Hættan er að svartholið gleypi mann

Útey – 22. júlí (2018, Erik Poppe) er mynd sem erfitt getur verið að gagnrýna. Annars vegar getur slíkri gagnrýni verið tekið sem aðfinnslu á viðburðina sjálfa eða persónurnar sem urðu fyrir árásinni. Hins vegar, ef gagnrýnin er jákvæð, getur rýnirinn átt von á því að vera lastaður fyrir að upphefja kvikmynd sem búin er til um jafn voveiflega atburði og raun ber vitni, svo stuttu eftir að þeir gerðust.

Þegar kemur að umfjöllun um skotárásir hafa sálfræðingar í sífellu – fyrir daufum eyrum æsifréttamennskunar – ítrekað eftirfarandi tilmæli: Ekki gera of mikið úr skotmanninum, ekki halda fréttaflutningum uppi í marga sólarhringa og ekki reyna að útskýra gjörðir byssumannsins með innsýn hans og skrifum. Ráðleggingarnar eru til þess gerðar að koma í veg fyrir upphafningu og eftirhermur. Útey – 22. júlí fylgir þeim eftir eins vel og hún getur en gerandinn er aldrei nefndur á nafn og sést aðeins tvisvar sinnum í ramma í mikilli fjarmynd. Í stað þess að fylgja geðsjúklingnum eftir og gera þar með persónu hans einhver skil, er áherslan öll lögð á fórnarlömbin. Saga þeirra, upplifun og viðbrögð eru fönguð í langri ósýnilega klipptri töku sem varir alla myndina og viðheldur áhorfendum í taugaveiklun þar sem klippingar gefa þeim ekki kost á að komast undan. Slík aðgerð er á vissan hátt þrekvirki og myndatökumaðurinn, Martin Otterbeck, þarf að hafa sig allan við þegar aðalpersónan, Kaja (Andrea Berntzen), hleypur þvers og kruss í leit að systur sinni á meðan lík félaga hennar liggja sem hráviðri á jörðinni og byssumaðurinn aldrei langt undan seilingar. Þessi tökustíll ljær myndinni ákveðið raunveruleikagildi sem gæti þó ekki gengið upp ef Berntzen væri ekki svona sannfærandi eða ef Poppe væri ekki einn besti leikstjóri Norðurlanda.

Þó er myndin ekki gallalaus. Poppe er þræll frásagnarlögmála, svo sú ætlun myndarinnar að vera heimild um það sem gerðist fellur stundum í skuggann á söguþræðinum og innbyggðri þörf hans fyrir söguhetjur. Í byrjun fylgjast áhorfendur með krökkunum sem eru í útilegu á eyjunni og ef ekki væri fyrir meðvitund áhorfenda um það sem er í vændum er óvíst að þessi kafli þætti mjög áhugaverður. Byssuskotin taka svo að óma þegar annar þáttur myndarinnar byrjar og þar með hefst meginfrásögn myndarinnar – sjálf árásin – sem auðvitað felur í sér á réttum stað það sem í handritsskrifum gengur undir nafninu „lægsti punkurinn“. Einnig sjáum við Kaju ávarpa myndavélina í byrjun um að „við“ verðum að trúa henni en svo sjáum við að hún er einfaldlega að tala í handfrjálsan búnað við móður sína. Þessi inngrip miðilsins draga þannig úr meginmarkmiði myndarinnar, að gera áhorfendum ljóst hvaða afleiðingar tilgangslaus illska hefur í för með sér og að hvert fórnarlamb sé ekki tala á blaði heldur manneskja.

Árið 1993 kom myndin Philadelphia (1993, Jonathan Demme) út en hún var fyrsta Hollywoodmyndin til að fjalla um alnæmisfaraldurinn. Alnæmisveiran hafði þá verið uppgötvuð tólf árum fyrr og á þessum tólf árum hafði hún dregið 234.255 Bandaríkjamenn til dauða og í dag hafa um 35 milljónir manna dáið úr sjúkdómnum á heimsvísu. Enginn myndi segja að myndin hefði komið út of snemma þó svo að umfjöllunarefni hennar hefði dregið þetta marga til dauða og eflaust hafa margir sagt að myndin hefði mátt vera gerð fyrr. Það er því forvitnilegt að sjá umræðu spretta upp varðandi siðferðislegt vægi þess að gera kvikmynd eins og Útey – 22. júlí nokkrum árum eftir atburðinn sjálfan. Kannski er það byssan, hún er vanalega dýrkuð í spennumyndum sem setur myndina óumflýjanlega í annað samhengi. Það er einnig siðferðislegt álitamál að borga sig inn á mynd sem sýnir gegndarlaust ofbeldi gegn ungmennum. Leikstjórar ættu þó aldrei að forðast að gera umdeildar myndir en þær ættu ávallt að vera dæmdar út frá samhengi þeirra og í þessu tilviki virðist Erik Poppe vera réttur maður í verkið.

Hvort sem fólki líkar betur eða verr þá er Útey – 22. júlí til og hún færir umræðuna til þeirra sem í alvöru skipta máli, fórnarlambanna, og bannfærir öfgaöflin sem urðu þeim að bana. Nýnasistar hafa jú setið sveittir og hárlausir fyrir framan skrifborð á tækniöld og reynt að afsanna sjálfa helförina því þeir vita vel að hún stendur í vegi fyrir því að þeir komist til valda og ef afþreyingariðnaðurinn er ekki duglegur að minna fólk á afleiðingar nýnasismans verður þetta glötuð orrusta til lengri tíma litið. Á sama tíma er öll ígrundun á því af hverju byssumaðurinn gerði það sem hann gerði, hvernig hann hugsaði og hvernig æska hans var eins og að nálgast svarthol, þú annaðhvort ferð inn í aðra vídd skilnings sem er vitagagnslaus í daglegu lífi eða svartholið gleypir þig. Útey – 22. júlí minnir mann á hvað skiptir máli og að bíóferð lokinni sest maður við rúmstokk barnsins síns og þakkar fyrir tilvist þess, því í óræðinni framtíð verður hvert andartak verðmætara.

Heimasvæði Engra stjarna er hér.

Um höfundinn
Vilhjálmur Ólafsson

Vilhjálmur Ólafsson

Vilhjálmur Ólafsson er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila