Síðustu dagar Sæunnar

Borgarleikhúsið frumsýndi leikritið Síðustu daga Sæunnar  föstudagskvöldið 28. október. Verkið er eftir Matthías Tryggva Haraldsson sem hefur verið skáld hússins í tvö ár. 

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands, fjallar um Síðustu daga Sæunnar eftir Matthías Tryggva Haraldsson.

Leikritið er sýnt á Litla sviðinu og það er Una Þorleifsdóttir sem leikstýrir. Leikmyndin er hvít, opið rými með rúmi og snyrtingu inn af herberginu. Leikmynd, búninga og myndbönd gerir Elín Hansdóttir. Tónlist er eftir Gísla Galdur Þorgeirsson og hljóðmynd er verk Þorbjarnar Steingrímssonar.

Leikritið fjallar um Sæunni (Guðrúnu Gísladóttur) sem vill ekki yfirgefa manninn sinn, Trausta (Jóhann Sigurðarson), þegar hann fer inn á sjúkraheimili orðinn langt leiddur af Altzsheimer. Hann er mest í eigin heimi en vitjar nútímans stundum og segir sama brandarann og einu sinni brestur hann í  skyndilegt ofsareiðikast en það er ein birtingarmynda þessa hræðilega sjúkdóms. Öðru sinni sýnir Trausti sinn innri mann í hjartaskerandi eintali þar sem hann segir allt það sem hann hefði sagt ef hann gæti tjáð sig um tómið í höfðinu og sorgina yfir veiki sinni og ástina á Sæunni sem þarf að bera allar byrðarnar ein og hjálparlaus. Jóhann Sigurðarson flutti þá ræðu ólýsanlega fallega.

Í Síðustu dögum Sæunnar er nöturleg lýsing á aðbúnaðnum  að gömlu fólki og minnisskertu sem ekkert er gert fyrir og aðeins er beðið eftir að hrökkvi upp af á tilheyrandi geymslustofnun.  En ekki væri það eitt og sér farsælt leikhússverk ef ekki væri það borið uppi af ástríðufullum karakter Sæunnar gömlu sem Guðrún Gísladóttir túlkaði af snilld. Maður spyr sig hvers vegna þessi magnaða leikkona hefur ekki verið meira áberandi á sviðinu í lengri tíma? Sæunn lætur dæluna ganga, ýmist talar hún við sjálfa sig, Trausta eða í upptökutæki þar sem hún segir syninum hvernig útför sinni skuli háttað. Hún hefur miklar skoðanir á því (þær eru hennar „bindandi vilji“) en öllum upptökunum lýkur þó á að hún þurrkar þær út. Vill ekki trufla, vill ekk i vera til ama. Hún reynir líka stundum að kyrrsetja sjúkraliðann (Snorra Engilbertsson) og fá hann til að skoða myndir með sér en hann stoppar eins stutt og hann getur.

En ef enginn vill vera Sæunni til skemmtunar skemmtir hún sér sjálf. Hápunktur verksins er þegar hún lýsir óskajarðarför sinni sem er stórbrotin víkingaútför – minna dugir ekki. Það atriði var óborganlegt og Guðrúnu Gísladóttur fór á kostum!  Önnur súrrealísk innslög í sýningunni eins og samtal Sæunnar og „Dauðans“ léttu stemninguna líka – en eftir stendur ljós ádeila verksins á aðbúnaðinn að öldruðum og veikum.

Og ekki mun sá aðbúnaður batna ef ellilífeyrir vistmanna, sem fjármagnar megnið af þeirri litlu hjálp  sem þeir fá, verður tekið upp í gamlar skuldir „óreiðumanna“ eins og nú er krafan.

Dagný Kristjánsdóttir