„Hér höfum við alltaf verið“


Í Kynvillta bókmenntahorninu er skrifað um hinsegin bókmenntir og hinseginleikann í bókmenntum — við lesum á skjön, skyggnumst út fyrir síðurnar og skoðum það sem býr á milli línanna. Umsjón: Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor við Íslensku- og menningardeild: akb@hi.is.  


Magnús Orri Aðalsteinsson, BA-nemi í ensku og íslensku á Hugvísindasviði Háskóla Íslands, fjallar um leikverkið Góða ferð inn í gömul sár eftir Evu Rún Snorradóttur.

Það hefur ekki talist neinum til ágætis að vera hommi hér forðum. Eða lesbía. Eða tvíkynhneigð/ur/t. Eða trans. Eða neitt sem fellur utan sísgagnkynhneigðarhyggjunnar. Í dag má segja að staðan hafi tekið ákveðnum stakkaskiptum. Það segi ég þó með þeim fyrirvara að hinseginbaráttunni er fjarri því lokið. Þrátt fyrir hlýrri móttökur nútímans virkar fortíðin eins og óumflýjanleg vofa sem holdgerist allt, allt of víða. Baráttan heldur því áfram. Leikverkið Góða ferð inn í gömul sár eftir Evu Rún Snorradóttur, sem sýnt var í Borgarleikhúsinu nú á dögunum, er verk sem einmitt fjallar um þessa baráttu, og enn fremur þessa sögu, á mjög áhugaverðan og frumlegan máta. Síðasta sýningin var 22. mars síðastliðinn og stóð sannarlega undir væntingum.

Leikverkið skiptist í tvo hluta. Sá fyrri er hljóðverk sem leikhúsgestir hlusta á í heimahúsum, í kyrrð og ró. Í einveru. Þar er tekin fyrir saga alnæmis hérlendis, viðtöl tekin við aðstandendur, hjúkrunarfræðinga og fræðimenn en einnig eru þar stuttir leikþættir þar lifandi upplifun þar sem nokkrir „AIDS-hommar“ koma fyrir. Þeir síðastnefndu tala beint við þann sem hlustar. Sú upplifun er einlæg og einstaklega persónuleg. Gestir eru meðal annars beðnir um að dansa, sitja á stól við tómt rúm og horfa djúpt í augu eigin spegilmyndar og spurðir hvort þeir séu tilbúnir „að horfast í augu við sannleikann“. Síðari hluti verksins er af allt öðrum toga. Þá eru leikhúsgestir komnir upp í leikhús og á móti þeim tekur fagur fiðluleikur Mars Proppé. Þeir fá í anddyri leikhússins ávarp frá höfundi, örstutta kynningu og freyðivínsglas, sem og glimmerförðun, litríka jakka, hatta og fleira.

Þegar inn í sal er komið koma gestir sér fyrir, standa á auðu gólfi og fá bjór eða annan drykk sé þess frekar óskað. Fyrrnefnt Mars Proppé leikur aðalhlutverkið í fyrsta atriðinu þar sem hán talar um upplifun sína af því að koma úr skápnum. Með því fylgir stökk fram af háu sviði sem felur í sér augljósa táknræna merkingu. Þar á eftir flytur Skaði Þórðardóttir tónlistar- og dansatriði. Hún fer alveg upp að gestum í atriðinu og þeir eru að sjálfsögðu fengnir til að dansa með. Á eftir henni les Jakub Stachowiak upp smásögu, sem inniheldur opinskáar lýsingar á samkynja þrá. Þá á Embla Guðrúnar Ágústsdóttir sviðið þar sem hún dansar á eftir dragdrottningum og fjallar um upplifun sína af því að vera fötluð hinsegin kona. Dragdrottingin Starína á næsta atriði áður en Gabríel Brim býður gestum í kynjaveislu með skemmtilegu ívafi. Í lokaatriðinu stýrir Lady Zadude leikhússalnum öllum í söng með laginu „Ég er eins og ég er“. Þrátt fyrir að sýningunni væri lokið voru leikhúsgestir ekki harðir á því að koma sér út og heim, heldur dokuðu við, blönduðu geði og glöddust saman; yfir upplifuninni og hinseginleikanum.

Sýningin Góða ferð inn í gömul sár var mjög frábrugðin því sem ég hef áður upplifað í leikhúsi. Hinn persónulegi vinkill hljóðverksins setti gesti í ákveðnar stellingar en þegar upp í Borgarleikhús var komið varð alger viðsnúningur. Hljóðverkið er átakanlegt, fært um að framleiða fjölmörg tár, á meðan leikverkið er líklegra til að vekja hlátrasköll, gleði, sameiningarhug og gleðitár. Þar með er þó ekki sagt að öll atriðin hafi öll verið hipp-hipp og húrra, heldur var í hlátrinum og brosunum fólgin tregablandin gleði (en gleði þó). Erfiðar upplifanir og tilraunir til að finna sig í erfiðum aðstæðum sáu til þess. Ólíkt hljóðverkinu er dauðinn hvergi nálægur í síðari hlutanum, heldur er augum gesta beint til framtíðarinnar og örlítill vonarneisti sendur með.

Skilin milli kyrrðarinnar heima fyrir og hinnar persónulegu nálgunar í leikhúsinu sjálfu eru sá þáttur sem helst gerir verk Evu Rúnar stórbrotið. Sorginni og harmleiknum er hálfpartinn hellt yfir man í hljóðverkinu. Að sjálfsögðu eru þar broslegri kaflar en þeir eru ávallt tregablandnir. Þegar hlustandi er beðinn um eitthvað er það byggt á viðtökum og/eða dauða: Dansaðu eins og þú vilt að munað sé eftir þér eða dansaðu eins og enginn sé að horfa.  Horfðu í spegilinn, hvað sér annað fólk, hvað heldurðu að annað fólk sjái ekki, hvað viltu að fólk sjái, hvað sérð þú? Í stuttu máli er þetta átakanlegt en á mun persónulegri hátt en verk eru almennt átakanleg. Í venjulegum kringumstæðum, við upplifun hefðbundins verks, er hægt að sökkva sér í verkið sjálft en koma samt að því sem hlutlaus áhorfandi, hlustandi eða lesandi. Hljóðverkið virkar öðruvísi. Það sökkvir sér í þig sem upplifanda, dregur sig aftur í hlé, fjallar um alnæmisfaraldurinn frá sjónarhorni fræðafólks eða aðstandenda, og sökkvir sér svo aftur í þig sem upplifanda, og svo framvegis. Í því ástandi tekur á móti mani fiðluspil og áfengi og sýnt er fram á að tilvistar- og réttindabaráttu hinsegin fólks fylgja sigrar, jafnvel þótt henni sé alls ekki lokið.

Nafnið á sýningunni – Góða ferð inn í gömul sár – á stóran þátt í þessu. Hljóðverkið er þessi góða ferð og faraldurinn er gömlu sárin. Leikverkið sem fylgir á eftir tekst á við sárin og hlúir að þeim. Áhorfendum er morgunljóst að líf innan hinseginleikans er ekki einfalt og ekki auðvelt en gleðin er í hávegum höfð, stoltið og óskeikulleikinn. Erfiðleikarnir sem fylgja því að vera hinsegin og standa á skjön við samfélagsleg norm eru hornsteinn verksins og þrátt fyrir gleðilegra tempó í síðari hlutanum er hvergi frá þeim hornstein horfið — en lögð áhersla á að erfiðleikarnir standi ekki í vegi fyrir framtíðinni. Áhorfendum er í raun sagt þrátt fyrir allt séum við hér enn og verðum til frambúðar. Við munum berjast áfram fyrir rétti okkar í samfélaginu.  

Næsta ferð inn í framtíðina

Kæri lesandi, þessi stutta umfjöllun er ekki markaðssetning á leiksýningunni eða til þess gerð að fá þig til að sjá hana, hafðu það í huga — enda er síðasta aukasýningin löngu liðin. Þetta er örlítið útkall, upphrópun og fagnaðaróp. Þakkir vil ég gefa Evu Rún Snorradóttur fyrir frábært verk; átakanlega en jafnframt gleðilega umfjöllun um hinseginleikann, fjölbreytni hans og sögu. Þar sem sýningum er lokið biðla ég til þín að hafa augun opin fyrir næstu verkum Evu og öðrum verkum sem fjalla um hinseginleikann á einn eða annan hátt. Verk eins og Góða ferð inn í gömul sár er gríðarlega mikilvægt í nútímasamhengi. Hljóðverkið sýnir okkur einmitt að sýnileiki er nauðsynlegur. Því þurfum við að halda áfram að taka skref í rétta átt, hafa framtíðina í augsýn en gleyma ekki okkar gömlu sárum.

Magnús Orri Aðalsteinsson, BA-nemi í ensku og íslensku á Hugvísindasviði Háskóla Íslands.