Vændiskona, módel, ljóðskáld

Við tengjum öll við það að vera einstaklingar í samtímanum. Framsetning hvers og eins á sjálfum sér er þó mismunandi, en viljinn til að skera sig út úr verður kannski sá eiginleiki sem sameinar okkur. Searching Eva (Pia Hellenthal, 2019) er stíliseruð heimildarmynd um unga konu; Evu. Eva sefur hjá bæði strákum og stelpum, hún er vændiskona, módel og skrifar ljóð, hún er frá smábæ á Ítalíu en býr megnið af myndinni í Berlín. Kvikmyndin var tekin yfir fjögurra ára tímabil og fjallar um unga konu, reynslu og upplifun hennar. En hverju er heimildarmyndin að reyna að miðla? Framsetningaraðferðir kvikmyndarinnar flækja fyrir og þegar upp er staðið er áhorfandinn skilinn eftir með spurningar í besta falli, ekkert í versta.

Kvikmyndin flakkar á milli umræðuefna og skotategunda. Skotin eru meðal annars hefðbundin fyrir heimildarmynd þar sem áhorfendur sjá brot úr hversdagslífi Evu og sporskot (e. tracking shot) eru gjarnan notuð. En tökumaður leikur sér einnig af því að stilla upp kyrrmyndum af Evu, líkt og á ljósmynd. Inn á milli eru svo senur þar sem engin mynd er í rammanum, eingöngu hvítur texti á svörtum bakgrunni, líkt og um sé að ræða athugasemdir frá nafnlausum aðilum á netinu og einstaka sinnum sjást svör Evu við þeim. Með því að leiða saman mismunandi skot dregur Searching Eva sterkan svip af viðfangsefninu. Þrátt fyrir að brjóta upp flæðið í myndinni, ljá brotin myndinni vissan stíl. Stíllinn virkar vel fyrir líf Evu; hversdagsleikinn í heimildarmyndastílnum, uppstillt skot fyrir störf sín og samfélagsmiðla og að lokum tómið þar sem skoðanir annarra dynja á Evu og áhorfendum, góðar eða slæmar. Stíll er hafður ofar innihaldi.

Ekki nóg með að kvikmyndin skipti á milli skotategunda heldur flakkar hún einnig í tíma og milli viðfangsefna. Inn á milli les Eva upp úr dagbóka- eða bloggfærslum, sumt eru æskuminningar og annað er lýsing á deginum sem var að líða. Tímaflakkið er viðeigandi þar sem fyrri reynsla Evu tengist umfjöllunarefninu í hvert sinn. Umfjöllunarefnin sem kvikmyndagerðakonurnar, Pia Hellenthal og Giorgia Malatrasi, skoða eru meðal annars kynhneigð, kynlíf, vændi, klám, eiturlyf, samfélagsmiðlar og ímynd einstaklingsins. Þetta er nýaldarheimildarmynd. Umfjöllunarefnin virka sem einskonar kaflaskipting fyrir myndina þó svo að þau flæði inn í hvort annað í flestum tilvikum. Flakk á skotum og umræðu skapar takt innan kvikmyndarinnar en veldur samtímis því að áhorfendur eiga erfitt með að tengja við viðfangsefnin. Það er einfaldlega ekki rými til að ræða allt ofangreint og taktur kvikmyndarinnar þrengir enn þá meira að. Þrátt fyrir flakkið er myndin ekki ruglingsleg, enda skortir hana dýpt og því er auðvelt að fylgja yfirborðskenndum og vel stíliseruðum þemum.

 

Stíliseruð skot bjarga myndinni með því að gefa henni heildar-„lúkk.“ Ef til vill var tilgangurinn með myndinni einmitt að gefa óljósa mynd með skýru „lúkki.“ Searching Eva snertir á viðfangsefnum án þess að kafa ofan í þau; engin svör og engar spurningar. Það gæti hafa verið meðvitað að kynna viðfangsefnin til leiks og sjá hvað áhorfendur kjósa að lesa úr þeim, en mynd í fullri lengd verður dauf fyrir vikið – eins og hálfs tíma samræðukveikjar (e. converstation starters). Ef til vill hefði fókus á vændi eða gagnrýnina sem Eva fær frá ókunnugum á netinu verið klisjukenndur söguþráður og heimildarmyndin fær rokkstig fyrir að snerta á þessum efnum án þess að dramatísera þau eða breyta myndinni í áróðursmynd. Heimildarmyndin geldur hins vegar fyrir að stökkva ekki á klisjuna og stendur því án söguþráðar. Samfellan í myndinni veltur einvörðungu á Evu, annað hvort er verið að horfa eða hlusta á hana, eða hafa skoðun á henni. Þannig er merkilegt að áhorfandi hefur hvorki samúð með né tengingu við Evu sem persónu að áhorfi loknu.

Flakkið milli viðfangsefna og skotategunda veldur því að áhorfandi fær aldrei nægan tíma til að tengjast persónunni sem stendur fyrir miðju myndarinnar. Ef til vill er opnað á örlítinn skilning á hugsunum Evu, en ekki tilfinningar hennar eða samskipti hennar við fjölskyldu, þrátt fyrir senur og dagbókarfærslur með fjölskyldulífi hennar. Efnið fékk ekki þann tíma sem það þurfti til að ná taki á áhorfanda. Sem dæmi nefnir Eva tvisvar sinnum í myndinni að hún sé ljóðskáld án þess að heimildarmyndin sýni hana nokkru sinni skrifa eða lesa upp eitthvað af ljóðunum sínum. Áhorfandi veit að hún skrifar ljóð en ekki hvernig ljóð, að hún selur sig því „kerfið ríður þér hvort eð er“ en ekkert meira, að hún er vinsæl á einhverjum miðli en ekki hvaða eða á hvaða forsendum. Áhorfandi fær ekki inn, bara yfirborðið, eitthvað sem nær ekki einu sinni að svala gægjuþörfinni. Yfirborð og hvað öðrum finnst, svo að Evu er sama hvað öðrum finnst? – Hver er þá tilgangurinn með kvikmyndinni? Er Searching Eva að mála mynd af ungmennum samtímans með því að nefna kynhneigð, kynlíf, vændi, klám, eiturlyf, samfélagsmiðla og ímynd einstaklingsins? Vel stíliserað og innihaldssnautt – ef til vill endurspeglar kvikmyndin samtímann fullkomlega.

Vefsvæði Engra stjarna.

Um höfundinn
Eyja Orradóttir

Eyja Orradóttir

Nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands og meðlimur í Engum stjörnum.

[fblike]

Deila