auðvelt að sjá hvar sögn sýningarinnar í Þjóðleikhúsinu liggur þegar kemur að falli goðanna. Þríeykið á bak við þessa sýningu leggur áherslu á skírskotun þessa forna texta til nútímans, karllægt samfélag án samlíðunar sem svífst einskis til að halda forréttindum sínum, og texti þeirra felur í sér heilmikla túlkun og innsæi. Það skilar sér vel í sýningunni og textanum. Lykilpersónur eins og Þór, Sif og Angurboða sem túlkuð var á eftirminnilegan hátt af Ólafíu Hrönn Jónsdóttur stíga fram og lýsa tilfinningum sínum, ótta og þrám, í einræðum sem töluðu til okkar tíma. Þessir kaflar voru stundum í lengsta lagi og hægðu á framvindu sýningarinnar.

Morðið á Baldri varð ekki sá hápunktur verksins sem það hefði átt að vera og er í Eddu Snorra, Baldur er tákn hins góða og frjóa og þegar hann er svikinn drepa goðin allt sem hann stendur fyrir, ill öfl sleppa laus og askurinn, lífstréð mun líka deyja. Á morði Baldurs hvílir orsaka og afleiðingakeðja í sögunni sem sögð er, og hefði því verið gefinn gaumur hefði það styrkt byggingu sýningarinnar sem var svolítið laus í reipunum.

Að því sögðu verð ég að segja að á sviði Þjóðleikhússins varð til ansi mögnuð heimsókn í Goðheima, áhorfendur skemmtu sér konunglega og hylltu persónur og leikendur í lokin. Í heimsendaatriðinu í lokin losnar Fenrisúlfur og hinn magnaði dansari Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, sem var í hlutverki hans, dansaði kyngimagnaðan, fagran og ógnandi dans sem lengi verður í minnum hafður.

Ég sá verkið tvisvar. Ég mæli með því. Sýningin hafði breyst og þroskast og viðtökur áhorfenda endurspegluðu það.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum.