Firna falleg sýning

Brúðuleikhúsið  er uppi á háalofti í Þjóðleikhúsinu. Þar sýnir Bernd Ogrodnik um þessar mundir Brúðumeistarann, sem er brúðuleikrit fyrir fullorðna. Bernd skrifar leikritið og býr til brúðurnar en Bergur Þór Ingólfsson leikstýrir.

Verkstæði brúðumeistarans

Við erum stödd á verkstæði brúðugerðarmannsins Günther. Það er Eva Signý Berger sem skapar leikmyndina sem er ævintýri líkust. Þar ríkir skipulögð óreiða því verkstæðið er jafnframt heimili Günthers. Þess vegna eru kojur, pottar og könnur, fullgerðar eða hálfgerðar brúður, hljóðfæri og vinnubekkir, hvað innan um annað en allt gegnir þetta hlutverkum í sýningunni. Á vinnubekknum liggur brúða sem er gamall maður, kannski faðir Günthers, sem var þýskur, kannski Günther sjálfur. Brúðan er fullgerð fyrir utan lokahnykkinn sem er sá að hún á að verða engill og fljúga. Gæti þetta ekki verið táknmynd fyrir væntingar og þrá listamannsins fyrir hönd verks síns?

Fortíð og nútíð flæða saman

Burtséð frá slíkum pælingum vekur þetta verk Berndts upp margvísleg hugrenningatengsl hjá áhorfanda.  Bernd Ogrodnik er eini leikarinn á sviðinu, aðalpersónan Günther sem jafnframt er  sögumaður. Efni verksins eru minningar hans um fortíð sína og bernsku í Þýskalandi en hann er innflytjandi á ÍslandiHann vill alls ekki rifja upp reynslu foreldranna af stríðsárunum í Þýskalandi og alls ekki reynslu sína sem kaþólskt barn áður en þögninni var létt af misnotkun kirkjunnar manna á þeim. Honum er mjög í mun að halda minningunum og sögunni frá sér. Ekkert getur þó haldið þeim í burtu frá honum – ekki einu sinni fjórir lásar á hurðinni. Fortíð og nútíð flæða saman, það er ekki samfelldur söguþráður í sýningunni heldur brot og senur sem er haldið saman af persónu sögumannsins og brúðum hans sem leika margvísleg hlutverk. Það eru pólitískir broddar í textanum og leikhússumræða, brandarar, léttleiki en líka harmur.  Sýningin er mjög þétt og hún hélt áhorfendum allan tímann. Og flaug í lokin.

List brúðleikhússins

Það er samt ekki fyrst og fremst söguefni hennar sem vekur mesta hrifningu heldur list brúðumeistarans. Eins og alltaf er það umbreytingin og óendanlegt hugmyndaflug sem er aðalsmerki Bend Ogrodniks. Ummyndanir brúðanna og umformun hluta fyrir augum manns eru eins og galdur, stundum hræðilegur, stundum ljóðrænn og fagur, stundum fyndinn, stundum ótrúlegur. Nokkrar misstórar kúlur og plötur vefjast saman og tengjast og stækka fyrir augum manns og verða að hermanni og drápsvél og svei mér þá ef hann hafði ekki nokkur útlitseinkenni kakkalakka. Skuggamyndir á hurð sýna hliðið að fangabúðunum í Auswitz. Tónlist Péturs Ben og hljóðmynd Elvars Geirs Sævarssonar og að sjálfsögðu lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar áttu sinn þátt í allri sýningunni.

Þetta er sennilega íburðarmesta og fjölmennasta sýning sem ég hef séð eftir Bernd Ogrodnik. Samt er það hinn tæri einfaldleiki og dýpt fyrstu sýningarinnar sem ég sá eftir þennan brúðumeistara sem ég gleymi aldrei. Nú finn ég ekki nafnið á henni á netinu en hún fjallaði um venjulegan mann og ótrúlega einmanalegt líf hans. Ég sé hana enn fyrir mér.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila