Súper óviðeigandi húmor

Verkið Súper – þar sem kjöt snýst um fólk eftir Jón Gnarr var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 16. mars síðastliðinn. Sögusviðið er kælir í stórmarkaðinum Súper. Þar eru staddir fulltrúar íslensks samfélags: Unga konan sem þráir að eignast barn (Snæfríður Ingvarsdóttir) og kynlífsfíkillinn eiginmaður hennar (Arnmundur Ernst Backman), móðir sem á afmæli og ætlar að halda upp á það með því að detta í það (Vigdís Hrefna Pálsdóttir), aulalegi mömmustrákurinn sem gengur um í fötum af pabba sínum (Hallgrímur Ólafsson), lífsglaði bóndinn Bjössi (Edda Björgvinsdóttir) og Gugga konan hans (Eggert Þorleifsson) og síðast en ekki síst starfsmenn verslunarinnar; pólska konan sem býður fólki að smakka kleinur (Sólveig Arnarsdóttir) og maðurinn í kjötborðinu (Jón Gnarr). Leikstjóri er Benedikt Erlingsson.

Ögrandi alhæfingar

Verkið kemur inn á alkóhólisma, kynlífsfíkn, mansal í Taílandi, veganisma, plastumbúðir, íslenska framleiðslu, samkynhneigð, kynþætti og stöðu kynjanna svo eitthvað sé nefnt. Það gerir það að verkum að farið er um víðan völl í stað þess að fjalla hnitmiðað um færri umfjöllunarefni. Persónurnar láta út úr sér margar staðhæfingar; þær eru þversagnakenndar og ekki alltaf samkvæmar sjálfum sér. Þannig er ein persónan vegan einn mánuð á ári og önnur alkóhólisti sex mánuði á ár. Því er haldið fram að allar íslenskar konur séu á pillunni, að kaþólskir séu ekki kristnir og að aðeins þeir sem fæðast á Íslandi séu Íslendingar. Íslenskar matvörur eru sagðar bestar en svo kemur í ljós að „íslenska“ svínakjötið er innflutt. Það er síendurtekið í verkinu að Ísland sé best: íslenskt kjöt, íslenskt grænmeti, íslensk mannanöfn og íslenskri siðir eins og Þorrablót. Þessar alhæfingar setja persónurnar fram með hálfvélrænum hætti, hægt og skýrt en fremur blæbrigðalaust eins og á hljóðupptöku. Setningarnar eru gjarnan stuttar og einfaldar, samanber grundvallar setningargerð í íslensku: frumlag – sögn – andlag. Með því skapast hugrenningatengsl við kennslubókarefni ætlað útlendingum en efni ætlað þeim á það til að vanmeta hæfni, aldur og þekkingu þeirra. Um leið er líkt og verið sé að tala niður til áhorfenda, allt er margtuggið ofan í þá.

Ég er …

Jón Gnarr leikur sér að klisjum í persónusköpun sinni. Ungu hjónin, sem ekki eru sammála um tilgang kynlífs, eru dúkkuleg í útliti. Þau eru bæði tággrönn, með afar ljóst hár og mikinn kinnalit. Þau minna á Barbie og Ken. Hann er í glansandi silfurlituðum jakkafötum og hún í gyltum leðurfrakka. Mömmustrákurinn er eftirminnilegur vegna afstöðu hans til úlpunnar sinnar. Hann flytur óð til hennar og sýnir öllum myndir og myndbönd af því þegar hann erfði hana frá pabba sínum. Úlpan hefur áhrif á tímatal hans; þannig segir hann til dæmis: „Þetta var auðvitað löngu áður en ég var búinn að fá úlpuna.“ Pólska konan verður fyrir aðkasti. Hún vill tilheyra hópnum en fær sífellt að heyra að hún sé ekki Íslendingur þrátt fyrir að hafa búið á Íslandi í 25 ár. Nafnið hennar Agnieszka er ekki nógu íslenskt en Agnes er það. Nafn sonar hennar Jakub er heldur ekki nógu íslenskt af því að það er skrifað með „u“ en ekki „o“.

Áhugaverðustu persónurnar, bóndinn og kona hans, koma til sögu rétt fyrir hlé. Þau spila stórt hlutverk í atburðarásinni það sem eftir er sýningar. Margendurteknar setningar – eins og „Ég er Einar. Einar er ég.“ – fá nýja merkingu þegar kemur í ljós að  Bjössi var Gugga og Gugga var Bjössi. Hjónin hafa skipt um hlutverk en nú vill Gugga ekki vera Gugga lengur. Valdapýramídi mannkynsins verður skýr á þessum tímapunkti í sýningunni. Þar spilar kynferði, kynþáttur og þjóðerni stóran þátt. Guggu er alveg sama hver hún er. Hún vill „bara vera einhver karl“. Mömmustrákurinn og pólska konan hafa aftur á móti áhuga á að skipta um hlutverk við Guggu. Pólska konan vill gjarnan verða Gugga því þá yrði hún loksins alvöru íslensk kona og myndi upplifa sig hluta af samfélaginu. Gugga vill aftur á móti „frekar vera tveir íslenskir karlar þó annar sé dauður en ein pólsk kona“. Hún skiptir því um nafn og hlutverk við mömmustrákinn.

Hætta á að sýnigin viðhaldi fordómum

Þó verkið komi inn á margt er þjóðernishyggja það þema sem er mest áberandi. Ég geri ráð fyrir að ætlun Þjóðleikhússins með uppsetningu verksins sé að vekja fólk til umhugsunar og uppræta með því fordóma. Ég er þó hrædd um að sýningin viðhaldi þeim mikið frekar. Ég óttast að sýningin muni ekki verða til þess að auka víðsýni og umburðarlyndi leikhúsgesta heldur ýta undir þjóðernishyggju meðal þeirra sem búa yfir henni nú þegar. Þess má geta að sama dag og Súper var frumsýnd stóðu yfir tvenn mótmæli á Austurvelli: samstöðufundur með flóttafólki og „þögul og friðsamleg mótmæli“ Íslensku þjóðfylkingarinnar gegn „ofbeldi sem hælisleitendur sýndu samfélaginu og lögreglunni í vikunni,“ sjá frétt á Visir.is. Það sýnir fram á að sýningin á erindi við íslenskan samtíma þó ekki sé það með þeim hætti sem best væri á kosið. Ögrandi alhæfingunum, sem settar eru fram í Súper, er ætlað að vekja hlátur meðal áhorfenda. Það verður augljóst í gegnum mikla endurtekningu. Húmorinn er aftur á móti óvæginn og á kostnað minnihlutahópa. Er rétt að hlæja að minnihlutahópum og óförum annarra? Að mínu mati er þessi tegund húmors óviðeigandi. Með aukinni vitund fólks í samfélaginu á réttindum minnihlutahópa lærist að brandarar á kostnað annarra eru ekki viðeigandi. Rasistabrandarar og hommabrandarar eru barn síns tíma. Ég get ekki ímyndað mér að margir utan hins íslenska forréttindahóps geti hlegið að bröndurunum sem settir eru fram í sýningunni.

Um höfundinn
Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir er með meistarapróf í ritlist frá Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila