Að brjótast út úr sínu eigin fangelsi

Leikritið Eitur, eftir hollenska leikskáldið Lot Vekemans, var frumsýnt í Borgarleikhúsinu í gær, 2. nóvember. Þetta er gríðarlega vel skrifað leikrit um efni sem alla varðar, sorgina. Það er Ragna Sigurðardóttir sem þýðir og Kristín Jóhannsdóttir sem leikstýrir. Í verkinu eru aðeins tvö hlutverk, Hún og Hann, fyrrverandi hjón leikin af Nínu Dögg Filippusdóttur og Hilmi Snæ Guðnasyni. 

Fundur 

Í upphafi verksins bíður hann eftir að hún komi. Þau hafa fengið bréf frá umsjónarmanni kirkjugarðsins þar sem sonur þeirra liggur grafinn. Samkvæmt bréfinu þarf að færa fjölda grafa vegna mengunar garðsins og spurt er um afstöðu þeirra til málsins. Hjónin fyrrverandi, hafa ekki sést eða talst við í níu ár eftir að hann gekk hljóðlega út með tvær ferðatöskur og flutti í annað land. Konan er full af ásökun og heift, hann með sektarkennd en líka reiður. Leikritið snýst um uppgjör þeirra. 

Sorgin 

Freud sagði að lýsa mætti missi ástvinar þannig að þau kærleiksbönd sem hefðu tengt þann sem eftir lifir við hinn látna séu nú laus og sorgarferlið felist í því að draga þau tilbaka inn í sjálf syrgjandans smám saman svo að hann geti tengt þau síðar við annað viðfang. Gerist það ekki getur syrgjandinn lokað sorgina inni í eins konar innra grafhýsi eða svartholi sem gleypir allt líf. Þetta hefur gerst hjá henni. Hún getur ekki samþykkt dauða barnsins heldur hverfist allt líf hennar um missinn, harminn og reiðina, ásökun og kröfu um að fá aftur lífið fyrir missinn, hamingjuna sem hvarf. Allt tilfinningalíf hennar hverfist um fortíðina og afneitun missisins eitrar tilveru hennar og sviftir hana allri gleði.  

Hann brást henni“, að minnsta kosti að hennar mati og flýði harm hennar og reiði. Því er þó eiginlega ósvarað hvort hann gat nokkuð fyrir hana gert, annað en það að fara og koma aftur annar maður. Eftir að hafa reynt að flýja undan sjálfum sér hefur hann valið leiðina til lífsins, unnið hægt og bítandi að því að sætta sig við missinn, draga inn böndin til að festa þau við nýja framtíð og viðurkenna að það sem hvarf kemur ekki aftur. Það verður að horfa fram á veginn og taka það gilt að sama hamingjan kemur aldrei aftur.  

Stórleikarar 

Nína Dögg Filippusdóttir og Hilmir Snær Guðnason eru meðal okkar allra bestu leikara og þau sýndu það svo sannarlega í gær. Hún var eins og þaninn strengur framan af, hörð, meinhæðin og svo reið að hún rúmaði varla spennuna. Hann reyndi að fela óöryggi, reiði og sársauka en allt brýst þetta fram í átökum þeirra sem á sviðinu eiga sér aðdraganda, hápunkt og lausn. Þau gerðu þetta afar fallega. 

Allar sýningar Kristínar Jóhannesdóttur hafa sterk höfundareinkenni, fagurfræðilegt nostur og naumhyggju. Börkur Jónsson gerði leikmyndina sem gerði mikið úr litlu og lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar gerði umgjörð verksins hlýlega og kyrrláta andstæðu við átökin og ofsann sem braust út.  

Þetta vel skrifaða og stórkostlega vel leikna verk á erindi til allra sem hafa tekist á við sorg, eða vilja skilja hana.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila