„List og listform eru alls staðar hin sömu en listamenn fara ólíkar leiðir að efni sínu og hafa ólík tjáningarform og það er gaman að sjá íslenska náttúru birtast í þessum myndum. Hraunið er okkur framandi og mosinn einnig,“ segir Danijela Zivojinovic um leið og hún heilsar fyrstu gestunum sem komnir eru til að skoða sýninguna „Líðandin“ á Kjarvalsstöðum en hún samanstendur af verkum Jóhannesar Kjarval. Danijela ávarpar gestina á serbnesku enda eru þeir komnir til að hlýða á hana segja frá listamanninum og verkum hans á sínu eigin móðurmáli.

Listin talar ýmsum tungum

Leiðsögn Danijelu er hluti af samstarfsverkefni Kjarvalsstaða og félagsins Móðurmál — Samtök um tvítyngi, undir heitinu „Listin talar tungum“. Klara Þórhallsdóttir, verkefnastjóri fræðslu á Kjarvalsstöðum, hefur borið hitann og þungann af skipulaginu og segir verkefnið lið í þeirri viðleitni safnins að breikka gestahópinn.

„Listasafn Reykjavíkur hefur í nokkur ár boðið upp á leiðsögn á ensku um söfn sín, Kjarvalsstaði, Ásmundarsafn og safnið í Grófinni,“ segir Klara og bætir við: „Í vetur hafa að auki verið leiðsagnir á sunnudögum á Kjarvalsstöðum á táknmáli, arabísku og rússnesku og framundan eru leiðsagnir á spænsku, japönsku, taílensku og tékknesku/slóvakísku.“

Klara segir að styrkur hafi fengist úr þróunarsjóði innflytjenda frá Velferðarráðuneytinu. Listasafn Reykjavíkur notar hann til þess að greiða fyrir leiðsögumanninn. „Við erum alltaf að leita leiða til þess að ná til fleiri og þetta er liður í því,“ segir hún. „Hingað koma margir kennarar með hópa til þess að skoða sýningar og þar á meðal eru móðurmálskennarar. Það er hægt að læra margt í tungumálinu með því að skoða listaverk, til dæmis heitin á hinum ýmsu litum og formum. Í list Kjarvals endurspeglast svo margt í menningu Íslendinga sem er útlendingum framandi, svo sem þjóðsögur okkar og ævintýri, en ekki síður náttúrusýnin sem stóð Kjarval svo nærri. Listaverk hans geta því verið nokkurs konar stökkpallur inn í menningu okkar.“

Hanna Theodóra og listamaðurinn Kjarval. Mynd: Auður Styrkársdóttir

„Ég er ekki listlærð en mér finnst þetta mjög skemmtilegt verkefni og svo hef ég Klöru mér við hlið til að fylla í eyður,“ segir Danijela um leiðsögnina. „Þetta er tækifæri fyrir Serba á Íslandi að hittast við önnur tækifæri en venjulega og fræðast um íslenskan listamann. Fæst okkar eru vön því að fara á söfn hér á landi og þetta er því alveg nýtt fyrir okkur flest.

Serbar á Íslandi

Aðspurð segir Danijela að ekki sé vitað hversu margir Serbar búa á Íslandi; þeir eru frá mörgum löndum og Hagstofan skráir bara upprunaland fólks en ekki þjóðerni. „Ætli við séum ekki svona 500–600 á landinu öllu,“ segir hún. Flestir búa á höfuðborgarsvæðinu en á Reykjanesi hefur nokkur hópur einnig komið sér vel fyrir. Serbnesk menningarmiðstöð var stofnuð í maí 2016 og er stefna hennar að halda að börnunum serbneskri tungu, menningu og sögu. Tungumálaskóli þar sem krakkar af serbneskum uppruna geta hist og æft sig í móðurmálinu er starfandi alla laugardaga fyrir grunnskólakrakka á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi.  Hluti af náminu getur einmitt verið fólginn í því að fara á söfn og læra um myndlist á eigin móðurmáli og kynnast sjónlistum Íslendinga.

Danijela kom hingað árið 2005 og á tvö börn sem bæði eru fædd á Íslandi. Hún vinnur á leikskóla og er í M.Ed.-námi í leikskólafræðum. Hún segir að serbneska sé töluð á heimili hennar. Maður hennar er serbneskur Króati en sjálf er hún frá Serbíu. „Börnin læra íslensku í leikskólanum og í skólanum og af vinum og sjónvarpi en serbneskuna verðum við pabbi þeirra að kenna þeim. Það hefur sýnt sig að best er að viðhalda tungumáli með því að hafa það sem aðalmál, móðurmál.“ Hún segir að framtak Listasafns Reykjavíkur sé lofsvert og vonar að það verði til þess að glæða áhuga Serba á íslenskri myndlist og menningu.

Listamaðurinn Kjarval

Áður en langt um líður eru um tuttugu Serbar komnir í anddyri Kjarvalsstaða og hlýða áhugasamir á frásögn Danijelu af Jóhannesi Kjarval og listaverkum hans. Það er spurt um formin í verkunum og fyrirmyndir, hvort hann hafi unnið þau úti eða inni, og hvernig hann hafi hagað sínum vinnudegi. Einnig vekur nafnið Kjarval athygli. Spurt er hvort það sé ættarnafn eða listamannsnafn því hann heitir líka Jóhannesson upp á hinn íslenska máta sem Serbarnir þekkja.

Áhugasamir Serbar við verkið „Krítík“ eftir Jóhannes Kjarval. Mynd: Auður Styrkársdóttir.

Kynningunni lýkur hjá stóra málverkinu „Krítík“ sem hangir innst í vesturgangi Kjarvalsstaða. Listamaðurinn vann lengi að þeirri mynd og á henni má líka sjá þann hátt hans að umgangast eigin verk af lítilli nærgætni. Hann hefur bæði brotið upp á strigann og bætt við hann eftir þörfum meðan hann vann að myndinni.

Áhorfendur segjast sjá mannverur hér og þar. „Íslenskir draugar eða huldumenn?“ spyr einhver og Danijela þýðir spurninguna á íslensku fyrir Klöru. Aðrir sjá fiska og engil með stóra svipu. Klara bendir á manninn fyrir miðri myndinni. „Þetta gæti verið listamaðurinn,“ segir hún og Danijela þýðir á serbnesku. „Hann púlar og streðar en alltaf stendur einhver með svipuna yfir honum. Þannig held ég að margir listamenn vinni, þeir eru aldrei ánægðir og stefna alltaf hærra.“

Viðstaddir kinka kolli og virðast kannast við þetta. Listamenn eru líklega alls staðar eins.

Aðalmynd: Danijela Zivojinovic og Klara Þórhallsdóttir ávarpa gesti. Mynd: Auður Styrkársdóttir.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Auður Styrkársdóttir

Auður Styrkársdóttir

Auður Styrkársdóttir er nemi í ritlist við Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila