„Lítilmagnans morgunroði?“

Rósa Magnúsdóttir, dósent í sagnfræði við Institut for Kultur og Samfund, fjallar um grein sem hún birtir í Ritinu:3/2017. Þema heftisins er bylting.

Hátíðahöld vegna afmælis rússnesku októberbyltingarinnar skipuðu stóran sess í félagslífi íslenskra sósíalista á tuttugustu öld. Hinn 7. nóvember, eða dagana þar í kring, stóðu sósíalistar og síðar sovéskir sendiráðsmenn fyrir skemmtunum sem oft kröfðust mikils skipulags og voru þær víða auglýstar þannig að augljóst er að markmiðið var að ná til sem flestra: ekki bara sósíalista. Byltingarafmælin og hátíðahöld þeim tengd voru í raun árlegur hápunktur í menningar- og áróðursstarfi íslenskra sósíalista fram eftir allri tuttugustu öld.

Á afmælisdegi byltingarinnar var athygli beint að afrekum sósíalismans og því afli sem byltingin hafði leyst úr læðingi um heim allan og  byltingarafmælið var þannig ólíkt öðrum hátíðahöldum íslenskra sósíalista eins og t.d. 1. maí hátíðahöldunum að því leyti að athyglin var á Sovétríkin sjálf og grundvallargoðsögn þeirra. Afmæli rússnesku byltingarinnar voru þó ávallt tilefni mikilla blaðaskrifa og deilna þvert á flokkspólitískar línur. Íslenskir fjölmiðlar voru flestir meðvitaðir um sögulegt mikilvægi byltingarinnar en hátíðahöldin lituðust þó óneitanlega af utanaðkomandi viðburðum, eins og innrásunum í Ungverjaland 1956 og Tékkóslóvakíu 1968.

Greinin rekur hvernig til átaka kom við sendiráð Sovétmanna í Reykjavík þegar venju samkvæmt var haldin móttaka þar hinn 7. nóvember árið 1956 en nú í skugga innrásarinnar í Ungverjaland. Það var erfitt—en reyndist ekki ómögulegt—að fagna stórafmælinu árið eftir. Á fjörutíu ára afmælinu árið 1957 voru Sovétmenn mitt í alþjóðlegri áróðursherferð til að reyna að vinna bug á skaðanum sem þeir höfðu sjálfir valdið á almenningsálitinu árið áður og hátíðahöldin tóku mið af því út um allan heim; líka á Íslandi þar sem velgengni Sovétmanna í geimvísindum var talin hafa jákvæð áhrif á almenningsálit Íslendinga.

Árið 1967 þegar haldið var upp á fimmtíu ára afmæli byltingarinnar var augljóst að menningarsamskipti Íslands og Sovétríkjanna voru að ákveðnu leyti komin í opinberlegan farveg; stöðugleiki (eða stöðnun) ríkti í menningarsamskiptum Íslands og Sovétríkjanna. Innrásin í Tékkóslóvakíu kom því sem reiðarslag fyrir íslenska sósíalista og hafði afleiðingar fyrir félags- og menningarstarf þeirra um land allt. MÍR hélt ekkert opinbert afmæli árið 1968 og bæði sósíalistar sem og margir annálaðir Rússlandsvinir sniðgengu móttöku sendiráðsins. Öldur átti eftir að lægja en menningarstarf sósíalista náði þó aldrei aftur þeim hæðum sem það hafði á sjötta áratugnum.

Um höfundinn
Rósa Magnúsdóttir

Rósa Magnúsdóttir

Rósa Magnúsdóttir er dósent í sagnfræði við Institut for Kultur og Samfund við Háskólann í Árósum í Danmörku.

[fblike]

Deila