Sæmdarvakning í svartnættismynd

Í byrjun árs 2011 breyttust mótmæli og uppþot í Kaíró, Alexandríu og í öðrum borgum Egyptalands í byltingu, Hosni Mubarak sagði af sér mánuði síðar, og hreyfing sem byrjaði í Túnis breiddist út til annarra landa í Norður–Afríku og Mið–Austurlöndum. Um stundarsakir mátti halda að „arabíska vorið“ myndi umbreyta samfélagsferð fjölda landa, og þá til hins betra. Nýrökkurmyndin The Nile Hilton Incident, eftir Tarik Saleh, vindur fram í skugga þessa heimssögulegu atburða. Myndin fjallar raunar um byltingarhugmyndina á djúpstæðan hátt, því að á sama tíma og byltingin í Egyptalandi er að brjótast út á önnur bylting sér stað, þessi öllu smærri, innra með einmanna og siðspilltum rannsóknarlögreglumanni, Noredin Mostafa (Fares Fares).

Í upphafi myndarinnar sést þessi syndum spillti laganna vörður hreyfa til óaðfinnanlegt hárið á annars illa útleiknu líki ungrar konu í ríkmannlega útbúnu herbergi Hilton hótelsins í miðborg Kaíró. Rannsókn málsins vindur fram samhliða samfélagslegum skjálftahrinum, og endalok bæði rannsóknarinnar og myndarinnar eru jafn flókin og laus við upphafningu og endalok arabíska vorsins sjálfs. Í vinnunni sinnir Mostafa eiginlegum lögreglustörfum lítið sem ekki neitt, heldur keyrir þess í stað borgarhluta á milli og innheimtir vörslufé og mútur af búðareigendum, götusölum og krimmum.

Allt í umhverfi Mustafa lýtur þessu spillingarlögmáli, enginn gerir neitt fyrir neinn, lögreglan kann að selja þjónustu sína, en einkahagsmunir eru allsráðandi, hugmyndin um réttlæti er ekki bara fjarverandi, hún verður hlægileg í þessu samhengi og umhverfi. Raunar eru allra bestu kaflar myndarinnar eru þeir sem lýsa hinu fullkomlega skeytingarleysi um siðferði sem ríkir meðal helstu persóna myndarinnar, og áhrifamátturinn grundvallast í raun á þeirri staðreynd að ekki er hægt að ásaka neinn fyrir þær ákvarðanir sem teknar eru  í myndinni. Söguheimurinn lyktar bókstaflega af níhilisma, eins konar frumspekilegt frumskógarlögmál er það eina sem þekkist, og krítískur og pólitískur broddur myndarinnar beinist að samfélagi sem er löngu að niðurlotum komið, samfélagi þar sem manngildishugsjónir þær sem við hér á Vesturlöndum göngum að sem vísum eru jafn framandi og hugarheimur geimbúanna er fyrir vísindamönnunum í Arrival (Denis Villeneuve, 2016).

Vitundarvakning af einhverju tagi á sér þó stað, og samhliða henni setur frásögn myndarinnar fram vísbendingar um byltinguna sem er í aðsúgi, sem þjónar bæði bakgrunnshlutverki og táknrænu: Mustafa reynir eins og hann getur að hrista af sér hlekki spillingar og óheiðarleika, hann afneitar undir lokin öllu því sem hann stóð fyrir í byrjun kvikmyndarinnar í veikri von um það að hann finni sæmdina aftur, að hann geti talið sig heiðarlegan. Sæmdarvakningin er þó eins og áður var gefið í skyn, skammgóður vermir. The Nile Hilton Incident er stórmerkileg kvikmynd, og samfélagsmyndin sem hún dregur upp er svo sláandi að það er næstum því nauðsynlegt að endurskilgreina rökkurmyndina í þessu tilviki sem svartnættismyndina.

Um höfundinn
Heiðar Bernharðsson

Heiðar Bernharðsson

Heiðar Bernharðsson er með BA próf í kvikmyndafræði og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila