Atlaga að fjórða veggnum

Deadpool (2016, Tim Miller) hafði verið eins konar ástríðuverkefni handritshöfundarins David S. Goyer og leikarans Ryan Reynolds áður en sá síðarnefndi var ráðinn í hlutverk persónunnar í hinni auðgleymanlegu X-Men Origins: Wolverine(2009, Gavin Hood). Deadpool þótti hins vegar einstaklega illa túlkaður í upprunasögu Jarfa (Wolverine) og var myndinni sjálfri auk þess afar illa tekið. Þegar prufutökur með Reynolds í hlutverkinu frá árinu 2004 láku á netið í júlí 2014 skapaðist svo gríðarleg pressa á kvikmyndaverið Fox sem varð til þess að loks var ráðist í framleiðslu á þeirri mynd sem Reynolds og Goyer lögðu upprunalega af stað með.

Óþarft er að hafa mörg orð um velgengni myndarinnar sem búin var til í kjölfarið en nú, einungis tveimur árum síðar, er framhaldið, Deadpool 2, komið í leikstjórn David Leitch og er hvergi gefið eftir. Þvert á móti er gefið í; húmorinn og ofbeldið er grófara, fjórði veggurinn er svo gott sem aukaatriði en hann er rofinn það oft að myndin er í raun einhliða samtal Deadpool við áhorfendur. Meiriháttar skúrkur ógnar honum, fleiri ofurhetjur mæta til leiks og líka Peter.

Þótt kvikmyndaheimur Marvels (Marvel Cinematic Universe, eða MCU eins og hann er oftast kallaður) taki vissulega mið af upprunalegu myndasögunum eru þær þó ekki sniðmát kvikmyndanna. Með öðrum orðum er misræmið milli myndasagnanna og kvikmyndanna af ásettu ráði og því er samanburður til lítils. Deadpool kvikmyndirnar eru ofurmeðvitaðar um þetta sem og misræmið innan kvikmyndaheims Marvels, sem orsakast að hluta til af því að höfundaréttur hinna ýmsustu sköpunarverka er dreift milli ólíkra fyrirtækja, og er markvisst gert grín að því, meðal annars með áðurnefndu fjórðaveggsbramli og með tilvísunum í bæði myndina sjálfa og aðrar Marvel kvikmyndir – einmitt sem kvikmyndir en ekki raunverulegan söguheim.

Reynolds gerir óspart grín að sjálfum sér og er kvikmyndaformið sjálft skotspónn háðsglósna, líkt og þegar hann bókstaflega kynnir væntanlega tölvugrafík við upphaf slagsmála milli tölvugerðra persóna í senu stútfullri af tæknibrellum. Sama sjálfsmeðvitund er notuð til  að „hreinsa tímalínuna“ í lokin þar sem mörkin milli kvikmyndarinnar, kvikmyndaheims Marvels og kvikmyndaiðnaðarins í heild sinni eru stórkostlega brengluð.

Þetta stöðuga niðurbrot fjórða veggjarins er aðaleinkenni Deadpool (sem vantaði í upprunasögu Jarfa) og vegna þess – ásamt sjálfsskoðunar, sjálfsvísunar og afbökunnar söguheims Marvel – standa þessar tvær myndir sér á báti utan kvikmyndaheims framleiðslufyrirtækisins. Það er, áhrifa annarra Marvel-mynda gætir ekki í þeim, eftirköst fingrasmells Thanosar í lok Avengers: Infinity War gera t.d. ekki vart við sig hér . Það þýðir þó ekki að allar hinar ofurhetjurnar séu ekki til, því þær eru vissulega til en tilvist þeirra er „hentuglega“ komið fyrir utan ramma á dæmigerðan Deadpool-máta; með gráglettnislegum athugasemdum um fjarveru mikilfenglegustu hetja samtímans.

Deadpool 2 er mun stærri og dýrari en fyrri myndin en það er einmitt vegna velgengni hennar að aðstandendur fengu nú frjálsari hendur í framleiðsluferlinu. Að því sögðu er hún á mörkum þess að fara yfir mörkin í leik sínum sem hér hefur verið lýst og mun enn lengri Blu-Ray útgáfa – sem er í bígerð – án efa þenja þolmörkin frekar. Hvað sem því líður gefur hér á að líta kærkomna tilbreytingu við íþyngjandi Marvel-myndir undanfarinna ára en ekki er loku fyrir það skotið að Deadpool muni birtast í þeim í einhverju formi upp úr miðjum næsta áratug verði af fyrirhuguðum kaupum Disney á Fox.

Um höfundinn
Sigurður Arnar Guðmundsson

Sigurður Arnar Guðmundsson

Facebook

Sigurður er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila