„Pínu súrrealískt“ að komast inn á RIFF

Elín Pálsdóttir og Ingibjörg Jenný Jóhannesdóttir útskrifuðust frá Kvikmyndaskóla Íslands í síðastliðinn júní; Elín af brautinni handrit og leikstjórn og Ingibjörg af leikstjórn og framleiðslu. Stuttmyndin Hik (e. Ambivalence) sem er í þeirra leikstjórn var sýnd á kvikmyndahátíðinni RIFF í ár. Þar kynnast áhorfendur Mettu sem er að kljást við sjálfsmynd sína en hún finnur sig að lokum í dansi. Hún gengur um götur Reykjavíkur og sér Tedda dansa þar eins og ekkert annað skipti máli. Viðtökur hafa verið mjög góðar og hefur þeim Elínu og Ingibjörgu verið boðið að taka þátt á annarri kvikmyndahátíð 2022, en ekki er unnt að greina frá hvaða hátíð er um að ræða að svo stöddu. Ég settist niður með leikstjórnar tvíeykinu um daginn og spurði þær um upplifunina af RIFF, námið og framtíðina.

Í fyrsta sinn á RIFF sem leikstjórar
„Það var pínu súrrealískt. Við vorum ekki að búast við því, við vissum ekki einu sinni að myndin hafi verið send, minnir mig,“ segir Elín. Ingibjörg samsinnir því: „Ég held að hún [Maria de Araceli] hafi ekki látið okkur vita að hún hafi sent hana, ég man ekki til þess. Hún lét okkur bara vita tveimur vikum fyrir hátíðina að myndin hafi komist inn.“ Hik var útskriftarverkefni Mariu de Araceli en hún útskrifaðist af brautinni Leiklist frá Kvikmyndaskólanum í febrúar. Hún er því eigandi myndarinnar og leikur jafnframt aðalhlutverkið. „Það var mjög skemmtilegt,“ bætir Ingibjörg við. „Þetta er þriðja myndin sem ég tek þátt í sem kemst inn á RIFF en þetta er sú fyrsta sem ég leikstýri sem kemst inn,“ en hún hefur tvisvar áður tekið þátt á RIFF sem framleiðandi.

Það var í raun röð tilviljana sem gerði það að verkum að þær tóku að sér leikstjórn, framleiðslu og handritsgerð fyrir myndina. Ingibjörg byrjaði sem framleiðandi myndarinnar og fékk Elínu með sér í það verkefni en Elín hafði fyrir verið hluti af handritsteyminu. „Maria fékk okkur til að framleiða myndina. Við fórum í það að finna einhvern til að leikstýra og skrifa. Við fundum fólk í þessi verkefni en það þurfti síðan að bakka út vegna COVID-19, treysti sér ekki í tökur af því þetta var að gerast rétt fyrir jól og þau voru svo hrædd um að fara í sóttkví á þeim tíma. Þá tókum við að okkur að leikstýra þessu og þá fundum við bara alveg nýja hugmynd bara tveimur vikum fyrir tökur. Við þurftum í rauninni að byrja á fyrsta reit, skrifa handrit, finna leikara og staðsetningu, bara allt á tveimur vikum. Ég held að þetta sé eitt mesta, hvað segir maður?“, segir Ingibjörg um leið og hún lítur á Elínu. „Mest krefjandi verkefni sem við höfum tekið að okkur,“ botnar Elín. „Í fyrsta lagi er bara stress að gera stuttmynd, maður getur rétt svo ímyndað sér hvernig það er að gera heila mynd en stressið að gera þetta á tveimur vikum. Þú ert vanalega svona þrjá til fjóra mánuði eða jafnvel lengur að plana allt ferlið. Þannig að þegar tökur hófust vorum við bara mjög þakklátar að allt hafi gengið upp.“

Nándin og sagan það sem heillar mest

Þær eru sammála því að það sem heillar þær helst við kvikmyndir sé að segja sögu, hvort sem það er hreinn skáldskapur eða saga sem eigi sér stoð í lífsreynslu þeirra. Þá sé vinnan með fólki á „setti“ einnig mikilvæg, það sé gaman að finna að allir séu ein heild að skapa eitthvað í sameiningu. „Þetta er svona mynd allra og allir eru ein stór fjölskylda,“ segir Elín. Ingibjörg tekur undir það og bætir við: „Þetta er eitt af því skemmtilegasta sem ég hef gert á ævinni, að búa til sögur og setja þær á mynd.“

Elín og Ingibjörg hafa unnið saman að fleiri verkefnum í tengslum við skólann. Auk Hiks unnu þær saman að útskriftarverkefninu sínu en sú mynd nefnist Fyrir hönd keisarans. Þegar þær eru spurðar um hvernig samstarfið hafi komið til nefna þær báðar nándina í náminu, að allir í skólanum séu mjög nánir og að klisjan um að þetta sé eins tór fjölskylda sé sönn. Þær segja að það komi meðal annars til vegna þess að Kvikmyndaskóli Íslands er lítill einkarekinn skóli og allir séu svo opnir.

„En við erum líka báðar úr Keflavík og það voru okkar fyrstu kynni. Síðan er mikil hópvinna þannig að maður vinnur saman með öllum í sínum bekk og síðan líka öllum öðrum í skólanum. Tengslin okkar byrjuðu eiginlega bara þannig, að vera báðar úr Keflavík,“ segir Elín. Ingibjörg rifjar upp fyrstu samskipti þeirra í skólanum og hvernig það byrjaði með spurningu um hvort Elín væri ekki frá Keflavík. „Þetta bara einhvern veginn þróaðist. Svo tókum við að okkur að leikstýra saman myndinni hennar Mariu, segir Ingibjörg. „Síðan leikstýrðum við okkar útskriftarmynd saman,“ skýtur Elín inn í.

Fyrr á árinu leikstýrðu þær einnig auglýsingu saman og annarri útskriftarmynd stuttu eftir að þær luku við Fyrir hönd keisarans. Samstarfið gengur að þeirra sögn virkilega vel og segir Ingibjörg að „það er stundum eins og við lesum hugsanir hvor annarrar.“

Hvað tekur svo við eftir útskrift?

„Eins og er erum við báðar dálítið að hjálpa fólki í skólanum með þeirra verkefni. Þau hjálpuðu okkur og þá langar okkur að hjálpa þeim. Svo er alltaf gaman að vinna að verkefnum hvort sem maður er að fá borgað fyrir það eða ekki, bara upp á reynsluna og líka bara hjálpa öðrum. Svo bara að skrifa,“ segir Ingibjörg. Elín tekur undir það: „Reyna að halda áfram að skrifa og búa til eitthvað. Sækja um í Kvikmyndamiðstöð Íslands og auka þekkinguna, held ég.“

Framtíðardraumar beggja eru hins vegar að skrifa sjónvarpsþætti, stuttmyndir og kvikmyndir í fullri lengd. Þær nefna báðar að vinna við auglýsingar og tónlistarmyndbönd sé skemmtileg en sammælast um að þær myndu frekar kjósa að fá að segja sínar eigin sögur í formi þátta og kvikmynda.

Um höfundinn
Selma Dís Hauksdóttir

Selma Dís Hauksdóttir

Selma Dís Hauksdóttir er meistaranemi í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og hefur lokið BA gráðu í þýsku frá Mála- og menningardeild.

[fblike]

Deila