Landnám Bjarts, Jussa og Helga

Á Jökuldalsheiði stendur býlið Sænautasel til minningar um strjálbýla og afskekkta heiðabyggð sem spratt upp um miðbik 19. aldar. Sextán bæir voru í byggð á Jökuldalsheiði til lengri eða skemmri tíma en síðastur þeirra til að fara í eyði var Heiðarsel árið 1943. Á Sænautaseli gisti Halldór Kiljan Laxness í nóvember 1926 og upplifði þar af fyrstu hendi lífskjör bónda sem bjó við miklar vetrarhörkur á mörkum þess byggilega. Smám saman varð reynslan á Jökuldalsheiði efniviðurinn í skáldsögu. Sjálfstætt fólk (1933–1935) er tilraun rithöfundarins til þess að fanga þetta stutta tímabil í byggðasögu landsins og þótt túlkun Laxness á bændasamfélaginu hafi verið umdeild á sínum tíma tryggði bókin að saga heiðabóndanna mun falla seint í gleymsku.

Þegar sagan hefst er vinnumaðurinn Bjartur (Guðbjartur Jónsson) í þann mund að giftast og verða loks að bónda og hefur valið að setjast að í Veturhúsum. Veturhús er raunverulegt nafn á býli á Jökuldalsheiði sem fór í eyði árið 1875 eins og flestöll kot á svæðinu. Gjóskan úr Öskju kæfði þann litla gróður sem óx á heiðinni og gjörbreytti samfélaginu á svæðinu þar sem nánast allar þær fjölskyldur sem bjuggu á heiðinni neyddust til þess að yfirgefa heimili sín til þess að komast af. Flestar þeirra snéru aldrei aftur og voru margir Jökuldælingar í hópi vesturfaranna sem lögðu af stað til Kanada. Með tíð og tíma komu þó aðrir í stað hinna brottfluttu og Veturhús byggðust aftur 1899 eða einmitt um það leyti sem Bjartur sest að á heiðinni. Í túlkun Laxness er það ekki Öskjugos heldur reimleiki og bölvun sem valda því að býlið hefur staðið autt og yfirgefið um langt skeið. Sögunni lýkur með því að Veturhús standa aftur auð og það eina sem stendur eftir til merkis um áralanga búsetu Bjarts er ónýtt steinhús og nafnabreyting býlisins í Sumarhús.

Vesaldarstríðið

Frans Eemil Sillanpää.

Þótt sögusvið Sjálfstæðs fólks sé eins rammíslenskt og hugsast getur var fátækt í brennidepli víða í vestrænum bókmenntum á fyrstu áratugum 20. aldar og finna má sterkan samhljóm við ýmsar aðrar staðbundnar skáldsögur frá Norðurlöndum. Andstríðssagan Hurskas kurjuus [Fróma vesöldin] (1919) eftir finnska rithöfundinn Frans Eemil Sillanpää segir frá örlögum ólánsama ómagans Jussi Toivola sem verður að vinnumanni og svo að lokum að hjáleigubónda. Eins og titill bókarinnar gefur til kynna er sárafátækt í sveitinni í forgrunni og segja má að lífshlaup Jussi svipi að mörgu leyti til sögu Bjarts þar sem sögupersónan elst upp sem vinnuþræll annarra en fær lítillega hækkun í samfélagstign á „fölskum“ forsendum. Alveg eins og Bjartur er Jussi nefnilega plataður til þess að eiga konu sem er þegar ólétt eftir bóndason og til að stofna þar með eigið bú.

Jussi fær úthlutað afskekktu eyðibýli í miðjum skógi sem er í algjörri niðurníðslu og hefur svo lengi staðið tómt að sveitunga Jussa rétt rámar í að kotið heiti Kräpsälä. Þó hljómar gamla örnefnið undarlega í eyrum fólks og farið er að kalla staðinn Toivola þar sem Jussi hefur áður fengið vist á kotinu Toivola. Toivola-nafnið er tiltölulega algengt í Finnlandi en má þýða sem Vonarstaður. Toivola eins og Sumarhús er írónískt nýnefni enda eins lítil von í skóginum og sumar á heiðinni. Hinn einfaldi og meinlausi Jussi lærir aldrei sannleikann um faðerni elsta stráksins en á erfitt með að fóta sig í föðurhlutverkinu. Strákurinn ræðst á yngri (hálf)bróður sinn svo harkalega að hann veldur varanlegri lömun guttans. Fjölskyldan hefur náð að klifra úr mestu eymdinni en ræður ekki við útgjöldin sem lækning útheimtir og hún sígur hægt og rólega aftur inn í örbirgðina. Elsti strákurinn er hins vegar sendur burt úr hreppnum og kynnist verkalýðshreyfingunni. Hann sendir heim rit um hugmyndafræði kommúnismans sem Jussi fer smám saman að aðhyllast. Þegar borgarastyrjöld skellur á og „rauðir“ hermenn taka yfir hreppinn gengur Jussi til liðs við þá af mikilli sannfæringu, en þegar hann finnur stórbónda skotinn hendir hann frá sér byssu í skelfingu, enda ofbeldishneigð elsta sonarins ekki í eðli Jussa. Því miður hafa „hvítir“ hermenn náð yfirhöndinni og þegar byssa Jussa finnst hjá líkinu er hann tekinn af lífi fyrir morð sem hann framdi ekki og hefði aldrei nokkurn tímann framið. Lýsingin af aftökunni er átakanleg en raunsæisstíllinn sem einkennir að öðru leyti bókina fjarar út þegar fjallað er um hin liðnu í stríðinu. Jussi og hermaðurinn sem skaut hann til bana liggja í sitthvorri gröf í kjölfar styrjaldarinnar en muna ekki lengur hvers vegna þeir liggja ekki saman.

Hurskas kurjuus er stórmerkileg bók fyrir þær sakir að Sillanpää lauk við hana skömmu eftir að finnska borgarastyrjöldin lauk með ósigri rauðliðanna. Ákvörðun Sillanpää um að skrifa um svo eldfimt viðfangsefni og stríðsglæpi sigurvegaranna vekur athygli og sömuleiðis nálgun hans að persónusköpun. Allt sitt líf er Jussi Toivola –  hinn finnski Jón Jónsson – peð annarra manna en bókin gerir stríðsfórnarlambið að stóískum einyrkja sem skortir þá kænsku og innsæi í mannlegum samskiptum sem hefðu hugsanlega bjargað honum gagnvart samfélaginu. Þessi skortur á innsæi birtist einnig skýrt í fari Bjarts en langmesta skaðann ber fjölskylda íslenska kotbóndans þar sem hann hikar ekki við að beita valdi til þess að halda í meint sjálfstæði sitt og úthýsir Ástu Sóllilju fyrir að bera barn undir belti eftir að barnakennarinn misnotar hana. Bjartur, eins og Jussi, er ófær um að þroskast og læra af reynslunni. Skapgerð Bjarts er þó flóknari að því leyti að hann á sér þrátt fyrir allt háleita drauma sem villa honum sýn í þeirri samfélagsstöðu sem honum er úthlutað. Að leita of hátt er aðferð Bjarts til þess að lifa af og yngsti sonurinn Nonni erfir þennan eiginleika frá honum. Ólíkt föðurnum tekst Nonna með ævintýralegum hætti að hrinda frá sér eymdinni og að láta háleitu draumana rætast í Ameríku. Jussi skortir aftur á móti athvarf draumanna og er ráðvilltur þolandi sem á alla tíð erfitt með að skilja og uppfylla væntingar samfélagsins til sín.

Flokka mætti Hurskas kurjuus sem stríðsbókmenntir en í bókinni verður stríðið eiginlega að óljósri framlengingu á ömurlegri lífsbaráttu söguhetjunnar. Þótt vopnuð styrjöld sé aðeins til staðar í Sjálfstæðu fólki sem fjarlægur atburður sem hefur áhrif á vöruverð ríkir sömuleiðis langvarandi stríðsástand á íslensku heiðinni. Tónninn er sleginn strax á fyrstu síðum þegar tilvonandi landnámsmaðurinn Bjartur birtist á yfirgefnu eyðibýli og skorar örlögin á hólm.

Kiljan og Bjólan

Kaldhæðin upphafning bláfátæka kotbóndans sem landnámsmanns gerir fyrst og fremst grín að þjóðernisrómantiseringu íslensku sveitarinnar. Sjálfstæðisbaráttan í Sjálfstæðu fólki endurspeglar ekki aðeins lífsbaráttuna á Jökulsdalsheiðinni heldur frelsisbaráttu heillar þjóðar. Hugmynd um landnám sem uppreisn og þögult frelsisstríð er ekki róttæk heldur gegnsýrir umræðuna um samband Íslands við umheiminn á þeim tíma þegar bókin er skrifuð. Sjálfstæðisviljinn er lykilsönnunargagn fyrir tilvist Íslendinga sem þjóðar meðal þjóða. Ingólfur Arnarson Jónsson er glæst tilraun Útirauðsmýrarhjónanna til þátttöku í þessari baráttu á alþjóðasviði en hvor á sinn hátt eru þeir báðir Jónssynir, Bjartur og Ingólfur.

En upplifði fólkið sem bjó á Jökuldalsheiðinni sig sem landnámsmenn? Eða er Bjartur aðeins aðkomumaður rithöfundar í leit að hentugum landskika fyrir stórbrotna sögu um stríð og sjálfstæði?

Árið 1898 kom Helgi Dagbjartsson (f. 1862) á eyðibýlið Heiðarsel sem hafði staðið autt í rúmlega tvo áratugi eftir að Askja gaus. Af kirkjubókum má sjá að Helgi ólst upp í gríðarlegri fátækt og að foreldrum sínum látnum átti hann fátt annað en nafnið sitt. Helgi var einkasonur Dagbjarts Sveinssonar (1830–1869) og Þorbjargar Sigurðardóttur (1838–1867) sem voru ógift vinnuhjú á Stóra-Sandfelli þegar hann fæddist. Af viðleitni foreldranna til þess að finna vist þar sem þau gátu búið saman með barni sínu má ráða að það var fyrst og fremst fátækt sem kom í veg fyrir að þau stofnuðu eigið bú. Þorbjörg dó hins vegar þegar hún var aðeins 28 ára og Dagbjartur lifði hana ekki nema í tvö ár. Eftir föðurmissinn voru engir aðrir til að annast um Helga og hann var sendur til Svínafells í Austur-Skaftafellssýslu þar sem hann ólst upp sem niðursetningur og ómagi þangað til að hann gæti unnið sjálfur.

Þegar Helgi Dagbjartsson kom á Heiðarsel var hann 33 ára og hafði unnið allt sitt unglings- og fullorðinslíf sem vinnumaður á ýmsum bæjum á Austurlandi. En þótt Heiðarsel hafi ekki skipt um nafn við komu Helga er ekki hægt að segja það sama um Helga sjálfan. Eftir komuna á Heiðarsel tók Helgi upp nýtt nafn og hét upp frá því hvorki meira né minna en Helgi Bjólan Dagbjartsson frá Heiðarseli.

Hróaldur bjóla var einn af þremur landnámsmönnum í Vopnafirði og Bjólan Vilbaldsson var sonur landnámsmanns í Skaftártungu samkvæmt Landnámu en Helgi bjóla var landnámsmaður á Kjalarnesi, sonur Ketils flatnefs. Í Kjalnesinga sögu er Helgi bjóla sagður tengdasonur Ingólfs Arnarsonar og því lýst hvernig hann tekur vel á móti þeim sem leita til sín við komu til landsins og er hófsamur höfðingi sem vill búa í friði og sátt við aðra. Heiðarsel á Jökuldalsheiði er engan veginn sambærileg landareign og Kjalarnes, allt milli Mógilsár og Mýdalsár, en nafnbreytingin lýsir yfir einstöku stolti. Heiðarsel er nýtt upphaf – og hér er Helgi að nema land að hætti forfeðranna.

Heiðarsel er aðeins í um tíu kílómetra fjarlægð frá Sænautaseli þar sem Laxness gisti og spyrja má hvort rithöfundurinn hafi ekki fengið einhverja vitneskju um Helga Bjólan Dagbjartsson á meðan á dvölinni stóð. Einn sonur Bjarts heitir einmitt Helgi Guðbjartsson og spyrja má hvort tilviljun ein ráði því. Þegar Hallfreður Örn Eiríksson tók viðtal í júní 1969 við síðustu fjölskylduna sem hafði búið á Heiðarseli barst Helgi Bjólan á tal sem sýnir hvernig landnámsmaðurinn á Jökuldalsheiði féll seint í gleymskunnar dá.

En hvað varð um Helga Bjólan? Ólíkt Bjarti og Jussa giftist hann ekki vinnukonu sem var ólétt eftir bóndason heldur stefndi vestur í leit að nýju landnámi eftir aðeins fáein ár í Heiðarseli. Stór hópur vesturfara fór frá Seyðisfirði 12. júní 1903 á eimskipinu Vesta og var Helgi Bjólan meðal þeirra. Með í förinni var ráðskonan hans, Oddný Aðalbjörg Kristjánsdóttir (1878–1962), og eins árs gamall sonur þeirra Kristján Ingibjörn. Oddný kom á Heiðarsel 1899 þegar hún var aðeins tvítug að aldri en fjölskylda hennar var stór og efnalítil og hún hafði unnið fyrir sér síðan hún var 15 ára. Oddný var ólétt að öðru barni sínu og líklegt er að þau Helgi hafi viljað koma í veg fyrir að harmsaga foreldra Helga endurtæki sig, en Oddný átti systkini og önnur ættmenni í Kanada sem gátu aðstoðað fjölskylduna við komuna.

Því miður dó Kristján litli 30. júní sama árs, skömmu eftir að fjölskyldan kom til Winnipeg. Ferðalagið var erfitt fyrir ung börn og læknisaðstoð fyrir þau sem veiktust á leiðinni var af skornum skammti. Kristín Ingibjörg Ágústína fæddist mánuði síðar, þann 29. júlí. Fjölskyldan settist þó ekki að í Winnipeg, en hélt áfram til Saskatchewan þar sem kanadíska ríkisstjórnin bauð innflytjendum af evrópskum uppruna tækifæri til að eignast land. Um var að ræða landnám í öðrum skilningi en á Íslandi enda höfðu frumbyggjar landsins verið fluttir markvisst af sínum heimalöndum til þess að skapa „æskilegum“ innflytjendum sess. Áherslan var á hraða uppbyggingu búskapar en graslendið sem hafði verið heimkynni stórra vísundahjarða var tabúla rasa í augum kanadískra stjórnvalda: enn þann dag í dag setja margar kanadískar kennslubækur fram sögu sléttlendisins þannig að hún hefst fyrst fyrir alvöru með komu innflytjendabyggðanna. Bjartur og Jussi námu land í óbyggðum þar sem fyrri eigendurnir gáfust upp á að búa en fyrir Helga og Oddnýju Aðalbjörgu var landareignin eitt óskrifað blað – myndlíking sem er ekki síst viðeigandi í ljósi þess að yfirvöldin létu mæla jarðirnar þannig að þær mynduðu ferkantaða reiti í staðlaðri stærð.

Saskatchewan árið 1914.

Íslendingum sem komu sem innflytjendur til Norður-Ameríku var gert að taka upp ættarnafn gagnvart yfirvöldum við komuna. Ekki gekk að kona bæri annað eftirnafn en maður hennar og ekki heldur að barn fengi nýtt kenninafn föðurs. Margir innflytjendur kusu að aðlaga kenninöfn sín að enskum málvenjum, t.d. varð Jónsson oft að Johnson eða jafnvel Jones. Aðrir vildu frekar kenna sig við upprunann, sbr. Snidal og Hunford. Helgi Bjólan og Oddný Aðalbjörg fóru gjörsamlega sínar eigin leiðir með því að taka upp ættarnafnið Bjola, að því virðist eina fjölskyldan í heiminum til þess að bera þetta skemmtilega ættarnafn. Lítið er hægt að finna um hag fjölskyldunnar í Saskatchewan en þau bjuggu skammt frá þorpinu Leslie og eignuðust a.m.k. þrjú börn þar, þau Gísla Valdimar (Valdi), Valgerði (Val) og Jóhannes (Joe).

Skömmu eftir lok fyrri heimstyrjaldar, þann 14. janúar 1919, skrifaði Helgi bréf til ritstjóra blaðsins Voraldar og fullyrti að „án [Voraldar] má mitt heimili ekki vera og eg er þér hjartanlega þakklátur fyrir þá stefnu sem þú hefir haldið fram“ („Úr bréfum til Voraldar“, 6). Orð Helga gefa sterka vísbendingu um að hann hafi aðhyllst friðarstefnu og jafnvel sósíalisma. Hvað varðar „stefnu“ ritstjórans má segja að Voröld hafi flokkast sem róttækt blað á mælikvarða þess tíma þar sem mátti m.a. lesa efni um bolsévisma og verkalýðsmál.

Sigurður Júlíus Johannesson.

Ritstjóri Voraldar var skáldið Sigurður Júlíus Johannesson (Siggi Júl) í Winnipeg sem var friðarsinni og mikill andstæðingur herskyldulaganna í Kanada. Siggi Júl var læknir að mennt og gríðarlega vinsæll meðal íslenskra innflytjenda af lægri þjóðfélagsstéttum þar sem hann neitaði engum um læknishjálp á grundvelli greiðslugetu og sat ekki kyrr í Winnipeg ef þörf var á honum annars staðar. Í heimsfaraldrinum ferðaðist hann til Saskatchewan í október 1918 til að aðstoða íslenska innflytjendur sem þar bjuggu, en allir læknar á svæðinu höfðu veikst. Auk þess vann hann að því að finna löglegar leiðir til að koma í veg fyrir að um fjörutíu einstaklingar yrðu kvaddir í kanadíska herinn („Til Voraldarmanna“, Voröld 26. nóv. 1918: 4). Ósérhlífni Sigga Júl við að koma sjúklingum til bjargar í spænsku veikinni átti þannig hugsanlega sinn þátt í þakklæti Helga sem hann lýsir í bréfinu. En segja má að Helgi beri Bjólu-nafnið með rentu miðað við lýsingu Kjalnesinga sögu.

Sólskínið í Saskatchewan

Það vill svo einkennalega til að þrátt fyrir að hafið skilji þá Kiljan og Bjólan að þá liggja leiðir þeirra saman á blaði. Hinn ungi H. Guðjónsson frá Laxnesi skrifaði bréf til vesturíslenska barnablaðsins Sólskín sem birtist á prenti 15. júní 1916. Beint fyrir neðan bréfið má finna stutt bréf eftir Valgerði Bjóla, 7 ára stelpu frá Leslie, Saskatchewan. Eldri dóttir Bjóla-fjölskyldunnar skrifaði einnig Sólskín sama árið og má sjá að Kristín skrifar íslensku ekki bara til þess að þakka ritstjóranum heldur fylgdi með smásaga á íslensku og mynd sem hún teiknaði. Sagan fjallar um svöngu snjótitlingana og litla fjöl sem pabbi hennar smíðaði fyrir hana til að gefa fuglunum að borða af að vetri til. Maður fær á tilfinningu að Kristín hafi verið pabbastelpa.

Úr vesturíslenska barnablaðinu Sólskín 15. júní 1916, en í því voru birt á sömu blaðsíðu bréf frá Halldóri Laxness og Valgerði Bjóla.

Ekki var algengt að börn af íslenskum uppruna, fædd í Kanada í byrjun 20. aldar, lærðu að skrifa íslensku enda fór kennsla í opinberum skólum eingöngu fram á ensku. En fyrir Kristínu Bjóla var íslenska skapandi mál. Fyrir elsta eftirlifandi barn innflytjendafjölskyldu á sléttunni fór oft ómældur tími í að aðstoða foreldrana við daglegu verkin. Það að hún hafi verið farin að skrifa smásögu á íslensku tólf ára sýnir að fjölskyldan öll hafi verið umhugað um menntun, en listhæfileikar Kristínar fengu líka að njóta sín eftir bestu getu fjölskyldunnar. Hefði hún lifað til fullorðinsára væri nafn hennar líklega betur þekkt vestan hafs. Því miður dó hún 23. október 1919, aðeins 16 ára að aldri. Í Finnlandi hafði Hurskas kurjuus komið út skömmu áður en það var einnig haustið 1919 sem Barn náttúrunnar leit dagsins ljós – fyrsta skáldsaga H. Guðjónssonar frá Laxnesi.

Þrátt fyrir mikla leit fannst dánarár Helga hvergi í heimildum. Samkvæmt manntali var hann enn á lífi árið 1926 þegar Laxness heimsótti Jökuldalsheiðina en látinn haustið 1941 þegar ekkjan Oddný Aðalbjörg gekk aftur í hjónaband. Fróðlegt væri að vita hvort Helgi Bjóla hafi lesið Sjálfstætt fólk og hver viðbrögð hans við bókinni hefðu verið. Hefði hann hneykslast á lýsingunum á landnámsmönnunum á heiðinni og fleygt frá sér bókinni eða hefði hann hlegið hátt og lengi á köflum? Hefði hann fundið ögn af sjálfum sér í Bjarti? Eða hefði bókin kannski staðfest fyrir Helga og Oddnýju þá ákvörðun að kveðja heiðina alfarið sumarið 1903 í von um að skapa betra líf og rýmri tækifæri til menntunar fyrir börnin?

Landnám graslendisins bauð ekki upp á meira frelsi eða sjálfstæði en landnám heiðarinnar eða skógarins. Bjartur kemst fljótlega að því að sjálfstæðistilrauninni hafi verið stýrt af öðrum og valdameiri öflum í samfélaginu – það hafi hentað heldri mönnunum að láta barnsmóðurina fæða afkvæmið sem lengst í burtu frá siðmenningunni. Jussi í finnska skóginum sannfærist líka smám saman um þörfina fyrir að frelsast undan oki hins stéttaskipta bændasamfélags en verður að fórnarlambi uppreisnarinnar. En í Norður-Ameríku er í mesta lagi hægt að tala um sýndarfrelsi þar sem heilum þjóðum var sópað til hliðar til þess að búa til ferkantaða reiti þar sem hægt væri að framleiða ekki eingöngu matarafurðir heldur líka Kanadamenn framtíðarinnar. Kerfið sjálft var aldrei knúið áfram af mannúð í garð fátækra innflytjenda.

Helgi Bjólan Dagbjartsson gæti vel hafa verið nafn á sögupersónu úr skáldsögu eftir Halldór Laxness og eins og hefur verið rætt í þessari grein er ekki loku fyrir það skotið að Laxness hafi haft veður af honum. Eins og svo oft þegar um er að ræða raunverulegan kotbónda um aldamótin 1900 eru heimildir um hann rýrar. En þótt saga Helga á Heiðarseli hafi að mestu fallið í gleymsku væri fróðlegt að vita hvort nánari leit, bæði hérlendis og í Kanada, gæti bjargað úr glatkistunni einhverri vitneskju um friðarsinnaða landnámsmanninn á Jökuldalsheiði sem kaus sér svo einstakt og háleitt nafn.

Um höfundinn
Katelin Parsons

Katelin Parsons

Katelin Parsons er nýdoktor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Katelin starfar í verkefninu Hið heilaga og hið vanheilaga og er jafnframt verkefnisstjóri Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi.

[fblike]

Deila