Við keyrðum  í svartamyrkri frá Akureyri út í Kristnes um síðustu helgi til að sjá sviðslistaverkið Tæringu í leikstjórn Völu Ómarsdóttur. Leikarar voru: Birna Pétursdóttir, Árni Beinteinn, Stefán Guðlaugsson, Kolbrún Lilja Guðnadóttir, Sjöfn Snorradóttir og yngstu leikararnir Sigríður Ólafs/Ronja Sif Björk. María Pálsdóttir, leikkona, er drifkrafturinn á bak við þessa sýningu sem er samsköpun þátttakenda.

Til grundvallar sýningunni liggja bréf og dagbækur berklasjúklinga af Kristneshæli sem Vilhjálmur B. Bragason hefur unnið úr handrit sýningarinnar. Leikmynda- og búningahönnður er Auður Ösp Guðmundsdóttir, vídóverk og ljósmyndir sem stækka og breyta rýminu eru Maríu Kjartansdóttur og tónlist er Bigga Hilmars.

Mjög athyglisverð sýning

Formlega er þetta sviðslistaverk mjög áhugavert og leikstjórinn, Vala Ómarsdóttir, á mikinn heiður skilinn af því. Verkið er staðbundið (e. site spesific), leikið á hælinu sjálfu og fær ómældan merkingarauka af húsinu. Saga hælisins og sjúkdómsins er einstaklega nærverandi í þröngum göngum og herbergjum sýningarinnar en það eru sjúklingarnir,  leikararnir sem persónugera sögurnar sem sagðar voru og gera það lifandi.

Berklarnir voru stundum kallaðir “skáldaveikin”, kannski af  því að listamenn fjölluðu svo mikið um hana. Það er ekki langt síðan þessi heimsfaraldur geisaði, rúm öld, en enginn faraldur hefur getið af sér jafn mörg listaverk og rómantíseringu og berklarnir; skáldsögur, smásögur, leikrit og óperur.

Nágranni þinn og fjölskylda hans

Á Kristneshæli voru ekki Kamillíufrúr  heldur alþýðufólk á öllum aldri sem barðist við hræðilegan sjúkdóm sem læknavísindin börðust líka við á fram yfir miðja öldina sem leið. Stundum gekk allt upp, oftast ekki. Þá misstu börn mæður eða fjölskyldur fyrirvinnur. Þegar hin mynduga yfirhjúkrunarkona sýningarinnar  á Kristneshæli, Vilborg (Kolbrún Lilja Guðnadóttir), snarar fram skilrúmi á ganginn á hælinu er ekkert gott að gerast. Hún ráskast með sjúklinga og áhorfendur af móðurlegum myndugleika en hún er líka ung og stelst til að taka sporið þegar enginn sér til.

Í útgefnum bréfum berklasjúklinga má oft sjá að því vonlausara sem stríð sjúklinganna var og því meir sem þeim hrakaði,  því háfleygari urðu framtíðardraumar þeirra og þrár. “Ég skil ekkert í mér, ég er orðinn eitthvað svo rómantískur upp á síðkastið” segir einn fullorðinn sjúklingur (Stefán Guðlaugsson) hálffeiminn í bréfi til konunnar sinnar sem situr á móti honum við borðið á vídeómynd sem varpað er á vegginn. Börnin sem unga konan (Birna Pétursdóttir þrári að komast til eru líka skuggar á vegg.

Bilið milli draums og veruleika verður smám saman styttra á þessari göngu gegnum hælið. Eldri maðurinn og sá yngri (Árni Beinteinn) tefla í stofunni, sá yngri hefur alls konar plön um framtíðina en hann er orðinn mjög meðtekinn í lokin og hóstinn afhjúpar að það fer að styttast í þessu.

Persónurnar virðast ekki vita af áhorfendum þar sem þeir tala saman og bíða. Áhorfendur eru eins og gegnsæir. Í textunum er hins vegar höfðað beint til samlíðunar áhorfenda og grátgjarnir aðilar meðal þeirra voru fegnir að geta falið sig bak við sóttvarnargrímurnar sem þeir urðu að bera.

Heimsfaraldur

Áhorfendur elta Vilborgu og atriði verksins eftir þröngum göngum, inn í sjúkrastofur og skoðunarherbergi. Þeir hlusta á einræður og samtöl sjúklinga og eru vitni að baráttu þeirra. Takmarkanir þessa erfiða rýmis er vegið upp með hugmyndaríkum lausnum, vídeóverkum, leikhljóðum og tónlist. Skiptin milli atriða voru lipur og hraðinn í sýningunni góður nema í lokaatriðinu sem var teygt í lengsta lagi, annars rak eitt atriði annað og tíminn flaug. Þrengslin á ganginum og litlum herbergjum eru bæði kostur og ókostur; Kostirnir eru nándin við efnið og sterk nærvera efnisins en þó séu aðeins tíu áhorfendur í einu gátu ekki allir séð allt. En það vildi maður gjarna gera.

Tæring var satt að segja óvenjuleg og mögnuð leikhússupplifun. Ekki síst í ljósi þeirra tíma sem við lifum nú með geisandi heimsfaraldri og mannfalli. Full ástæða er fyrir höfuðborgarbúa með fótaferð að drífa sig norður, njóta undursamlegra haustlitanna og menningarviðburða sem vega upp á móti leiða og sjálfsvorkunn.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila