Kvenlæg mynd af ungdómsmenningu

MIG LANGAÐI TIL ÞESS AÐ GERA KVIKMYND SEM MINNTI KONUR Á AÐ VIÐ ERUM OKKAR BESTU BANDAMENN

– OLIVIA WILDE

Unglingamyndin Booksmart er sterk höfundarfrumraun leikkonunnar og leikstjórans Olivia Wilde. Handritið er skifað af fjórum konum, þeim Emily Halpern, Sarah Haskins, Susanna Fogel og Katie Silberman, og báðar aðalpersónurnar eru leiknar af konum. Í ljósi þess hversu sjaldgæft það er að konur séu í ráðandi hlutverkum við gerð kvikmynda þá er gaman að vita af svo stórum hópi kvenna í lykilstöðum. Booksmart fylgir tveimur bestu vinkonum, þeim Amy (Kaitlyn Dever) og Molly (Beanie Feldstein), í gegnum sitt síðasta og eina menntaskólapartý. Alla sína menntaskólagöngu hafa þær lagt áherslu á námið og fórnað öllu öðru til þess að komast í góðan háskóla. Þegar þær hins vegar komast að því að samnemendum þeirra tókst bæði að skemmta sér og að komast inn í góða háskóla eru þær staðránar í því að bæta sér upp missinn með því að fara í lokapartýið kvöldið fyrir útskriftarathöfnina.

Booksmart sker sig að mörgu leyti frá hinni hefðbundnu unglingamynd. Kvikmyndin fjallar ekki um hinn kynóða gagnkynhneigða strák sem hefur gjarnan verið í farabroddi slíkra mynda heldur um tvær sterkar kvenpersónur. Algeng stuðningsfafla og um leið grínstoðtæki (e. „comic-relief“) í unglingamyndum eru nördarnir sem fara í partý til þess að sanna sig fyrir vinsælu unglingunum sem hafa lagt þá í einelti alla skólagönguna. Í lok myndanna missa þeir yfirleitt sveindóminn og samnemendur þeirra meta þá þess vegna að verðleikum. Booksmart endurnýjar þessa föflu og minnir þannig að sumu leyti á Superbad (Greg Mottola) sem út kom árið 2007. Tengingarnar eru vissulega til staðar og má í því sambandi nefna að yngri systir Jonah Hill, Beanie Feldstein, leikur Molly, en Jonah Hill lék einmitt Seth í Superbad, eina af aðalpersónunum. Þrátt fyrir þessa sameiginlegu þætti þá er ekki réttlætanlegt að lýsa Booksmartsem „kvenútgáfu“ af Superbad. Nær lagi væri að líkja henni við Bridesmaids (Paul Feig, 2011). Í báðum myndunum er um að ræða tvær sterkar konur, sem jafnframt eru bestu vinkonur, sem ganga í gegnum röð atburða sem reyna á samband þeirra. Í Bridesmaids og Booksmart eru konurnar fyndnar, ekki vegna þess að þær eru kvenkyns útgáfa af karlmönnum, heldur eru þær fyndnar konur sem eru ekki hræddar við að tala um sjálfsfróun og önnur „viðkvæm“ málefni. Í Booksmart eru nördarnir stelpur sem eru í leit að kynferðislegri reynslu og þó svo að þær séu nördar þá eru þær ekki lagðar í einelti. Ef eitthvað er þá eru það Molly og Amy sjálfar sem telja sig yfir þá hafna sem ekki hafa fært sömu fórnir fyrir námið og þær hafa gert.

Í byrjun er öllum helstu staðalmyndum unglingamyndarinnar stillt upp með skýrum hætti. Hins vegar, eftir því sem líður á myndina, komast áhorfendur að því að ekki er allt sem sýnist og sérhver persóna býr yfir mun fleiri persónueinkennum en staðalmyndin kveður á um. Booksmart leggur þannig gildru fyrir áhorfendur með því að leyfa þeim að dæma og mynda væntingar um persónunar, væntingum sem er síðan sópað í burtu. Stutthærða „stráka-stelpan“ Ryan (Victoria Ruesga) þarf til dæmis ekki endilega að vera samkynhneigð svo dæmi sé nefnt. Molly fellur í sömu gildru og er, rétt eins áhorfendur, alltof fljót að dæma þegar kemur að samnemendum sínum. Virðing er borin fyrir hverri einustu persónu, allar reynast þær mannlegar og brothættar, og áhorfendur vilja þess vegna að öllum persónunum vegni vel.

Helsta sérkenni kvikmyndarinnar, og það sem skilur Booksmart frá flestum öðrum unglingamyndum, er að í frásögninni er ekkert illmenni. Það er engin persóna sem kemur í veg fyrir velgengi stúlknanna nema þær sjálfar, allir eru frá upphafi of uppteknir af sjálfum sér til að nenna að vera þrándur í þeirra götu. Kvikmyndin gengur ekki út á sýndarmennsku eða hefndaráætlun heldur er hún eins og samansafn skemmtilegra menntaskólaminninga sem er búið að flétta saman í eitt afdrifaríkt kvöld.

Booksmart gefur áhorfendum forvitnilega mynd af því hvernig það er að vera unglingur árið 2019 og á eftir að reynast vitnisburður fyrir framtíðina um æsku núverandi kynslóðar (einkum kannski þeirrar bandarísku, en þó ekki einvörðungu). Af þeim sökum eru ýmsir á þeirri skoðun að myndin eigi eftir að verða „klassík“ rétt eins og unglingamyndirnar Dazed and Confused (Richard Linklater, 1993), Clueless (Amy Heckerling, 1995), og Mean Girls (Mark Waters, 2004), svo eitthvað sé nefnt. Einn tiltekinn þáttur í frásögninni ber auðsjáanlega með sér sérkenni núverandi kynslóðar, en það er símanotkun. Myndin fléttar símanotkun inn í framvinduna með ýmsum hætti en sérstaklega eftirminnilegt dæmi um hvernig þessi ungdómsiðja er notuð með markvissum og listrænum hætti er atriðið þar sem Molly og Amy eru að rífast í partýi fyrir framan alla samnemendur sína. Atriðið er tekið í einni samfelldri töku og tökuvélin skiptist á að sýna Amy og Molly, hún fer fram og aftur líkt og tekið sé upp á síma en það er einmitt markmiðið, að áhorfandinn fái á tilfinninguna að hann haldi á síma og taki upp rifrildið rétt eins og aðrir á staðnum. Þetta er skemmtileg tilraun hjá leikstjóranum Wilde og kvikmyndatökumanninum Jason McCormick, sem bæði færir áhorfendur nær persónunum og lífsháttum.

Booksmart er á marga vegu mjög feminísk. Enginn rígur eða keppni er á milli stelpnanna heldur eru þær til staðar hvor fyrir aðra rétt eins og alvöru vinkonur eru. Í kvikmyndinni er heldur ekki hið fræga „makeover“-atriði þar sem þær taka gleraugun af sér og verða séðar og eftirsóttar í skiptum fyrir að sjá. Hins vegar er annað mjög áhugavert atriði í kvikmyndinni sem vekur upp vangaveltur um þær óraunhæfu líkamskröfur sem gerðar eru til kvenna. Molly og Amy er byrlað eiturlyf og í vímunni breytast þær í Barbiedúkkur. Þær umbreytast bókstaflega í martröð sína með því að verða undirseldar hugmyndum sem þær hafa reynt að sporna gegn í ríkjandi feðraveldi. Það sem er ennþá hryllilegra er að Amy finnur sig í hlutverkinu. Hún stendur fyrir framan spegil og dáist að nýja líkamanum sínum á meðan Molly gerir allt sem í valdi hennar stendur til þess að hjálpa sér og vinkonu sinni út úr þessarri martröð. Þessu atriði má líkja við hið sígilda „makeover“-atriði í unglingamyndum. Stelpurnar fara í gegnum eitthvað ferli og verða að líkamlega „betri“ útgáfum af sjálfum sér. Í þessu tilfelli er umbreytingin hins vegar gagnrýnd. Markmiðið er að fá áhorfendur til þess að líta gagnrýnum augum á þetta nýja útlit vinkvennanna. Þessi nýji líkmi þeirra er ekki mannleg gerð af Barbie heldur eru þær bókstaflega dúkkur, harðar, litlar stirðar dúkkur. Þær eru ekki mannlegar enda eru þær líkamlegu kröfur sem gerðar eru til kvenna óraunhæfar.

Booksmart er engan veginn fullkomin. Hún tekur til dæmis ekki tillit til stöðu og stéttar og stærstur hluti persónanna er leikinn af hvítum leikurum. Að því sögðu er kvikmyndin mikil tilbreyting frá hinni hefðbundnu unglingamynd. Booksmart er snjöll og fyndin ásamt því sem hún sýnir að stelpur og aðrir þurfa ekki að vera í sífelldri keppni. Kaitlyn Dever og Beanie Feldstein eru frábærar í hlutverkum Amy og Molly og áhorfendum líður brátt eins og þær séu í raun bestu vinkonur – og má í því sambandi geta þess að til að undirbúa sig fyrir hlutverkin bjuggu leikkonurnar tvær saman í tvo og hálfan mánuð til þess einmitt að kalla fram þessi nánu tengsl. Svo virðist sem allir hafi skemmt sér við gerð kvikmyndarinnar og má því ætla að hið svokallaða „strict no-asshole policy“ hafi skilað sér prýðilega. Það er einnig gaman að sjá lesbíska persónu þar sem það að vera lesbísk er ekki eina persónueinkenni hennar heldur aukaatriði. Á heildina litið er Booksmart bráðskemmtileg og feminísk kvikmynd og á sennilega eftir að verða eins konar klassík með sínum skemmtilegum frösum og því hvernig hún nær að endurspegla fullkomlega hvernig það er að vera unglingur árið 2019. Þá er Booksmart mikilvæg tilbreyting frá hinni hefðbundnu unglingamynd og hluti af þeirri nýju bylgju sem virðist vera að myndast með kvikmyndum eins og Lady Bird (Greta Gerwig, 2017), Eighth Grade (Bu Burnham, 2018) og The Edge of Seventeen (Kelly Fremon Craig, 2016). Það er spennandi að sjá hvað Olivia Wilde tekur sér fyrir hendur næst.

Vefsvæði Engra stjarna er hér.

Um höfundinn
Jóna Gréta Hilmarsdóttir

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

Jóna Gréta Hilmarsdóttir er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands og meðlimur í Engum stjörnum.

[fblike]

Deila