Verðskuldum við jörðina?

Heiðar Bernharðsson fór í Laugarásbíó að sjá War For the Planet of the Apes. Hann gefur engar stjörnur.

War For the Planet of the Apes (eða Apaplánetan eins og hún mun vera kölluð hér eftir) er ekki jafn hefðbundin hasar– og stríðsmynd og titill og mestöll markaðsherferð hennar hefur gefið til kynna. Hún, eins og fyrri kvikmyndir raðarinnar, byggir á of djúpstæðum spurningum um heiminn og mannkynið til að falla með einföldum hætti að móti hinnar hefðbundnu sumar–stórmyndar frá Hollywood.

Nýjasta framlagið í röðina veltir upp spurningum um stöðu mannsins í dag, kynslóðanna sem standa frammi fyrir æ fleiri vandamálum á hnattrænum skala: loftlagsvandamálum, útbreiðslu kjarnavopna, fjöldaútdauða á dýrategundum, styrjöldum víðsvegar um heiminn og meðfylgjandi flóttamannastraumi. Þegar uppi er staðið fjallar Apaplánetan um eina spurningu sem má segja að umlyki alla þá þætti sem áður voru nefndir: er mannkynið að tapa mannúðinni?

Áhorfendur eru ekki lengi að átta sig á því að aparnir eru einstaklega mannlegir í Apaplánetunni: þeir hafa búið sér til flókið samfélag (hvers valdastrúktúr svipar stöku sinnum til leiðtogadýrkunar og einræði fasismans, þó að ég telji ekki að höfundar kvikmyndarinnar ætli þeim merkingarauka mikið vægi, ef þeir eru þá yfirleitt meðvitaðir um hann); þeir hafa tekið upp tvenns konar tungumál og skipulagt sig um sumt að hætti siðmenntaðs samfélags.

Sjálft mannkynið er hins vegar í stöðugri afturför. Samfélag mannanna, með fækkandi fólksfjölda, stökkbreytingum á sjúkdómum og örvæntingunni sem því eðlilega fylgir, hefur horfið frá því sem kenna mætti við gildi upplýsingarinnar. Meðan öpunum fleygir fram færast mennirnir aftur á bak á staksteinum sögunnar. Svo er komið að stríðsrekstur stendur eftir sem eina athæfið. Hvergi er að sjá fjölskyldur, hver einasta manneskja þjónar sínu hlutverki í hernum, eina mótsvari mannkynsins við uppgangi apanna sem ráðandi siðmenningar jarðarinnar.

Kvikmyndin leggur sig fram við það að sýna okkur apana sem næmar tilfinningaverur: þeir eignast fjölskyldur, hjálpa ókunnugum, sína fórnsemi og tryggð. Allt er gert til þess að við upplifum Sesar, Rocket og Vonda Apa sem mannlega karaktera. Eitt mest áberandi tákn myndarinnar er blóm, sem einhvern veginn tekst að blómstra þrátt fyrir að kvikmyndin gerist um miðjan vetur, sem slitið er af tréi í þeim tilgangi að gleðja mannsbarn eitt mállaust. Blómið verður tákn fyrir væntumþykju, verndartilfinningu og mannúð. Viðsnúningurinn er hins vegar sá að það er górilla sem slítur blómið af tréinu og réttir barninu, í von um að gleðja það og sýna væntumþykju. Mennina sjálfa sjáum við aldrei sem neitt annað en hugsunalausa vígamenn, knúna áfram af leiðtoga sem einungis er hægt að kalla skrumskælingu á Kurtz úr Apocalypse Now, sem er heltekinn af þeirri hugmynd að sigur í stríðinu við apana náist aðeins í gegnum algera fórn sjálfsins, fórn fjölskyldu, fórn tilfinninga, fórn mannúðarinnar, fórn mennskunar.

Apaplánetan krefur okkur því til umhugsunar um mennsku okkar, um mannúð á tímum sem og okkar. Getum við virkilega hreykt okkur af mannúð og mennsku á tímum bókstaflegs mannflóðs frá stríðshrjáðum löndum, þar sem spurningar um kynþætti, trú eða tilvistarrétt flóttafólks eru oft meira áberandi og háværari en spurningar um húsaskjól og að hjálpa þeim sem eru í nauð staddir? Apaplánetan varpar því boltanum aftur til áhorfendans og spyr: erum við enn hæf til að kalla okkur mennsk?

Myndin hvetur okkur því til að hugsa um mannúð eða mennsku sem færanleg hugtök, hugtök sem eiga ekki einungis við mannkynið. Við ættum að velta því fyrir okkur hvort dýrategundir geti verið meira „mannlegar“ en við sjálf, sýnt af sér mannúðlegri hegðun. Munu villt dýr erfa jörðina frá okkur, og þá einnig titil mannkynsins sem drottnarar? Getum við fundið það í okkur að gefa mállausri lífveru blóm? Og ef ekki, eigum við þá jörðina skilið?

Vefsvæði Engra stjarna.

Um höfundinn
Heiðar Bernharðsson

Heiðar Bernharðsson

Heiðar Bernharðsson er með BA próf í kvikmyndafræði og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila