Andrýmið í gula húsinu

„Við erum ekki skipulagður hópur eða samfélag heldur viljum skapa rými fyrir fólk til að hitta aðra og einnig skipuleggja eigin viðburði á öruggum og gjaldfrjálsum stað,“ segir Anika Noack þar sem við sitjum í sófa í gulu bárujárnshúsi við Bergþórugötu í Reykjavík, ég með blað og penna í hönd og hún með telpuna Lucy Sól á brjósti. Ég var að spyrja hana um heitið sem hefur verið skrifað á blað sem límt er á innanvert glerið á útidyrahurðinni: ANDRÝMI.

Gula húsið við Bergþórugötu. Mynd: Auður Styrkársdóttir.

Andrýmið

„Heitið „Andrými“ er lýsandi fyrir það sem hér fer fram,“ segir Anika. „Forliðurinn and- getur vísað til sagnarinnar að anda, og þá að anda léttar eða anda að sér einhverju nýju. Hann getur einnig vísað til þess anda sem í manninum býr, eða í húsinu og umhverfinu. Þá vísar hann einnig til þess sem er á móti: andóf, andspyrna.“

Húsið

Gula húsið er eina bárujárnshúsið sem stendur við Bergþórugötu. Byggingarfélag Reykjavíkur, sem verkalýðsfélögin í bænum settu á laggirnar árið 1919, byggði það ásamt tveimur öðrum húsum en annað þeirra brann 1938 og hitt var rifið 1984. Gula húsið, sem nú er eitt eftir, er í eigu Reykjavíkurborgar. Þeir sem sem standa að Andrými vona að borgin haldi áfram að leigja þeim húsið. Sumir ala með sér þann draum að hópurinn geti keypt það.

Anika Noack segir að Íslendingar mættu vera duglegri að nýta húsið.

Úr leikskóla í and-

Hópurinn sem stendur að baki því menningarstarfi sem hér er unnið fékk húsið í hendur fyrir nokkrum vikum og er smám saman að gera það sínu. Þar sem áður hlupu smábörn um gólf leikskólans Óss hefur verið komið upp „Andófsherbergi“, „Kósýherbergi“ og „Skipulagsherbergi“, svo dæmi séu nefnd. Hér er opið hús daglega milli klukkan 17 og 19. Hver sem er getur litið inn, en þeir sem standa á höllum mannréttindafæti eru sérstaklega boðnir velkomnir.

Fólk að störfum á eldhúsdaginn. Mynd: Auður Styrkársdóttir.

Á miðvikudögum er eldhúsið opið. Þá getur fólk eldað í sameiningu grænmetisrétti sem síðan eru snæddir kl. 19. Flóttamenn og hælisleitendur eru sérstaklega boðnir velkomnir. Raunar má segja að Andrými hafi orðið til í kringum þessa eldamennsku árið 2016 þegar ákveðinn kjarni fólks hóf leikinn. Hópurinn fékk  síðan aðstöðu í Iðnó en flutti sig í húsið á Bergþórugötu um miðjan febrúar. Máltíðirnar sækir misjafn fjöldi fólks, eða allt frá tíu og upp í sextíu.

 

Skilyrðin

„Við bjóðum fólki aðstöðu hér til þess að halda fundi eða hittast,“ segir Anika. „Þeir sem ætla að standa fyrir atburðum eða fundum eða nota húsið á einhvern hátt verða að fallast á ákveðin grundvallaratriði eða tilheyra einhverjum hópi í samfélaginu sem á undir högg að sækja, svo sem trans fólki eða samkynhneigðum. Við leggjum sérstaka áherslu á feminíska viðburði og viðburði er tengjast umhverfismálum, en félagslegar breytingar eru í fyrirrúmi hjá okkur. Allt er gjaldfrjálst og fólk borgar eftir efnum og aðstæðum. Andrými er í stuttu máli róttækt félagsrými sem ekki er rekið í hagnaðarskyni.“

Starfsemin

Nokkrir hópar nýta húsið til þess að skipuleggja viðburði: trans fólk setur þar upp trans kaffihús mánaðarlega; músíkhópur spilar saman þjóðlagatónlist vikulega; International Workers of the World heldur fundi; Róttæki sumarháskólinn hélt síðasta þing sitt í húsinu – og þannig má lengi telja. Í einu herbergjanna er bókasafn anarkista, Andspyrna, og er gestum frjálst að fá bók að láni. Myndlistakonan Gía hélt nýlega sýningu á verkum sínum í húsinu. Haldið var upp á baráttudag kvenna þann 8. mars  og var þá boðið upp á grænmetismat og ljósmyndasýningu trans femínista. Femínísku bókasafni var hleypt af stokkunum þennan dag og gestum boðið að flytja ljóð sín, sögur og söngva. Um kvöldið var svo dunandi dans með plötusnúðnum Sunnu Best.

Skipulagið

Skipulagið innanhúss er í höndum allsherjarfunda sem haldnir eru fyrsta sunnudag í hverjum mánuði. Allir sem eitthvað hafa komið nálægt starfseminni í húsinu geta mætt. Þá er setið í hring í stærsta herberginu og málin rædd í þaula, starfshópar myndaðir og valið í þá og greitt úr ágreiningi ef einhver er.

„Hvað ef ekki er hægt að leysa ágreining?“ spyr ég áhugasöm með reynslu annarra af þessu skipulagi  í huga þar sem atkvæðagreiðslur eru ekki viðhafðar.

„Það hefur ekki reynt á þetta enn, en við myndum reyna að finna einhverja lausn,“ segir Anika bjartsýn.

Það er töluð enska í húsinu. Flestir sem hingað koma eru útlendingar.

„Við viljum gjarnan fá fleiri Íslendinga í lið með okkur,“ segir Anika sem sjálf er frá Þýskalandi. Hún kom til Íslands fyrir fjórum árum og á hér mann og tvö ung börn og vinnur í leikskóla.

Lífið

Þá stund sem við tölum saman er stöðugur umgangur í húsinu enda sameiginleg máltíð í undirbúningi. Ungt fólk mundar hnífa og gengur skipulega til verks í eldhúsinu. Úr kjallaranum berst þjóðlagatónlist. Á gólfinu í bókaherberginu sitja tveir ungir menn flötum beinum og skeggræða innihald bókar sem þeir eru að lesa. Ýmsir viðburðir eru framundan í húsinu og er óhætt að segja að þar kenni margra grasa:  Litháar á Íslandi eru að stofna félag og konuhópur Rauða krossins ætlar að hittast á næstunni, svo eitthvað sé nefnt. Fyrir áhugasama um starfið í gula húsinu við Bergþórugötu er hér bent á heimasíðuna.

Hið litríka plakat sem auglýsti baráttudaginn 8. mars í Andrými gerði Natka Klimowicz.

Um höfundinn
Auður Styrkársdóttir

Auður Styrkársdóttir

Auður Styrkársdóttir er nemi í ritlist við Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila