Vroom Vroom Vroom: Platan sem tengir bílinn við manninn

Í marsmánuði síðastliðnum kom út breiðskífa á efnisveitunni Spotify sem nefnist Vroom Vroom Vroom – en hún er samin og flutt af íslensku tónlistartvíeyki sem kallar sig Johnny Blaze & Hakki Brakes. Listamennirnir tveir, sem heita Jón Rafn Hjálmarsson og Hákon Bragason, byrjuðu fyrst að vinna að plötunni fyrir um tveimur árum síðan.

Af bílum og bensínleysi

„Upprunalega planið var að búa til heila plötu á tveimur vikum sem átti að vera bílaplata – ekkert flóknara en það,“ segir Hákon. „Við vildum búa til plötu í einum rykk: keyrandi tónlist með fyndnum textum,“ bætir Jón Rafn við, „en svo ákváðum við að staldra aðeins við þessa pælingu og vinna meira í henni. Úr því ferli kom þessi plata –tveimur árum seinna.“ Platan samanstendur af níu frumsömdum lögum sem bera titla er tengjast bílum á einn eða annan hátt. Þau fjalla meðal annars um keyrslu, bensínleysi, hraðahindranir, ljósastaura og umferð sem samtvinnast að lokum mannlegu ástandi og eilitlum töffaraskap.

„Lögunum er raðað þannig upp að það er eins og platan sé smátt og smátt að verða bensínlaus,“ segir Hákon. „Fyrsta lagið heitir „Bensínljós“. Lögin sem koma í kjölfarið eru í raun þrep í átt að bensínleysi og fylgja ákvörðuninni að kaupa sér ekki bensín á leiðinni. Svo endar platan á laginu „Bensínlaus“.

„Textarnir snúast flestir um að líkja manneskjunni við bílvél eða við það hvernig bílar virka: það er að segja að færa sálina yfir í vél sem hægt er að skilja og laga,“ útskýrir Jón Rafn. „Bíllinn þarf olíu og bensín, smurningu og viðhald. Sem manneskjur erum við eins, nema okkar bensín er náttúrlega vatn, áfengi, eiturlyf og kannski matur eða kolvetni. Við getum ekki alltaf keyrt á tómum tanki.“ „Bíllinn verður náttúrlega framlenging af manni sjálfum þegar maður er í honum,“ bætir Hákon við. Ef lent er í árekstri er oftast ekki sagt „Þú klesstir á bílinn minn!“ heldur „Þú klesstir á mig!““

Mynd: Johnny Blaze & Hakki Brakes

Keyrandi á hálftómum tanki

Þeir Hákon og Jón Rafn segja bensínljósið vera gegnumgangandi þema á plötunni, áminningu sem blikkar stöðugt í bakgrunni. Þeir segja það vera bæði boðskap og ádeilu. Við unga fólkið erum alltaf keyrandi á hálftómum tanki, gerum rosalega mikið en höfum þannig séð ótrúlega lítið – við keyrum okkur út á nánast engu. Lagið Bensínljós“ fjallar um það: Að skipta um gír með vélina þanda“ þýðir í raun „ég á ekki neitt en ætla samt að gera það besta úr því sem ég er með.

Listamennirnir segja nöfnin Johnny Blaze og Hakki Brakes vera byggð á klisju. Johnny Blaze er upphaflega nafnið á Ghost Rider í Marvel-teiknimyndasögunum – það er mitt nafn. Svo þurftum við að finna annað klisjukennt nafn á Hákon,segir Jón Rafn. Nafnið Hakki kom út úr því vegna þess að ég mátti ekki skrifa bókstafinn Á þegar ég var lítill að spila tölvuleiki og þurfti að velja alþjóðlegra nafn. Svo ég skrifaði Hakki í staðinn fyrir Hákon,“ segir Hákon og hlær. Svo var það bara að finna viðskeyti sem tengdist bílum á einhvern hátt: Brakes.“ Hákon er bremsurnar í hljómsveitinni; setur mörkin og heldur mér á jörðinni,“ segir Jón Rafn og skellir upp úr.

Þegar þeir eru spurðir hvernig þeir skilgreini tónlistina verða þeir glettnislegir á svip en segja hana vera dægurlaga-syntha-popp sem komi beint frá hjartanu. Hún er svolítið trist, en samt er smá stuð í tristleikanum,“ viðurkennir Jón Rafn. 

Vinir vinna saman

Við gerð tónlistarinnar styðjast listamennirnir helst við hljóðgervla, gítar og upptökur (sömpl) sem þeir blanda síðan saman í Ableton Live eða sambærilegum tölvuforritum. Þeir segja tónlistina vera innblásna af cyborg-pælingum, robo-cop og 80s diskótónlist sem gott er að hlusta á við akstur. Hlutverkaskipanin í ferlinu er að þeirra mati mjög flæðandi en þeir skapa tónlistina á jöfnum forsendum og hafa gaman af.

Breiðskífan var tekin upp í heild sinni á Íslandi þótt listamennirnir tveir búi nú í sitthvoru landinu vegna náms; Jón Rafn er í tónlistartengdu námi í Berlín og Hákon í myndlistarnámi í Madrid. Söngkonan og rapparinn Salka Valsdóttir, sem er bæði meðlimur í Reykjavíkurdætrum og hljómsveitinni Cyber, syngur með í laginu Vegkantur Pt. 2.“ og um hljóðblöndun plötunnar sá Einar Stefánsson sem er m.a. meðlimur í hljómsveitinni Hatari. Hákon og Jón Rafn eru þakklátir fyrir hjálpina sem þeir fengu við gerð plötunar og gera ráð fyrir því að hún muni koma út á föstu formi í sumar í takmörkuðu upplagi. Þeir eru sérstaklega ánægðir með vel heppnað útlit plötunnar en um það sá Gréta Þorkelsdóttir, grafískur hönnuður sem einnig er búsett í Berlín.

Tónlistarmyndböndin þeirra eru einstaklega frumleg og mætti þar nefna myndbandið sem fylgir laginu WD-40sem er hægt að horfa á í 360 gráðum, en Hákon sá að mestu leyti um gerð þess.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Sólveig Eir Stewart

Sólveig Eir Stewart

Sólveig Eir Stewart er meistaranemi í ritlist.

[fblike]

Deila