Hrifmagn þúsund hnatta

Hallvarður Jón Guðmundsson fór í Laugarásbíó að sjá Valerian and the City of a Thousand Planets. Hann gefur engar stjörnur.

Spurningin hvort mikilfenglegt sjónarspil bæti upp fyrir heldur tilþrifalausa sögufléttu og tvívíða persónusköpun hefur að öllum líkindum fylgt kvikmyndamiðlinum frá upphafi. Þetta er jafnframt spurning sem nýjasta kvikmynd Luc Besson, Valerian and the City of a Thousand Planets vekur upp. Svarið veltur á menningaraðstæðum og forsendum og leshætti áhorfandans.

Valerian byggir á hinni frægu frönsku myndasöguröð Valérian et Laureline eftir Pierre Christin og Jean-Claude Mézieres sem kom út frá 1967 til 2010 og hefur verið þýdd á ótal tungumál, þ.á.m íslensku (aðeins fáein bindi af fjölmörgum, að vísu). Þessar myndasögur eru mikils metnar hjá unnendum hinnar níundu listgreinar og er einnig talið að hönnunin á geimskipunum og öllum þeim mörgu furðuverum sem eru að finna á síðum þessara bóka hafi haft sýnileg áhrif á útlitshönnun Star Wars-myndanna. Einnig höfðu sögurnar um Valerian og Laureline umtalsverð áhrif á sumarsmell Luc Besson frá árinu 1997, The Fifth Element, en þar eru einnig greinileg áhrif frá myndasögustórvirkinu The Incal eftir Alejandro Jodorowsky og Moebius, en sá síðarnefndi vann einmitt að útlitshönnun The Fifth Element. Það var um það leyti sem Luc Besson var að leggja lokahönd á The Fifth Element sem hann ákvað að koma sögunum af Valerian og Laureline á silfurtjaldið. Nær tuttugu ár hafa liðið en áformin eru nú orðin að veruleika.

Valerian gerist á 28. öldinni á alþjóðlegu geimstöðinni Alpha, sem er „Borg hinna þúsund hnatta“ sem getið er í titli myndarinnar. Alpha er einskonar himnaborg þar sem verur úr öllum heimshornum lifa saman í sátt og samlyndi, og svipar þar til geimmiðstöðvanna úr Babylon 5 og Star Trek: Deep Space Nine. Árás á stöðina rýfur hins vegar friðinn og skilur eftir sig sviðna og eitraða jörð. Hermennirnir Valerian (Dane DeHaan) og Laureline (Cara Delevingne) eru kölluð út í kjölfarið og fá það verkefni að gæta öryggis yfirmanns síns Arün Filitt (Clive Owen) á meðan hann leitast við að ná fundum við hina óþekktu árásarmenn. Í ljós kemur að árásarmennirnir tengjast gömlu og háleynilegu leyndarmáli sem herinn býr yfir og enn fremur tengjast þeir á einhvern hátt síendurteknum draumum Valerians um fjarlæga og óþekkta paradísar-plánetu.

Söguþráðurinn er í raun bara átylla sem kvikmyndagerðarmennirnir nota til að sýna okkur hina fjöldamörgu heima sem hægt er að finna í Borg hinna þúsund hnatta – kemur þar að hrifmagnsáhrifunum sem áður voru nefnd – og undirritaður sér raunar lítið athugavert við slíka nálgun, sérstaklega þegar myndin er jafn mikið augnayndi og raun ber vitni. Hönnunin á byggingunum og geimskipunum er einstaklega vel unnin og sannfærandi. Að horfa á myndina er ekki ólíkt því að sjá bókarkápur vísindaskáldsagna vakna til lífsins.

Gríðarlega vel útfærða og sjónrænt frumlega hasarsenu gefur að líta snemma í myndinni þar sem Valerian og Laureline eru send í svaðilför á markað sem aðeins er hægt að nálgast með sértilbúnum gleraugum sem opna upp einhvers konar sýndarveruleika. Framvindan sýnir Valerian og Laureline vinna að sama markmiði á sama svæði en í tveimur mismunandi veruleikum. Þetta atriði kætti mjög mikið lítt–grafinn vísindaskáldskaps–aðdáandann í mér og lofaði góðu um hvað myndin bæri í skauti sér. Ekkert sem á eftir fylgdi reyndist því miður jafnast á við þetta atriði, en það þýðir þó ekki að myndin sem heild sé slæm.

Kemur þar aftur aftur að hönnun myndarinnar, en útlitið er samtvinnað sjálfum tilvistargrundvelli hennar. Lífheimur verksins er allur undraverður; má þar nefna akfeita skransalann sem Valerian mætir á markaðnum, og þrjár geimverur sem líkjast öndum og klára setningar hvors annars líkt og Ripp, Rapp og Rupp. Þetta tríó þvælist um geimstöðina og býr yfir margs konar leynilegum upplýsingum sem koma Laureline að gagni. Hin heimsfræga tónlistarkona Rihanna skýtur einnig upp kollinum sem hamskiptingur sem bregður sér í allra kvikinda líki. Sú persóna gegnir svipuðu hlutverki og bláa söngkonan í The Fifth Element.

Í þessu samhengi er það nokkuð miður að mennskar persónur myndarinnar eru fjarri því jafn spennandi og sannfærandi og furðuverurnar. Að hluta liggur vandamálið í því að leikararnir í aðalhlutverkum ná illa að miðla rómantísku neistafluginu sem á að vera á milli persónanna tveggja, og lítil stoð er í handritinu þegar að þessum þætti myndarinnar kemur. Annað og stærra vandamál, frá mínu sjónarhorni í öllu falli, er að leikararnir eru einfaldlega of ungir til að vera sannfærandi í þessum hlutverkum. Vandamál sem Hollywood–myndir eiga við að glíma í síauknum mæli. Samkvæmt innri rökvísi sögunnar eru Valerian og Laureline þaulreynd vígamenni, hermenn sem nær hoknir eru af biturri reynslu fyrri stríða og trámatískra sérverkefna. Samt líta þau út eins og fyrsta árs B.A. nemar í kvikmyndafræði. Gallar handritsins verða jafnframt meira áberandi eftir því sem líður á og bitnar það einna helst á þriðja þætti sögunnar þar sem flæðið verður ruglingslegt.

Af áðurnefndum misbrestum er ég hins vegar reiðubúinn að afsaka allnokkra. Kemur þar til að vísindaskáldskaparmyndir sem leggja svona mikinn metnað í útlit söguheimsins eru hreinlega ekki á hverju strái. Að mörgu leyti minnti Valerian mig á myndina Ghost in the Shell sem einnig kom út á þessu ári. Ghost in the Shell er byggð á víðfrægum myndasögum sem hafa alið af sér tvær teiknimyndir í fullri lengd og margar sjónvarpsþáttaraðir. Sú mynd þjáðist líka af gölluðu handriti en hafði til að bera einn alflottasta sæberpönk–heim sem sést hefur í háa herrans tíð. Um er að ræða kosti og galla og ástæðulaust er að gengisfella gildi útlitshönnunar og heimsbyggingar of mikið. Eins og áður segir stendur og fellur Valerian með leshættinum; ef sóst er eftir hrifmagni og hrifmagnsatriðum, og slagkrafti hins sjónræna, þá stendur myndin hnarreist.

Vefsvæði Engra stjarna.

Um höfundinn
Hallvarður Jón Guðmundsson

Hallvarður Jón Guðmundsson

Hallvarður Jón Guðmundsson er nemandi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila