Fyndnar, harmrænar og magnaðar Kartöfluætur

Þegar Vincent van Gogh málaði Kartöfluæturnar árið 1885 vildi hann lýsa fátækum, hollenskum bændum á eins raunsæjan hátt, eins lausan við tilfinningasemi, og mögulegt væri. Þetta fólk var salt jarðar í hans huga. Hversdagshetjur.  Málverkið er í jarðlitum, alþýðufólkið á myndinni er hvert í sínum heimi, dapurt, mögulega langhungrað. Van Gogh var varaður við því að engum myndi finnast þetta falleg eða aðlaðandi mynd og hún myndi ekki styrkja stöðu hans – en hann þráaðist við – þetta var alþýðan, fólkið sem hann vildi lýsa.

Eftirprentun af þessu verki er hulin bak við aðra mynd í stofu í Breiðholtinu í verki Tyrfings Tyrfingssonar Kartöfluætunum sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu í gær. Alþýðufólkið sem hann vill lýsa er hvorki ríkt né fagurt en sannarlega er það tilfinningalega langsoltið og víst er það merkilegt.

Einvala lið

Sviðsetningin einkennist af sömu skrautlegu og hugmyndaríku ofgnóttinni og aðrar sýningar á verkum Tyrfings, Skúrinn á sléttunni (2013), Bláskjár (2014), Auglýsing aldarinnar (2016). Brynja Björnsdóttir gerir flotta leikmynd í þeim ofgnóttar-anda. Umhverfis litla sviðið hefur verið raðað leikföngum og drasli eins og finna má í geymslum landsmanna að fótanuddtækinu ekki undanskildu. Á sviðinu sjálfu ægir öllu saman, því er haganlega skipt í svæði, eldhús og borð, sófakrók, klósett sem vantar dyrnar á og herbergi sem neglt hefur verið fyrir.

Lýsing verksins er stórgóð, hún er verk Kjartans Þórissonar, og glæsilegast er þegar dregur niður í lýsingunni undir lokin þegar tími játninganna er upp runninn og dökkt yfirbragð senunnar minnir á Kartöfluætur Van Gogh, sekt og hungur, en á það er klippt með skæru ljósi sem er eins og högg.

Tónlistin var í höndum Katrínu Mogensen sem notaði popptónlist sem sýndi tónlistarsmekk fjölskyldunnar og útvarpið var notað skemmtilega. Árdís Bjarnþórsdóttir á skilið hrós fyrir leikgervi Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur, það er ekki heiglum hent að durga svo fallega konu svo hressilega upp og þá eru myndbönd Elmars Þórarinssonar ónefnd, sjónvarpið sem alltaf var í gangi,  myndir úr átakasenum sem ekki sáust jafn vel úr vængjum áhorfendarýmisins og loks játning á Facebook. Snilldarvel gert!

Persónur og leikendur

Í hinu nýtískulega húsi Lísu, hjúkrunarfræðings í Breiðholtinu er allt ófrágengið, engu er lokið en nú er komið að því að opna leyniherbergin. Lísu leikur Sigrún Edda Björnsdóttir sem vinnur hér leiksigur. Hún býr til gróteska og mjög flókna mynd af konu sem hefur fengið fálkaorðuna fyrir mannúðarstörf sín í Kósovo en hefur sitthvað á samviskunni. Hún er sóðakjaftur, bæði kona og karl í styrk sínum og veikleikum – kannski er hún dragdrottning? Allavega mun ég seint gleyma serbneska dansinum hennar….

Mótleikarar hennar voru dóttirin Brúna (Brimrún) strætóbílstjóri (Edda Björg Eyjólfsdóttir) og fóstursonurinn Mikael (Atli Rafn Sigurðsson) sem hringsóla í kringum hana eins og reikistjörnur. Bæði fóru þau á kostum og ég hef ekki séð Atla Rafn kafa svona ofan í hlutverk frá því í Englum alheimsins. Þau voru bæði morðfyndin og mjög tragísk.  Höskuldur, Hössi, sonur Brúnu er leikinn af Gunnari Hrafni Kristjánssyni sem fer vel með sitt hlutverk. Fyndin og tragísk var líka Kristín (Vala Kristín Eiríksdóttir), fyrrum kærasta Mikka en núverandi pabbastelpa því að pabbi hennar hefur loksins uppgötvað að hann á dóttur þegar hún hefur verið (mis)notuð af öðrum. Það má nú ýmislegt leggja á sig (og aðra) þegar slíkur ávinningur er í boði.

Þegar allir aðstandendur sýningar gera sitt besta í að búa til jafngóða, heilsteypta og ástríðufulla sýningu á leikstjórinn, Ólafur Egill Egilsson, skilda rós í sitt hnappagat fyrir innsæi sitt í „sögn“ verksins.  Og hver er svo sú sögn?

Óbærilegur léttleiki tilverunnar

Það eru hræðileg leyndarmál og sálfræðilegar fléttur undir ögrandi og glyðrulegu yfirborði verksins en vandamálið er bara að áhorfandi getur ekki vitað hver er að segja satt og hver er að ljúga (að sjálfum sér og öðrum)  í verkinu. Allir eru að leika, ekki síst hin merkingarþrungna kartöflumóðir, Lísa. Það eru engar hetjur í verkinu, bara taparar, fullir af sjálfsmeðaumkvun og árásargirni og tilbúnir til að leggja á flótta. Það er engin markviss leit hjá þeim, aðeins fljótandi lífsvilji og þrá sem oft einkennist af forboðnum fýsnum.  Í þessu og mörgu öðru kallast þetta verk á við fyrri verk Tyrfings og sagnaheim, þar eru ákveðin tákn og lífsskilningur sem hann vinnur með og þróar. Þetta er hans besta verk til þessa að mínu mati.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila