Rammpólitískt sjónarspil

Nýtt íslenskt verk, Svartlyng eftir Guðmund Brynjólfsson, var frumsýnt í Tjarnarbíói föstudaginn 21. september. Það er leikhópurinn GRAL sem stendur að sýningunni í leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar. Titill verksins er margslunginn. Í verkinu er Svartlyng ættarnafn Hermanns ráðherra og því nafn sem stendur fyrir vald og klíkuskap. Verkið er kaldhæðinn og svartur gamanleikur og því ekki úr vegi að ætla að orðið „svart“ í titlinum sé ætlað að varpa ljósi á það. Liturinn vísar um leið í leyndarhyggju Svartlyng-ættarinnar. Hvað er svo íslenskara en lyng, þessi lágvaxni kræklótti heiðagróður? Verkið er rammpólitískt og fer ekki leynt með skírskotanir í íslenskan samtíma.

Ráðherrann Hermann Svartlyng (Sveinn Ólafur Gunnarsson) reynir með aðstoð ráðstýrunnar Elsu (Sólveig Guðmundsdóttir) og starfsmanni ráðuneytisins Valla (Benedikt Karl Gröndal) að halda velli í samfélagi þar sem ekkert má lengur. Einhentur gluggaþvottamaður (Þór Tulinius) er ráðinn til að sýna fram á að ráðuneytið hafi ekkert að fela, allt sé gagnsætt. En leyndarhyggjan er enn til staðar og ónefnd blaðakona (Valgerður Rúnarsdóttir) er ötul við að spyrja ráðamenn spjörunum úr. Stúlka (Ragnheiður Eyja Ólafsdóttir) kemur svo inn sem tákn fyrir hinn óspillta almenning og framtíðina.

Ótal vísanir

Verkið kemur inn á ófátt sem hefur verið í umræðunni á síðustu árum. Ólíkt Guð blessi Ísland, sem sýnt var í Borgarleikhúsinu á síðasta leikári og byggði á rannsóknarskýrslu Alþingis vegna Hrunsins, er Svartlyng með víðari pólitíska skírskotun. Svo dæmi sé tekið er minnst á endurvinnslutunnur, hælisleitendur, stöðu öryrkja, drykkjuvandamál, tilhneigingu Íslendinga til að tala ensku (jafnvel þó viðmælandinn skilji hana ekki), HÚ-víkingaklappið, Rio Tinto og 100 ára fullveldi Íslands.

Ekki fer á milli mála að innblástur að persónu ráðherrans er sóttur í Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Hermann segist hafa verið að baka, heldur með Stjörnunni og lofar skattalækkunum, líkt og Bjarni Ben. Þá er nokkuð um bláa lýsingu á sviðinu sem minnir á Sjálfstæðisflokkinn. Hermann á að hafa unnið í fjölmiðlum áður en hann fór út í pólitík, líkt og Sigmundur Davíð. Vísað er í Panamaskjölin, Wintris-málið og fjölskyldurekstur N1 en Svartlyng-ættin rekur nokkur fyrirtæki sem öll enda á -bendill og eru til húsa í Ármúla, Síðumúla og Hallarmúla. Auk þess má sjá vísun í ráðningu Ólafar Nordal sem innanríkisráðherra og Eddu Sifjar Pálsdóttur sem íþróttafréttakonu á RÚV. Þá er komið inn á Metoo-byltinguna og Höfum hátt. Það er áhugavert í ljósi þeirrar persónulegu tengingar sem Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri, hefur við byltinguna. Hann barðist ásamt dóttur sinni, Nínu Rún Bergsdóttur, og fleirum fyrir því að gögn um uppreista æru Roberts Downey yrðu gerð opinber.

Vísanir er einnig að finna í bókmenntasöguna. Valli, sem heitir fullu nafni Valgeir (nafn sem hefur tengingu við vopn og víg) verður einhentur, sem minnir á Tý, hinn einhenta guð hernaðar, sem missti höndina í kjaft Fernisúlfsins. Valli missir höndina því hann hafði lofað  að gefa flokknum hana, það er gera allt fyrir flokkinn. Guðmundur Brynjólfsson, höfundur verksins, tekur með því myndhverfingu og túlkar hana bókstaflega líkt og Svava Jakobsdóttir í smásögunni Gefið hvort öðru. Sú saga einkennist af gróteksu töfraraunsæi þar sem Svava leikur sér að orðatiltækinu „að gefa hönd sína“ sem er frosin myndhverfing.

Grínið í Svartlyng er óvægið en fær áhorfendur oft til að skella upp úr. Skopinu í verkinu er gjarnan beint að þeirri tilhneigingu stjórnmálamanna að svara spurningum fjölmiðla með spurningum, loðnum svörum eða einhverju sem alls ekki var verið að spyrja um. Kaldhæðnislega lýkur blaðamannafundunum svo ætíð á setningum á borð við: „Ég vona að þið farið fróðari af fundinum“ og „Ég þakka málefnalegan fund“. Það eru þó ekki síst leikræn tilþrif og dansatriði sem ýta undir kómíkina.

Mikið sjónarspil

Leikræn frammistaða leikhópsins er stórgóð. Mikið mæðir á þeim Sólveigu Guðmundsdóttur og Sveini Ólafi Gunnarssyni. Þau eru mest inni á sviðinu. Sólveig fer á kostum í þeim senum þar sem hún er ein. Meðferð hennar og leynd yfir verkefnalistanum er eftirminnileg. Það sama á við um tjáningu hennar við undirleik þemalagsins úr Bleika pardusinum. Þar tekur hún meðal annars flott kabarett-dansspor. Í raun kemur dansinn í sýningunni almennt á óvart. Dansatriði eru mörg og fjölbreytt. Stiginn er trylltur dans við teknó tónlist, leikinn er fyndinn hópdans við suðrænt sveiflulag og auk þess er tekin ein slow-motion sena. Auk þess syngur Þór brot úr laginu Buona Sera með Dean Martin. Bergur Þór Ingólfsson og Valgerður Rúnarsdóttir eiga hrós skilið fyrir hljóðmynd og sviðshreyfingar.

Leikmyndin (Eva Vala Guðjónsdóttir) er mínímalísk og snjöll. Í upphafi sýningar eru fimm gagnsæir stólar, þar af aðeins einn með örmum, aftast á sviðinu. Það er auðvitað stóll Hermanns ráðherra. Framar á sviðinu eru tveir gagnsæir klefar sem eru nýttir vel. Gluggaþvottamaðurinn þrífur glerið líkt og um rúður væri að ræða. Ráðamenn fara inn í klefann til að pískra, líkt og þeir hafi lokað sig inni í lítilli kytru eða séu staddir í lyftu. Þá þjónar glerið einnig hlutverki spegils þegar Elsa ráðstýra þarf að setja á sig varalit. Þrengslin skapa fyndnar aðstæður. Þegar líður á sýninguna má sjá varalit, óhreinindi og móðu á glerinu. Inni í klefanum er hljóðnemi og því kemur skemmtileg áferð á hljóðið þegar leikararnir eru staddir þar inni.

Auk klefanna og stólanna er ekkert á sviðinu nema klósettrúllur. Og það er nóg af þeim. Opnunarsenan er flott en þar velta rúllurnar inn á og flækjast saman. Undir hljómar píanótónlist sem minnir á undirspil við þögla mynd í bíó. Klósettpappírinn er skýrt tákn fyrir þann djúpa skít sem ráðuneytið hefur komið sér í. Starfsmenn ráðuneytisins koma inn á sviðið með buxurnar á hælunum. Þeir þurfa að reyna að bjarga því sem bjargað verður og þrífa upp skítinn. Klósettrúllurnar taka einnig á sig mynd bókar, síma, vínglass og verkefnalista.

Búningarnir eru látlausir og viðeigandi. Hermann Svartlyng er í svörtum jakkafötum. Elsa ráðstýra er í svörtum kjól og hvítum jakka fyrir hlé, köflóttum eftir hlé. Valli er í gráum jakkafötum og svörtum rúllukragabol, blaðakonan í sparibuxum og blússu og  gluggaþvottamaðurinn í flíspeysu yfir hversdagslega skyrtu. Stúlkan er sú eina sem er í áberandi lit. Hún er í bleikum jakka.

Uppsetning leikhópsins GRAL á Svartlyng er stórskemmtileg. Sviðsmyndin, leikræn frammistaða, sviðshreyfingar, ljós og hljóð er allt til fyrirmyndar. Það eru aftur á móti nokkrir lausir endar í söguþræðinum. Af hverju var Elsa allt í einu rekin úr starfi vegna #metoo? Hvað kom fyrir Grím, manninn hennar? Hvaða hlutverki gegnir hann í sögunni? Af hverju var Elsa svona upptekin af úrinu sem hún hafði fengið frá Rio Tinto og gefið Grími? Að mínu mati er handritið veikasti hlekkurinn. En verkið er hressileg ádeila og sýningin í heild er hlaðin vísunum, táknum og tilefnum til að hlæja dátt.

Um höfundinn
Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir er með meistarapróf í ritlist frá Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila