Fullkomið íslenskt sumarkvöld

Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands fjallar um leikritið Nokkur augnablik um nótt.

Ég viðurkenni að tilhugsunin um nýtt samtímaleikverk um Íslendinga í sumarbústað fyllti mig efasemdum. „Fullkomið íslenskt sumarkvöld, fullkominn bústaður, fullkomið oumph á grillinu og öll nóttin er framundan …,“ segir í kynningu á verkinu, sem heitir Nokkur augnablik um nótt og er eftir ungstirni ársins í bókmenntaheiminum, Adolf Smára Unnarsson. Sögusviðið er kunnuglegt, áhorfandinn veit að þrítekningin á orðinu fullkomið þýðir í raun dramatík, afhjúpun og átök og hvað getur slík atburðarás, þar sem hífaðir Íslendingar í bjartri sumarnótt eru í forgrunni, haft í för með sér annað en kunnugleg stef, útjaskaðar klisjur jafnvel? Ég mætti hikandi á frumsýninguna í Þjóðleikhúsinu 8. október síðastliðinn en leyfði mér þó einnig að vera vongóð, ekki síst af því að leikskáldið er óþekkt stærð, nýútskrifaður leikstjóri sem einnig sendir frá sér skáldsögu um þessar mundir. Það er alltaf dálítið spennandi og hver veit, kannski eru ennþá til frumlegar og áhugaverðar hliðar á grilli í sumarbústað.

Kvöldið byrjaði reyndar ekki vel. Frammi í anddyrinu — nýuppgerðu og glæsilegu rými í Kassanum, gömlu íþróttahúsi sem er nú innréttað í anda gamalla leikfimisala — steig kona upp á stól og fór að tala um umbætur í leikskólamálum. Áherslur hennar voru eindrægar og leikhúsfélaga mínum var gróflega misboðið; við vorum lentar inn á eitthvað sem líktist framboðsfundi Sjálfstæðisflokksins. Ég var fyrri til að átta mig, það var auðvitað ekki tilviljun að þessi gjörningur hófst á slaginu átta. Verkið var hafið, þetta var hressandi, við gestirnir hlógum og stemmingin fylgdi okkur inn í salinn þar sem sumarbústaðurinn blasti við á sviðinu.

Vesturbærinn og Breiðholtið

Í stuttu máli fjallar leikritið um tvö pör. Annars vegar efristéttarfólkið í Vesturbænum, Ragnhildi (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) og Magnús (Björn Thors) sem eiga risastóran sumarbústað, fyrirtæki á blússandi siglingu, frækinn fótboltaferil að baki og stjórnmálaferil í uppsiglingu. Allt er þetta á einn eða annan hátt til komið með aðstoð foreldra Magnúsar (og Flokksins) en trúin á einstaklingsframtakið og frelsið er hér í fyrirrúmi svo við skulum bara segja að þau hafi byggt þetta áferðarfallega líf sitt upp sjálf. Hins vegar eru það Björk (Ebba Katrín Finnsdóttir) og Óskar (Hilmar Guðjónsson) sem eru eilíflega blönk og búa í bílskúrnum heima hjá foreldrum Óskars í Breiðholtinu; Björk er tónlistarkona sem dreymir um að hljómsveitin hennar verði uppgötvuð og Óskar vinnur með unglingum og langar að læra þroskaþjálfann.

Foreldrar karlanna tákngera þannig ólíka stéttarstöðu paranna tveggja og heimana sem þau tilheyra og virðast lítið skarast. Pörin mætast í sumarbústað Ragnhildar og Magnúsar þetta kvöld en framan af er ekki ljóst hvernig þau tengjast. Fljótlega kemur þó í ljós að Ragnhildur og Björk eru systur sem ólust upp á brotnu heimili og verkið fjallar ekki síst um ástæður þess að tveir ungar úr sama hreiðri leita og leiðast í svo ólíkar áttir.

Ímyndamartröð

„Ímyndin, hún er raunveruleikinn“. Einhvern veginn svona hljómar mantran sem Magnús þylur yfir starfsfólkinu í fyrirtækinu sínu. Um áhorfandann fer hrollur þegar hann segir þeim að öll beri þau ábyrgð á velgengni fyrirtækisins, hver mistök sem þau geri og feilspor sem þau taki muni skemma það sem þau byggðu upp saman: ímyndina. Magnús er ekkert illmenni, langt frá því, og Nokkur augnablik um nótt er ekki einhliða ádeila á hugmyndafræði nýfrjálshyggju heldur rannsókn á því hvernig ímyndir ná tökum á lífi fólks.

Sögutíminn er samtíminn svo vitanlega leika snjallsímar og stafrænn veruleiki stórt hlutverk. Allar persónurnar eru með eigin ímynd og annarra á heilanum, ekki síður Björk og Óskar sem þó eru gagnrýnin á líf Ragnhildar og Magnúsar sem þeim finnst yfirborðskennt og tómt. Það eru bara annars konar ímyndir sem stýra þeim fyrrnefndu. Björk sækist eftir viðurkenningu í tónlistar- og listaheiminum — og reynir meðal annars stíft að skilgreina Óskar sem listamann sem sjálfur færist undan, hann graffar bara í frístundum af því að hann langar til þess. Óskar er andlega þenkjandi og virðist áhugalaus um efnislegar ímyndir en fótbolti er hins vegar hans ímyndarþráhyggja sem tekur á sig skuggaleg form.

Ímyndirnar eru svo auðvitað fyrst og fremst skrápur utan um viðkvæmt hold. Persónurnar eiga það sameiginlegt að vera brotnar, allar eiga þær að baki áföll og erfiðleika sem skýra breyskleika þeirra að einhverju leyti. Stéttskipting og misskipting auðs og valds hefur mikil áhrif á þær en allar gerast þær sekar um óvönduð samskipti, þær vilja vel en koma illa fram, þær hlusta ekki raunverulega hver á aðra heldur heyra það sem þær vilja eða búast við, dálítið eins og ég sjálf þegar ég fór í leikhús full af fyrirframgefnum efasemdum.

Sjón er sögu ríkari

Þetta er ekki frumlegt leikverk og nei, klisjurnar eru ekki langt undan. Persónurnar eru týpur í grunninn og atburðarásin er fyrirsjáanleg: Þau drekka og tala saman, fyrst í stað er yfirborðsmennskan undirstrikuð í samtölunum en þegar á líður koma sprungur í skrápinn, leyndarmál koma í ljós og óvæntar tengingar milli persóna og allt endar með dramatísku uppgjöri. Þetta er kunnuglegt verk með hefðbundna byggingu og tortryggni mín út í sumarbústaðinn var á rökum reist, þetta hefði getað farið illa. En gerði það ekki.

Allt er þetta nefnilega svo vel gert. Persónusköpunin er vönduð og þótt byggt sé á týpum skapast í öllum tilfellum dýpt, áhugaverðar og sympatískar persónur. Þarna kemur saman gott handrit, góð leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar, afskaplega góður leikur og almennt vel heppnað samspil fagaðila. Vigdís, Björn, Hilmar og Ebba fara öll mjög vel með hlutverkin og ég get ekki gert upp á milli þeirra. Nýtingin á anddyrinu í Kassanum er dæmi um frábæra samvinnu höfundar og leikstjóra þar sem handritið er lagað að rýminu á eftirminnilegan hátt. Ásta Jónína Arnardóttir stýrir myndböndum sem ásamt búningum Arturs Zorģis undirstrika samtímatilvísanir verksins, stéttskiptingu og stafræna tilveru persónanna. Leikmynd Hildar Evlalíu Unnarsdóttur er síðan meira en leikmynd, hún táknar sjálft þema verksins og jafnvel má segja að hún verði ein af persónunum sem fær sitt eigið uppgjör í lokaatriðinu. Þar nær frábær hljóðhönnun Arons Þórs Arnarssonar líka hápunkti í algjörlega mögnuðu atriði sem ekki er hægt að ræða frekar hér. Þið verðið bara að sjá það með eigin augum.