Alltaf með þrjú pör af augnhárum

Vinsældir drags á Íslandi hafa aukist talsvert seinustu ár og með tilkomu fjöllistahópsins Drag-Súgs hafa dragsýningar orðið reglulegir viðburðir í höfuðborginni og víðar. Ört stækkandi hópur fylgist með raunveruleikaþáttunum RuPaul‘s Drag Race og áhugi á dragi er síður en svo bundinn við ákveðna menningarkima. Ein þeirra sem áberandi eru í senunni hérlendis og leggja mikið af mörkum við að breiða út drag-boðskapinn er hin 24 ára Kristrún Hrafnsdóttir. Hún er dragdrottning og kemur fram undir nafninu Jenny Purr. Einnig situr hún í stjórn Drag-Súgs og leggur upp í ferðalag til Los Angeles í maí næstkomandi, þar sem hún mun ásamt drottningunum Gógó Starr og Deff Starr kynna íslenskt drag og hinsegin menningu á ráðstefnunni RuPaul‘s Drag Con.

„Þau mega ekki sjá mig svitna!“

Kristrún er ein fárra bio-drottninga á Íslandi. Hugtakið bio-drottning er íslenskun á enska orðinu bio-queen og er notað um sískynja* konur sem eru dragdrottningar. Algengast er að karlmenn séu dragdrottningar og konur séu dragkóngar, þess vegna mæta bio-drottningar oft fordómum og mótlæti þrátt fyrir að í raun geti hver sem er verið dragdrottning eða kóngur, óháð kyni viðkomandi. „Þetta er að koma sterkara inn,“ segir Kristrún. „Hjólin eru að snúast, kvenmenn mega vera ofur-kvenmenn og drag er ekki bara fyrir karla. Við erum alveg jafngildar. Það er mótsögn í því að konur lendi undir í listgrein sem vinnur sérstaklega með kvenleika, þetta á ekki að vera einhver strákaklúbbur. Bio-drottningar og dragkóngar eru að hjálpast að með þetta.“ Kristrún telur konur eiga erfiðara uppdráttar í dragheiminum en karlar. „Ég hef visst líkamlegt forskot, til dæmis er auðveldara fyrir mig að fara á klósettið í dragi, en á móti kemur gríðarleg pressa því ég er fulltrúi minnihlutahóps innan dragheimins og finnst ég alls ekki mega klúðra neinu. Ég þarf að gefa mig 120% og hárkollan má alls ekki detta af. Meginhugsunarhátturinn er: Þau mega ekki sjá mig svitna!“ útskýrir hún. „Vonandi geri ég hlutina auðveldari fyrir þær sem koma seinna. Mig langar að berjast, vera sýnileg og breyta hlutum.“

*Sískynja (sís) einstaklingur upplifir sig á þann hátt að hann tilheyri því kyni sem honum var úthlutað við fæðingu.

Mynd: Kaspars Bekeris.

Dragpersónan varð til í gegnum sjálfsvinnu

Kristrún kom upphaflega fram sem dragkóngur en eftir að Drag-Súgur varð til ákvað hún að láta drauminn rætast og koma fram sem dragdrottning. „Ég var algjört hot mess í fyrsta skiptið og með hárkollu sem var ekki einu sinni fest almennilega á mig, en mér leið eins og persónuleikinn minn væri í draginu. Það var tenging sem ég hafði ekki upplifað sem dragkóngur.“ Fólk spurði hana eftir sýninguna hvort hún væri strákur eða stelpa. „Mér þótti skemmtilegt að ég „blörraði“ línuna og tók því sem hrósi.“ Í kjölfarið þróaði hún dragpersónuna Jenny Purr og kom fyrst fram á sviði undir því nafni í apríl 2017.

Á þessum tíma stóð Kristrún í mikilli sjálfsskoðun og sjálfsvinnu og segir hún dragið hafa verið mikilvægan þátt í því ferli. „Út af áföllum sem ég hef lent í hataði ég líkamann minn og eiginlega bara hataði allt, en vegna þess hvað Jenny Purr er ófeimin og biðst aldrei afsökunar kenndi hún mér að elska sjálfa mig og líkama minn upp á nýtt, jafnvel þótt útlitið sé langt frá því að vera náttúrulegt og ég sé alltaf með þrjú pör af augnhárum. Hún kenndi mér að ég MÁ það, ég má vera eins og ég vil. Þetta var það sem ég þurfti á að halda í endurhæfingunni minni og þess vegna þykir mér rosalega vænt um Drag-Súg, um drag-fjölskylduna mína, af því þau leyfðu mér að gera þetta,“ segir Kristrún og bætir við að ef þetta hefði verið annar hópur, af annarri kynslóð til dæmis, hefðu þau mögulega afskrifað hana án þess að vita hvað hún hefði fram að færa. „Þau hefðu getað sagt: „Þú ert bara kvenmaður að djamma uppi á sviði og með hárkollu.“ En kynfærin mín eru ekki að gera vinnuna, þetta er allt í huganum og sálinni.“

Mynd: Kaspars Bekeris.

Samtal hinsegin heimsins og meginstraumsins

Að mati Kristrúnar er drag að læðast inn í afþreyingarmenningu nútímans og visst samtal er til staðar milli hinsegin heimsins og fjölmiðlaheims meginstraumsins. „Drag á sér auðvitað langa sögu, en ég myndi segja að í dag sé það blanda af mörgum listgreinum. Við blöndum öllu saman og gerum hlutina á mjög fjölbreyttan hátt. Við erum listamenn og listamenn gera sína eigin hluti, vilja ná fram mismunandi áhrifum á mismunandi fólk. Drag hefur margar stefnur og getur verið pólitískt líka,“ segir Kristrún. Hún telur sýnileika vera einn mikilvægasta þáttinn í þessu, þannig sé auðveldast að breiða út þekkingu og fræðslu. „Oft þarf bara að leyfa fólki að vera forvitið, leyfa því að vera ringlað og leyfa því að njóta. Sís gagnkynhneigt fólk kemur á Drag-Súg og er eiginlega stærsti áhorfendahópurinn, en oft er það hrætt um að við sem hinsegin fólk séum óvinveitt þeim eða smeyk við þau. Ég vil að allir fái að njóta drags og að fólk setji spurningarmerki við kynhneigðir og kynímyndir, við hvað má og hvað má ekki.“ Aðspurð segir Kristrún alls ekki skilyrði að fólk sé hinsegin til að vera í dragi, öllu frekar eigi draglistafólk það sameiginlegt að hafa á einhvern máta liðið utangarðs í nútímasamfélagi. „Í Drag-Súgi eru einstaklingar með fjölbreyttar kynhneigðir, við styðjum og metum hvort annað.“ Sjálf er Kristrún tvíkynhneigð og telur mikilvægt að vera sýnileg sem slík, sérstaklega gagnvart ungu kynslóðinni sem fylgist vandlega með dragsenunni á samfélagsmiðlum.

Fulltrúi íslenskra bio-drottninga

Um miðjan maí næstkomandi verður ráðstefnan RuPaul´s Drag Con haldin í Los Angeles. Kristrún verður þar kynningarfulltrúi fyrir íslenskt drag og hinsegin menningu ásamt dragdrottningunum Gógó Starr og Deff Starr. Hún fór einnig á ráðstefnuna í fyrra, sem haldin var í New York, en þá eingöngu sem gestur. „Þetta var eins og Eurovision og jólin í bland: Svo margt í gangi og svo mikið af stórglæsilegum dragdrottningum,“ segir Kristrún. Hún lýsir ráðstefnunni sem risastóru svæði með fjölbreyttum básum þar sem hægt er að hitta drottningar úr RuPaul´s Drag Race og aðra hinsegin listamenn og áhrifavalda. Á daginn eru einnig ýmsir fyrirlestrar og á kvöldin eru haldnar glæsilegar dragsýningar. „Andrúmsloftið er frábært, enginn er með dívulæti, fólkið mætir vegna þess að það elskar drag og vill fagna því. Mikið er lagt upp úr því að þetta sé öruggt rými og allir mæta í sínu fínasta pússi.“ Kristrún vonast eftir að sjá fleiri bio-drottningar og dragkónga en hún sá í New York og jafnframt stefnir hún að því að vera verðugur fulltrúi íslensku dragsenunnar og hérlendra bio-drottninga. „Við erum ekki margar, en við erum samt nokkrar, misvirkar af persónulegum ástæðum. Oft er verið að bera okkur saman þó við séum mjög ólíkar og því miður gerir fólk oft ráð fyrir að vegna þess að við erum konur í dragi séum við í samkeppni og getum ekki stutt hverjar aðra. Þess vegna reyni ég að styðja við aðrar konur í bransanum á sýnilegan hátt, til dæmis með því að gefa nýliðum góð ráð. Þeim á ekki að líða eins og þær þurfi að keppa við mig, þó að ég sé búin að gera þetta oftar þýðir það ekki að við getum ekki verið vinkonur!“ Ungar stúlkur hafa oft samband við Kristrúnu í gegnum Snapchat eða aðra samfélagsmiðla og spyrja hana hvort þær geti líka verið dragdrottningar, hvort það megi. Svarið er þetta: „Já elskan, þú mátt vera dragdrottning, svo lengi sem þú ert að fagna sjálfri þér sem konu og ert með stór augnhár. Það er það eina sem ég bið um.“

Aðalmynd: Kaspars Bekeris.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen er kvikmyndafræðingur (BA), meistaranemi í ritlist og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila