Afhjúpandi gagnrýni á hvít forréttindi

Í Kvikmyndir, Rýni höf. Silja Björk Björnsdóttir

Umfjöllunin inniheldur spilliefni.

Út um gluggann á ríkmannlegu húsi í vesturbæ Reykjavíkur horfir ljóshærð, bláeygð kona á eftir erlendum hjólreiðamanni sem grípur upp ruslapoka fulla af plastflöskum úr görðum nágrannanna. Kona þessi, í allri forréttindablindu sinni, brosir yfir eigin góðmennsku og hjartahlýju. Hún hugsar hversu gefandi það sé að hjálpa þeim sem minna mega sín, sérstaklega svona úr fjarlægð á meðan bæði samviska hennar og hendur haldast hreinar. Hún sötrar ilmandi kaffi sem handtínt var af blásnauðum bónda í Kólumbíu og strýkur vísifingri yfir krumpu á sléttpressaðri silkiskyrtunni sem unnin var í höndum sveltandi móður í Kína. Hún dæsir, enda erfitt að vera svona fullkomlega ómeðvituð um eigið hvíta forskot í lífinu.

Kvikmyndin Tryggð (Ásthildur Kjartansdóttir, 2019), sem byggð er á skáldsögunni Tryggðarpantur (Auður Jónsdóttir, 2006), er saga þessarar konu, Gísellu Dal (Elma Lísa Gunnarsdóttir). Gíesella er myndarleg kona á miðjum aldri sem erft hefur hvítmálað einbýlishús ömmu sinnar og sér fyrir sér og áfengishneigð sinni með blaðamennsku. Í ákveðinni örvæntingu og framapotstilraun býður hún tveimur konum af erlendum uppruna og dóttur annarrar þeirra að flytja inn til sín og þó sambúðin gangi vel í fyrstu verða af henni óafturkræfar afleiðingar.

Gísella er þráðbein táknmynd íslensku smásálarinnar og húsið hennar reisulega, drekkhlaðið íslenskri list og menningararfi, er táknmynd okkar ástkæru, ylhýru móðurjarðar. Gísella er haldin sígildri hvítri sálarflækju góðmennsku og björgunar, nokkuð sem upp á ensku kallast „white savior complex“, enda innsaumað í vitund vesturlandabúa að litað fólk sé upp til hópa brotið og hjálparvana.

Elma Lísa Gunnarsdóttir, Enid Mbabazi og Raffaella Brizuela Sigurðardóttir í hlutverkum sínum í Tryggð.

Saga Gísellu, eins óviðfelldin og hún er, minnir okkur óþægilega mikið á (eigin) hentisemi þegar kemur að samskiptum við innflytjendur og flóttafólk. Það að Gísella sé dæmigerði íslenski góðborgarinn er undirstrikað þegar greina má meðal húsmuna hennar tignarlega styttu af hvítum fálka sem virðist óneitanlega vera úr smiðju Guðmundar frá Miðdal. Þessum og öðrum séríslenskum munum er sópað til hliðar þegar dyrnar eru opnaðar fyrir erlendu konunum, rétt eins og margir Íslendingar verja sín „séríslensku” þjóðareinkenni með kjafti og klóm, þegar blæjuklædd kona gengur fram hjá.

Gísella, rétt eins og íslenska þjóðin, er einstaklega sérhlífin og lýgur því að sér að hún sé að gera góðverk með því að opna heimili sitt fyrir erlendum konum. Forréttindablinda hennar er svo yfirgengileg að hún skýlir Gísellu frá því að sjá hvað raunverulega býr að baki. Gjörðir hennar eru fjarri því óeigingjarnar, því rétt eins og Íslendingar flytja inn erlent vinnuafl í stórum stíl, notfærir Gísella sér Abebu (Enid Mbabazi) og Marisol (Raffaella Brizuela Sigurðardóttir), erlendu konurnar tvær, í framapoti sínu.

Engin raunveruleg vináttutengsl myndast milli kvennanna þriggja því hvíta yfirvaldið sér til þess að ákveðinni fjarlægð sé ávallt viðhaldið. Samband Gísellu við Lunu (Claire Harpa Kristinsdóttir), dóttur Abebu, þróast út í brenglaða táknmynd sjálfboðaferðamannaiðnaðarins,  hvers hvítar konur ferðast til fjarlægra landa undir yfirskini góðgerðarmála en nokkurra vikna dvöl þeirra virðist ekki svala neinni þörf annarri en sjálfselskunni því starfið reynist fyrst og fremst felast í því að skella myndum af sér á samfélagsmiðla faðmandi lituð börn.

Meðan samskiptin eru á forsendum Gísellu og hennar geðþótta leikur allt í lyndi. Þegar konurnar fara að færa sig upp á skaftið, með „furðulegum“ siðum og háttalagi, kárnar hins vegar gamanið. Þessum hvítþvegnu geðþóttaforsendum Gísellu fyrir hagsælli sambúð svipar til tilhneigingar okkar Íslendinga að setja innflytjendum og flóttafólki óraunhæfar kröfur varðandi það að samlaga sig íslensku þjóðfélagi á svipstundu, þó við myndum aldrei gera slíkar kröfur til Íslendinga sem sjálfir flytja erlendis.

Ásthildur Kjartansdóttir leikstjóri og Elma Lísa Gunnarsdóttir leikkona við tökur á Tryggð.

Gísella verður styggur einræðisherra síns „lands“ og þrátt fyrir að frásögnin snerti stuttlega á eilítið aumkunarverðri baksögu hennar – sambandi hennar við giftan mann, skuldafeni, nauðungarsölu og barnsmissi – er ómögulegt að hafa samúð með henni. Hlutskipti hennar í lífinu nær engan veginn að réttlæta yfirgang hennar, framkomu og hnýsni inn í líf erlendu kvennanna. Abeba og Marisol verða fangar í nýju landi og aðstæðum á meðan ómótstæðilegur æskuljómi Lunu bjargar henni, og öðrum lituðum börnum, undan innbyggðum fordómum hvíta mannsins í garð litaðra þjóða.

Þegar allt sýður loks upp úr og Gísella, fullkomlega óviðkunnanleg í fordómum sínum og yfirgangi, lætur Útlendingastofnun um að koma konunum burt úr landi sínu, fellur allt í sama horf. Gísella situr í fílabeinsturni sínum, með slegið hárið í silkiskyrtu saumaðri af blásnauðri konu í Asíu, drekkur ljúffengt kaffið handtínt af fátækri kólumbískri bóndakonu og stillir hvítu fálkastyttunni hans Guðmundar frá Miðdal aftur upp í gluggann, svo augljóst verður hver ræður hér.

Í garðinum er stærðarinnar hrúga flöskupokum. Pólski hjólreiðamaðurinn þýtur fram hjá, því ölmusa er ekki alltaf vel þegin, sérstaklega þegar henni er deilt út eftir geðþótta hvíta mannsins.

Vefsvæði Engra stjarna.

Um höfundinn
Silja Björk Björnsdóttir

Silja Björk Björnsdóttir

Silja Björk Björnsdóttir er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands og meðlimur í Engum stjörnum.

[fblike]

Deila