Svartþröstur

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands, skrifar um Blackbird eftir David Harrower í sýningu Borgarleikhússins.

Blackbird singing in the dead of night
Take these broken wings and learn to fly
All your life
You were only waiting for this moment to arise

Það er gaman að fá skoskt leikrit á fjalirnar núna og það er hið fræga verk David Harrower „Blackbird“ sem Borgarleikhúsið býður okkur að sjá. Vignir Rafn Valþórsson þýðir og leikstýrir verkinu og gerir hvort tveggja fagmannlega. Leikmynd og búninga gerir Júlíanna Lára Steingrímsdóttir, búningar aðalpersónanna tveggja eru látlausir en undirstrika samt karakter þeirra, sviðsmyndin er nöturleg, við erum stödd í grárri kaffistofu í iðnaðarhúsnæði þar sem fólk virðist hafa borðað ókjörin öll af MacDonalds hamborgurum og hent skræpóttum umbúðunum á gólfið. Ekki skildi ég hugmyndina að baki þessu. Um tónlistina sá Örn Eldjárn og lýsing Pálma Jónssonar var úthugsuð og flott.

Þarna vinnur Peter Beckham (Valur Freyr Einarsson) kannski sem húsvörður – eða kannski eitthvað annað – við fáum aldrei að vita hvað hann gerir í raun. Hann er hálfsextugur. Og þangað inn labbar Una (Ásthildur Úa Sigurðardóttir), tuttugu og sjö ára og vill fá uppgjör við hann vegna þess sem hann hefur gert á hennar hlut og kannski er þetta uppgjör fyrst og fremst sjálfsuppgjör hennar.  

Peter Beckham heitir (trúlega) Ray og hann hefur tælt Unu til fylgilags við sig þegar hún var 12 ára en hann nágranni á fertugsaldri. Hann er kærður fyrir brot sitt og situr inni í sex ár – hún hefur líka verið í öðruvísi refsivist undir athygli samfélags og særindum foreldra og er komin til að krefjast einhvers konar uppgjörs, ekki hefnda, heldur skilnings á því hvað gerðist. Hann vill bara að hún hverfi úr lífi sínu að eilífu. Hann telur sig lausan allra mála sem hana varða með fangelsisvistinni.

Valur Freyr er einn af mínum uppáhaldsleikurum og hann túlkar hlutverk Rays virkilega vel, sjarma hans þegar hann vill það við hafa, tvöfeldni og lygavef, ekki minnst sjálfslygar sem viðhalda oft  eindregnum brotavilja.

 Ásthildur Úa Sigurðardóttir vakti athygli strax í litlu hlutverki í Macbeth. Það var röggsamlega af hendi leyst  en hér sýnir hún hvað í henni býr. Og það er ekkert smáræði! Hún túlkar flókið tilfinningalíf hins táldregna barns sem er gert að lifa með þeirri þversögn að heitasta ástin í lífi hennar skyldi eftir drep í hjarta hennar (ef maður má leyfa sér að vera melódramatískur).  

Leikritið sýnir viðureign þeirra tveggja og það hlýtur að hafa verið enn meira áfall fyrir áhorfendur þegar það var frumflutt árið 2005, rétt áður en #Meetoo hreyfingin og öll sú umræða sem henni fylgdi opnaði bannsvæðið sem áður umlukti kynferðislega misnotkun á börnum og konum. Harrower var nokkuð langt á undan þeirri umræðu í Svartþresti og hann kafar  þar dýpra en flestir höfundar hætta sér. Það er flókið og hræðilegt samspil geranda og þolanda sem býr í þessari tegund misnotkunar.  Ég segi ekki frá endi verksins – sjáið hann sjálf.

P.S. Í greininni  „Sögur af börnum: svikum, ofbeldi og misnotkun, eftir undirritaða (Tímariti Máls og menningar, 2020, bls, 18-41) – er fjallað meira um hið ástlausa fyrirbæri sem kallað er „grooming“

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands.