Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands, fjallar um Fíflið eftir Karl Ágúst Úlfsson.

Við fórum og sáum kveðjusýningu Karls Ágústs Úlfssonar, Fíflið, í vikunni sem leið í Tjarnarbíói.  Karl Ágúst skrifar handritið og Ágústa Skúladóttir leikstýrir.

Leikmynd og búningar eru verk Guðrúnar Öyahals  og hvort tveggja var sjón að sjá. Leikmyndin var einföld, aftast á þessu svarta sviði var strengt eins konar net og á því ræfilslegar flíkur sem voru næstum eins og þær hefðu fokið á netið og þessi einfaldi bakgrunnur laðaði augað undarlega oft að sér.

Búningarnir voru hugmyndaríkir og skemmtilegir og grímur Elínar Sigríðar Gísladóttur og Augstino Desi voru heillandi. Leikmyndin var sömuleiðis einföld en hugmyndarík og þjónaði sýningunni mjög vel og lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar var bæði falleg og markviss. Stíll  Ágústu Skúladóttur, leikstjóra, hraði og húmor, einkenndu sýninguna.

Karl Ágúst Úlfsson er bæði góður leikari og góður höfundur. Í verkinu leikur hann sér að hlutverki trúðsins í bókmenntunum og stingur sér niður í sögu þess og hlutverk á ýmsum tímabilum. Hlutverk trúðsins er fyrst og fremst að koma fólki til að hlæja en tilfinningar hans sjálfs koma því ekki við. Þess vegna er hann svo oft myndgerður með ýktan hlátur á vör en tár í augum. Sögulega er fíflið ekki trúður heldur þjónn kóngsins, jafnvel hans eini vinur og trúnaðarmaður, sá sem getur afhjúpað mistök og hégómaskap, huggar hann og lýgur ekki að honum þegar enginn annar þorði því.  

Þessi saga er rakin í verkinu. Karl er ekki einn að verki, þegar hann þarf að bresta í söng kallar hann á sjálfboðaliða meðal áhorfenda. Maður að nafni Eyvindur Karlsson „reynist vera í salnum“, hann gefur sig fram og reynist afskaplega hæfur tónlistarmaður og söngvari. Svo góður að hann fer að færa sig upp á skaftið og reynir að stela hauskúpuatriðinu úr Hamlet frá aðalleikaranum  með tilheyrandi orðahnippingum um hvor hafi reynslu -af örlögum persónunnar og sé þess umkominn að leika hana. Þar og afar oft í sýningunni voru morðfyndin föst skot á „þá-sem-betur-vita“ í samfélagsumræðunni og beint bæði að „góða fólkinu“ og „reiða kallinum“.

Það var einum of margt í gangi í fyrri hluta sýningarinnar, byrjanir að einhverju (áheyrnarprufu í hlutverkið með salinn sem dómara…)  sem ekki var fylgt eftir og nokkrir frekar slappir brandarar. Seinni hlutinn bætti það margfaldlega upp, var mjög góður, víxlin milli dýptar og sprells fín, skotin markviss og brandararnir góðir og áhorfendur kolfallnir fyrir fíflinu góða í lokin.  

Lokalínan er:  Hættu sem oftast að skrifa og leika, Karl Ágúst Úlfsson, ef þú vilt, en komdu strax aftur!