Í Tjarnarbíói sáum við í fyrrakvöld virkilega frumlega sýningu sem kom mér skemmtilega á óvart. Það er Sigurður Ámundason, myndlistamaður, sem skrifar verkið, leikur eitt sex hlutverka, leikstýrir og framleiðir myndbönd og sýningu. Hann hefur sagt að nær kvikmyndinni geti leikhússverk varla komist því að hljóðið í sýningunni, texti leikararnna, er tekinn upp fyrir fram og leikarar sjálfir „mæma“ hann á sviðinu.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands, fjallar um sýninguna Hið ósagða eftir Sigurð Ámundason.
Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands.

Þetta féll nú svolítið milli skips og bryggju því að svo vel hermdu leikarar eftir upptökunni að áhorfendur steingleymdu að hún var þarna og „gamaldags sviðsleikur“ hefði gert alveg sama gagn. Hins vegar virkaði myndbandið vel með öllum sínum hröðu klippum milli bandarískrar skyndibitamenningar, ofurhetjumynda, hryllings- og stórslysamynda og sérkennilegum húmor. Þetta var eins konar inngangur að þeirri ofneyslu, græðgi og stressi sem einkenndi stórtækar pantanir félaganna á mat og drykk sem ekkert þeirra snerti síðan. Það var bæði fyndið og gróteskt. Myndbandið var líka vel notað í stuttum nærmyndum af Sif og Hálfdáni þar sem áhorfandi heyrir hugsanir þeirra.  

Athyglisverðust í þessu verki voru nú samt ekki fyndin kvikmyndaklipp eða tilraunir með hljóðrásir heldur hið vel skrifaða leikverk Sigurðar Ámundasonar þar sem þrír gamlir skólafélagar hittast á veitingastað. Þetta eru Guðmundur (Ólafur Ásgeirsson), Sif (Kolfinna Nikulásdóttir) og Hálfdán (Árni Vilhjálms). Gummi hefur unnið stórsigur með merkilegri fræðigrein og bestu vinir hans ætla að fagna með honum. Í nærmyndunum kemur fram hve mjög þau öfunda hann af árangrinum og grimmd þeirra er alveg hrein og fölskvalaus. Það glitti í gamalt einelti og vonsku í þessum hópi.

Árni og Kolfinna léku þetta kvikyndislega fólk mjög vel. Þau nálgast „vin sinn“ hvort frá sinni hlið eins og tvær snareðlur í Jurassic Park og ráðast á hann saman og á víxl. Þau stunda líka af kúnst hið sérkennilega sport fræðimanna sem felst í að menn væna hver annan um ritstuld eða hugmyndastuld og breyta þar með afrakstri lúsiðins fræðimanns í  óskilgreindan þjófnað áður en mannræfillinn veit hvað kom fyrir hann.

Kolfinna og Árni voru hvort öðru betra í þessum hráskinnaleik og það  skapara bæði sterka vanlíðan og kátínu um leið hjá áhorfendum. Sá áhorfandi sem hér skrifar gat með naumindum stoppað sig í að stökkva á fætur og hrópa: FORÐAÐU ÞÉR, GUÐMUNDUR! Það gerði hún þó ekki og enginn kom Guðmundi til varnar nema gengilbeinan gáfaða sem hét raunar Dagný, (Melkorka Gunborg Briansdóttir) og var mastersnemi í stjórnmálafræði. Hún sneri í raun taflinu við og eftir það leystist leikurinn upp í játningar og uppgjör og svo partý þar sem ameríski kokkurinn (Sigurður Ámundason) átti dramatískan einleik og alþýðumaðurinn og drykkjurúturinn (Kolbeinn Gauti Friðriksson) sem hafði plagað vinina tók dansspor.  Salurinn fagnaði sýningunni ákaflega – að vonum.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands.