Fótum fjör að launa

Þegar litið er um öxl er ekki alveg hlaupið að því að skilja hrifningarölduna sem í upphafi mætti 1917. Ekki að um vonda mynd sé að ræða, langt því frá, en þetta er hefðbundin stríðsmynd um flest. Sögusviðið er fyrri heimsstyrjöldin, og, líkt og titillinn gefur til kynna, þá er farið að síga vel á seinni helminginn þegar frásögnin hefst. Ungur hermaður, Tom Blake (Dean-Charles Chapman) að nafni, fær það verkefni að flytja breskri herdeild mikilvæg skilaboð, en til að það heppnist þarf hann að ferðast á fæti yfir verulegar vegalengdir, bæði yfir einskismannslandið svokallaða (e. no man‘s land), hlutlausa svæðið mitt á milli útvarðasveita stríðandi fylkinganna, og svo yfir svæði undir stjórn Þjóðverja. Með sér í þetta hættulega verkefni velur hann vin sinn Sco (George MacKay), og lagt er af stað undir eins enda má engan tíma missa. Markmiðið er skýrt og banalína frásagnarinnar er það líka, næsta morgun eldsnemma mun herdeildin blása til atlögu við þýska herinn og þannig ganga óvitandi í gildru. 1600 líf munu tapast og meðal þeirra er bróðir Tom.

Breski kvikmyndaleikstjórinn Sam Mendes hlaut mikla athygli fyrir sína fyrstu mynd, American Beauty (1999), og fékk meira að segja leikstjóraóskarinn í sinn hlut fyrir vikið. Honum reyndist erfitt að fylgja velgengni sinnar fyrstu myndar eftir og kannski má segja að hann hafi ekki náð almennilegu flugi aftur fyrr en með James Bond myndunum tveimur sem hann gerði allnokkru síðar (Skyfall, 2012, Spectre, 2015). Það voru allavega myndir sem fólk vildi sjá – burt séð frá því sem okkur kann að finnast um síð-Bond almennt og þessar myndir sérstaklega (sennilega mun framleiðsla á James Bond kvikmyndum aldrei ljúka) – og skáru sig þannig jafnframt frá því sem Mendes hafði gert í millitíðinni. En samhliða því að hann tók að sér að stýra kvikmyndalegu ígildi skemmtigarða (í formi viðbóta við langlífustu stórsmellaröð kvikmyndasögunnar), tók að molast undan jákvæðum viðhorfum í garð hans fyrstu myndar. Kevin Spacey, aðalleikari American Beauty, var viðfang eins af fyrstu #metoo hneykslismálunum, og tilhugsunin um að horfa á mynd þar sem hann er sífellt í forgrunni fælir frá í dag. En jafnvel áður en #metoo hófst höfðu efasemdarraddir tekið að heyrast um þessa frygðarsögu af gömlum kalli sem dreymir um að sænga hjá skólastúlku, vinkonu dóttur sinnar. Já, mönnum fór að finnast þetta ískyggilegur  söguþráður þegar frá leið – ekki þó þegar myndin kom út, vert er að endurtaka það, þá var hágrátið yfir harmrænum örlögum karlhetjunnar – en staða hennar, eins og allt annað sem Spacey hefur gert, er nú litið í gegnum sérstök gleraugu, ekki síður af kvikmyndagerðarbransanum en okkur almennum áhorfendum.  En maður er þakklátur fyrir litlu hlutina í lífinu.

Vert er að hafa þessa baksögu í huga þegar um 1917 er rætt, nýjustu mynd Sam Mendes, og þá kannski til að skýra af hverju hún kom jafn mikið á óvart og raunin var. Veðbankar voru sammála um að hún fengi öll Óskarsverðlaunin. Og það kom á óvart, eins og áður segir, vegna þess að Mendes hafði ekki gert neitt sérstaklega merkilegt í 20 ár, og það merkilega sem hann gerði var kannski bara frekar ógeðslegt. En af þessum sökum voru væntingar í garð 1917 kannski í lágmarki og lítið um hana fjallað meðan hún var í framleiðslu. Ekki var um mynd að ræða sem hafði hafði verið hluti af umræðunni um líklega Óskarsverðlaunahafa svo dæmi sé nefnt. En í ársbyrjun byrjaði hún að hreinsa upp á verðlaunaviðburðum; 1917 var síðbúinn stórsmellur sem virtist eiga möguleika á að stimpla sig inn í kvikmyndasöguna.

Að undanskildum korters inngangi snýst öll myndin um áðurnefnt ferðalag tvímenningana og það hvernig þeir bregðast við margbreytilegu úrvali ógna og hættulegra kringumstæðna. Bresku hermennirnir eru allir gull af mönnum, búa yfir ríku innra lífi þótt yfir þeim kunni að sveima vonleysi (óbreyttir) eða tregi (herforingjar), þýsku hermennirnir eru öll andlitslaus og ómennsk kvikindi sem ýmist þarf að drepa eða forðast. Hvað þetta varðar eru efnistökin gamaldags, myndinni svipar til stríðsmyndanna sem gerðar voru uppúr miðri síðustu öld og fram til 1970. En það er ekki handritið sem vakið hefur athygli heldur hröð atburðarásin og – alveg sérstaklega – sú staðreynd að myndin virðist hér um bil vera tekin í einni töku. Það er þessi „eina“ taka sem allir tala um og hefur vakið hvað sterkasta hrifningaröldu. Fyrir hana fékk Roger Deakins líka Óskarsverðlaunin nýverið.

Það er heldur engum blöðum um það að fletta að kvikmyndatakan í myndinni er tilþrifamikil. Myndavélin fylgir söguhetjunum náið hvert sem þær fara og oft eru aðstæður bæði hryllilegar og spennuþrungnar. Það er þó ekki síst í upphafi og í lokaatriðinu sem einstökuaðferðin er sérstaklega sláandi, en þá er myndramminn og söguheimurinn þéttsetinn fjölda manns, hermönnum öllu jafnan, og skipulagið sem hér liggur að baki er ótvírætt verkfræðilegt afrek. Að ímynda sér erindreka leikstjórans, kvikmyndalega liðþjálfa, sem staddir eru utan ramma gargandi skipanir svo allt megi ganga jafn snuðrulaust fyrir sig og það þarf að gera gæti þó kippt sumum áhorfendum út úr frásögninni.

Langar tökur hafa löngum verið helsta reðurtákn karlleikstjóra í Hollywood og samanburðarmælingarnar hafa farið fram áratugum saman. Stærsta reðurtáknið hefur löngum þótt tilheyra Martin Scorsese en allir mæla þessir leikstjórar sig þó við frumföður hjarðarinnar, Orson Welles og löngu tökuna í upphafi Touch of Evil (1958). Við þetta er allavega tvennt að athuga. Annars vegar eru reðurkeppnir karla ekki jafn áhugaverðar í dag eins og þær þóttu einu sinni og svo hins vegar þá hefur stafræna tæknin gert þetta allt hálfómarktækt, eins og allt í einu megi koma með sérsmíðuð dildó á keppnisstað í stað þess að treysta á það sem guð gaf manni. Og mikið sem menn leggja upp úr því að smíða dildó,  drottinn minn dýri. En núverandi verðlaunahafar í verkfræði dildósins eru sem sagt Sam Mendes og Deakins, það verður ekki frá þeim tekið. Megi þeir lengi lifa og dildóinn stækka..

Spyrja má þó hvort fleira felist í löngu tökunni í þessu tilviki, er árangri náð með þessum hætti sem ómögulegt væri að framkalla öðruvísi? Margir halda því fram, og er þá bent á að áhorfandi verði sem þátttakandi í hamförunum, samlíðunin verði sterkari og maður sé hreinlega á staðnum. Í ljósi þess að tvær eða þrjár klippingar í myndinni eru augljósar er samt vandasamt að skilja hvers vegna nokkrar í viðbót ættu að hafa haft einhver úrslitaáhrif á upplifun áhorfanda. Tökuvél getur verið í gríðarlegu návígi við aðalpersónuna og framkallað þrúgandi samlíðun og rýmissamsömun, líkt og Son of Saul (László Nemes, 2015) sýndi svo um munaði, án þess að vera að telja klippingarnar. Í rauninni eru þetta óskyld atriði, hvort mynd framkalli innlifun og fylgi persónum náið, og hvort það sé klippt. En er gjarnan steypt saman í umræðunni um 1917. Ekki má gleyma því að 1917 fékk einnig verðlaun fyrir myndbrellur en fæstir tóku væntanlega eftir stórkostlegum brellum að hætti Marvel mynda, en, nota bene, þannig eiga góðar myndbrellur að vera; ósýnilegar.

1917 er að öllu leyti hefðbundin stríðsmynd sem leitast við að nota tökuvélarbrellu til að skapa sér sérstöðu, en það heppnast ekki nema að hluta til. Kaflarnir þar sem tökuvélatrikkið vinnur með sögunni eru einkum þeir sem eiga sér stað í skotgröfunum í byrjun og svo það sem gerist í skotgröfunum undir lokin og í síðasta hlaupaatriðinu. Þess á milli gerist að vísu heilmikið og flest af því býsna skemmtilegt, misjafnlega þó; klisjukennt atriði með ungri stúlku og hvítvoðungi sem fara huldu höfði í kjallara í sundursprengdum frönskum bæ nær að vera í senn óbærilega klisjukennt og stórundarlegt rof á takti frásagnarinnar. Aðalatriðið er þó að enginn þessara frásagnarkafla stendur og fellur með því að klippingaleysinu sé viðhaldið. En vissulega er þetta vel gerð mynd, Bretar eru sérstakir snillingar í tíðarandaþáþrá og endursköpun eigin gullaldar. Það er t.d. aðdáunarvert til þess að hugsa hvað menn og konur með öflugar tölvur hafa fengið mikið að gera þegar að því kom að fylla upp í myndflötinn í eftirvinnslunni og hversu vel þeir stóðu sig. Á löngum köflum er myndheildin eins og málverk, ljóst er að dútlað hefur verið yfir hverju smáatriði og grafísku forritin keyrð allan sólarhringinn. En mikið sem ég er feginn að sigurgöngu myndarinnar lauk núna fyrir tveimur vikum og það reyndist vera Parasite (Bong Joon-ho, 2019) en ekki þessi ágæti en gamaldags hetjuóður sem var krýnd mynd ársins af bandarísku akademíunni.

Um höfundinn
Sigurður Arnar Guðmundsson

Sigurður Arnar Guðmundsson

Facebook

Sigurður er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila