PÁR Í TÍU ÁR: Dagana 15.-20. október halda nemendur í ritlist við Háskóla Íslands, fyrrverandi og núverandi, upp á það með ýmsu móti að tíu ár eru liðin frá því að ritlist varð að fullgildri námsgrein. Af því tilefni mun Hugrás birta daglega nýtt efni eftir höfunda sem stunda eða hafa stundað nám í ritlist við HÍ. Hér er einkum um að ræða brot úr væntanlegum eða nýútkomnum bókum. Hér má sjá sýnishorn úr ljóðabókinni Undrarýmið eftir Sigurlín Bjarneyju sem er væntanleg hjá Máli og menningu vorið 2019.

Nasasjón

Það er hrævarlogn í lofti, skruggur og reiðiþrumur að baki en samt þetta holótta, kalda logn. Vökvinn streymir úr mér eins og foss. Dettifoss úr klofinu, dunandi Dettifoss. Ég ráfa út á tún, lít yfir sveitirnar og sýnist loftleg himinvera streyma til mín af sjávarhafi. En hún leystist upp áður en ég greini ásjónu hennar, gufar upp og hverfur. Eftir situr hrollheitur undrunarskjálfti. Ég signi mig.

Það rigndi viðstöðulaust í alla nótt, með skruggum og þrumum, og nú er grasið ilmandi grænt og rakt en á sama tíma undarlegt hrævarlogn í lofti. Sjálf er ég líkt og uppþornað hey og ég finn hvernig ég veslast upp og þrái ekkert annað en yfirdöggvun, vatn sem streymir fram hjá fossinum og inn í mig, staldrar við og skolar dimmyrðin úr huga mér. Ég er þurrt og stökkt strá, föst í þessu viðsjárverða logni.

Mig þyrstir
færið mér vatn
heilnæmt og blessað

færið mér líka
rok

Mannhelgikvæði

Frá og með deginum í dag
er mannhelgin færð
úr hafmílum í hugmílur

Mannhelgisgæslan stendur vörð
(og hjálparsveit skálda er þeim innan handar)
með stöðugri vöktun
sveigjanlegu aðhaldi
með breiðan og opinn faðm
hlýjuhlýjuhlýju

Stærð efnahugslögsögunnar er
500 hugmílur
sem jafngildir 50 þingmannaleiðum
og samsvarar bilinu
frá miðju jarðar
til miðju tunglsins

Allt þar fyrir utan er úthaf
en einnig þar má finna mannhelgi
og vaxtarhormón

heilt ómælisdjúp af
hlýjuhlýjuhlýju

 

Nasasjón: Taité des Sens. Claude Nicholas Le Cat (1700-1768)
Mannhelgikvæði: Nouvelles démonstrations d‘accouchemens. Jacques Pierre Maygrier (1771-1835)
Myndir frá Hagströmer bókasafninu í Stokkhólmi birtar með góðfúslegu leyfi https://hagstromerlibrary.ki.se/wunderkammer

 

Sigurlín Bjarney Gísladóttir útskrifaðist með MA-próf í ritlist árið 2014. Sem höfundur hefur hún lagt megináherslu á ljóðagerð en einnig sent frá sér sögur. Meðal bóka hennar eru Fjallvegir í Reykjavík, Tungusól og nokkrir dagar í maí og Svuntustrengur: örsögur og smásögur.

Um höfundinn
Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir útskrifaðist með MA-próf í ritlist árið 2014.

[fblike]

Deila