Sjálfsmyndir danskrar dreifbýlisstúlku

Hjá útgáfufyrirtækinu Sagarana kom nýverið út þýðing Katrínar Bjarkar Kristinsdóttur á skáldsögu danska rithöfundarins Jósefínu Klougart (f. 1985), Hæðir og lægðir (Stigninger og fald, 2010). Um fyrstu skáldsögu Klougart er að ræða og fyrir hana var hún tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, rétt eins og fyrir þriðju skáldsögu sína Ein okkar sefur (Én af os sover, 2012).[1] Allar fimm skáldsögur Klougart til þessa hafa vakið verðskuldaða athygli og er hún “talin vera einn af áhrifamestu höfundum Evrópu um þessar mundir” eins og segir á bókarkápu.[2] Auk ritstarfa tekur Klougart virkan þátt í menningar- og listalífi Danmörku og rekur, ásamt fleirum, útgáfufyrirtækið Forlaget Gladiator. Á þeim vettvangi gaf hún – í samvinnu við Ólaf Elíason – t.d. út bókina Your Glacial Expectations, árið 2016.

Uppbrotinn texti Klougart virðist í fljótu bragði eiga fátt sameiginlegt með hefðbundnum skilningi okkar á skáldsögunni því um röð ljóðrænna svipmynda úr hversdagslífi ungrar stúlku sem elst upp í dönsku dreifbýli er að ræða. Aldur hennar er ekki tilgreindur en með tilvísunum í skólagöngu, líkamsburði og spegilmyndir skilur lesandinn að um unglingsstúlku að ræða, stúlku sem eignaðist hest haustið sem frásögnin hefst (bls. 5) og sem heyrir foreldra sína tala um að gefa sér „einhverjar töflur svo ég haldi ekki áfram að vaxa svona“ (bls. 107).

Það lekur af höndum mínum ofan í grasið og þær verða skyndilega alltof stórar; og ég er hrífa upp að vegg í síðdegissólinni, ég er klúður, stuttermaskyrtan mín hnökrar, fellur skökk yfir aðra öxlina, það eru alltaf sorgarrendur undir nöglunum mínum, það er alltaf hár, tannkremsblettur, marmelaðiblettur, næstum skolaður úr en ekki alveg. Alltaf er […] eitthvað óskiljanlega klaufalegt við það hvernig reimarnar mínar eru bundnar, hvernig ég stækka, er drusluleg, handleggir mínir eru of langir, augnhárin of ljós til að ramma eitthvað inn, ég er hlújárn sem er of breitt til að fara á milli raðanna í matjurtagarðinum, ég erfiða alltaf tvöfalt; áköf í vinnunni, full óróa sem verður minn (bls. 75).

Sögumaður elst upp með geðsjúkri móður, sem „róast aldrei“ (bls. 7), tveimur systrum – yngri og eldri – og föður sínum, sem „bakar kringlótt brauð“ (bls. 10) og er eins og „ofkeyrður nautgripur“ (bls. 11). Til sögunnar koma nágrannar, kennarar og ekki hvað síst móðuramman frá Herning, sem „talar endalaust um lyng, […] bætir í eldinn, opnar rifu á glugga og þurrkar sér með vasaklúti um ennið“ (bls. 8). Fjölskyldan býr á stað þaðan sem mögulegt er að ganga upp að Stabelhøjen, bak við prestssetrið og kirkjuna, og horfa yfir „Ebeltoft, Helgenæs og Skødshoved“ (bls. 7). Norrænt velferðarsamfélag gerir fjölskyldunni mögulegt að eiga fátt undir sér en lifa – að því er virðist – góðu lífi. Húsið, heimilið, sveitin, kynslóðirnar, samfélagshóparnir og húsdýrin mætast á mælistiku stúlkunnar sem mótar sjálfsmynd sína með því að vega og meta eigið ágæti í samanburði við þá sem í kringum hana eru. Hún speglar sig í fólkinu sem í kringum hana er og hversdagslegum viðburðum sem á daga hennar drífa. Í lífi hennar ríkir einhverskonar kyrrð þótt tilfinnalegt umrót sé viðvarandi.

Áhrif þess að móðirin ræður sér ekki, að umhverfið krefst tiltekinnar hegðunar og framkomu þegnanna mótar tilvist aðalpersónunnar. Á vetrum dregur móðirin fæturnar eins og „hrífa á hafsbotninum upp tröppurnar“ (bls. 14) og „er svo reið“ að „ég fer að brölta um hugsanirnar, efast jafnvel um smámuni“ (bls. 31). Á sumrin hins vegar „verður mamma næstum karlmaður. Hún tekur stigann út og hendur hennar hafa krafta til að hífa blautan retriever-hund upp úr vatninu“ (bls. 104).

Texti Klougart ber frásagnarfærni hennar vitni því þar gerist fátt sérstakt. Hversdagslíf unglingsstúlku umvefur hún gæsku og glæðir lífi, og hver dagur er sveipaður spegilmyndum sem skipta máli. Hér er hvorki að finna misnotkun, ofbeldi eða ofneyslu, heldur er það hlýja og velvild höfundar í garð aðalpersónu skáldsögunnar sem fangar athygli lesandans sem lætur leiða sig um heimahaga stúlkunnar. Í takt við hugmyndir fræðimanna eins og Manuels Montobbio um að sjálfsmynd felist í því að vega og meta umhverfi sitt og velja það sem hverjum og einum finnst passa sér best og henta, eiga hér við.[3] Sögumaður myndar einskonar kjarna eða miðju verksins, og vegur og metur umhverfi sitt. Hugmyndir, viðhorf, skoðanir, líkamsbeiting, málfar, framkoma, hegðun, viðbrögð annarra verða að rannsóknarefni. Hún mátar sig við hvern og einn.  Með skáldsögu sinni staðfestir Klougart orð Montobbios um að:

Að eiga sér sjálfmynd er grundvallar þörf hvers einstaklings. Í henni felst þörfin fyrir það að tilheyra, fyrir að samsama sér samfélagi og geta verið fulltrúi heildar, „okkar“, sem nær lengra en eigið sjálf […]. Sjálfmynd hvers og eins er sérstök; „that what makes me not identical to any other person“,  með orðum Amin Maalouf (bls. 131).[4]

Þungamiðja skáldsögunnar Hæðir og lægðir (Stigninger og fald, 2010) hverfist þannig – á áberandi og ákallandi hátt – um það að sjálfsmynd er ekki tilviljunarkennd, hún er búin til, hún er breytileg og „hún getur breyst“, með orðum Montobbio (bls. 132).Vandinn sem sögupersóna höfundar stendur frammi fyrir veitir þannig sérstaka innsýn í einkalíf norrænnar unglingsstúlku við upphaf 21. aldar og kynnir fyrir lesendum kvenlegan hugarheim í mótun.

[1] Til frekari upplýsinga sjá: https://www.worldliteraturetoday.org/2016/november/one-us-sleeping-josefine-klougart. Sótt í september 2018. Sjá einnig textabrot í enskri þýðingu á: https://www.asymptotejournal.com/special-feature/josefine-klougart-one-of-us-is-sleeping/. Sótt í september 2018.

[2] Sjá spjall Gísla Magnússonar, dósents í dönsku við Háskóla Íslands, við Jósefínu Klougart í Norræna húsinu 5. september 2018: http://nordichouse.is/da/event/forfatteraften-med-josefine-klougart/ Sótt í október 2018.

[3] Antonio Montobbio. “Sobre la identidad de la identidad en la era de la globalización”. Revista de Occidente, Madrid, 2010, bls. 130-159.

[4] Þýðing höfundar úr spænsku.

Um höfundinn
Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir er prófessor í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún lagt áherslu á bókmenntir Rómönsku Ameríku og um þessar mundir vinnur hún að nýrri bók um málefni minnihlutahópa við Karíbahafsströnd Mið-­Ameríkuríkja. Sjá nánar

[fblike]

Deila