Flétta minninga og skynjunar

Hildur Harðardóttir fór í Bíó Paradís að sjá Knight of Cups. Hún gefur engar stjörnur.

Í upphafi Knight of Cups (2015) í leikstjórn Terrence Malick hljóma sögumannsraddir yfir fljótandi myndskeiði af aðalpersónunni Rick (Christian Bale). Önnur röddin tilheyrir Brian Dennehey sem leikur föður Rick, en hann minnir Rick á sögu frá barnæsku. Sagan fjallar um prins sem var sendur til að finna perlu á hafsbotni langt frá heimaslóðum. Í miðri för er prinsinn afvegaleiddur, gleymir hver hann er, gleymir perlunni og fellur í djúpsvefn. Þetta er í raun saga Rick sem hefur náð langt í Hollywood en veit ekki hvaða gildum hann á að fara eftir, er óhamingjusamur og „lifir lífi einhvers sem [hann] þekkir ekki“. Áhorfendur fylgja honum í eins konar pílagrímsför um völundarhús minninga þar sem hann leitar að tilgangi, ást og perlunni, táknmynd fegurðarinnar.

Áhorfendur fylgjast með minningum Rick úr ástarsamböndum við sex konur (Imogen Poots, Cate Blanchett, Freida Pinto, Natalie Portman, Teresa Palmer og Isabel Lucas) sem beina sögu hans í ákveðnar áttir með því að veita honum nýja sýn á lífið eða sjálfan sig. Flestar þeirra virðast jafnvel frekar vera tákn fyrir þroskastig eða tilvistarlegar uppgötvanir Rick, fremur en persónur. Knight of Cups er raunar uppfull af táknum sem hægt er að rýna endalaust í. Þess vegna á vísunin í tarrot spil, bæði í nafni myndarinar og í kaflaheitum innan hennar, vel við. Sjálfur er Rick táknmynd pílagrímsins og eins konar tæki sem Malick notar til þess að velta fyrir sér sambandi manns og heims og hlutverki mannsins í veröldinni. Að því sögðu ættu áhorfendur að vera undir það búnir að þurfa að hugsa og íhuga með myndinni allan tímann og fá engin endanleg svör, heldur spurja sig sífellt fleiri spurninga.

Knight of Cups er í heimildamyndastíl sem skrásetur flæðandi minningar Rick. Tökuvélin er stöðugt á hreyfingu; skimar yfir umhverfið, einblínir á eitthvað eitt, fer svo yfir á annað líkt og augu sem flökta. Kvikmyndatökumaðurinn Emmanuel Lubezki hefur sagt í viðtölum að Malick hafi beðið hann sérstaklega að lesa ekki handritið áður en tökur hófust. Litlu máli skiptir að Lubezki hafi ekki þekkt söguþráðinn, þar sem kvikmyndin er ekki í línulegri frásögn, heldur er hún röð minninga. Það kemur þess vegna listilega út að hann sé sjálfur að upplifa hverja senu í fyrsta sinn og beini vélinni að því sem vekur athygli hans í tjáningu leikaranna hverju sinni. Hann tekur eftir minnstu smáatriðum eins og handahreyfingum sem lýsa tilfinningarástandi sögupersónu fullkomlega og fangar sterkt andrúmsloft í minningum Rick. Minningar sem eru oft á tíðum fullar af sorg, bældri reiði og eftirsjá, jafnvel góðar minningar hafa einmannalegan og melankólískan blæ yfir sér.

Saman leika Lubezki og Malick sér með sjónarhorn, sjónina sjálfa og hvernig minningar úr fortíðinni birtast áhorfendum. Með þessu er Malick sennilega að fá áhorfendur til að sjá á annan hátt en þeir eru vanir í þeim tilgangi að fá þá í framhaldinu til þess að hugsa öðruvísi. Malick neitar að horfa á heiminn í gegnum linsu græðgi, efnishyggju og kapítalisma og þar af leiðandi stjórnar hann því sem við sjáum með klippingu og kvikmyndatöku þannig að áhorfið ýti ekki undir þessi gildi. Hann lætur áhorfendur líta til himins, sýnir þeim að glamúr og glans Hollywood er ekki það sem sýnist. Hann hægir á heiminum og leikur við ljósið og vatnið. Rétt er þó að taka fram að sjónarhorn sem ýtir undir sýn karlaveldisins er svo sannarlega til staðar þar sem kvenpersónur myndarinnar eru tákngerðar og hlutgerðar, en hið karllæga sjónmál (e. male gaze) er einnig ráðandi út myndina.

Þegar stöðugt er klippt á milli mismunandi minninga eru það sögumannsraddir, hljóð og tónlist sem brúa bilið á milli þeirra og gefa þeim samhengi. Sögumannsraddirnar færa okkur í innri heim sögupersónanna og gefa hverri senu allt aðra merkingu en ef hún stæði ein og sér. Þær breyta skilningi okkar og við fáum þannig sífellt skýrari mynd af Rick eftir því sem fleiri sögupersónur segja frá. Með þessu er Malick líklega að velta fyrir sér sambandi orða og hugsunar sem er mjög spennandi, ekki síst með tilliti til heimspekilegra þanka þar að lútandi. Þegar þessi þættir koma allir saman verður kvikmyndin að meistaralegri skynjun. Hún verður að minningum.

Vefsvæði Engra stjarna.

Um höfundinn
Hildur Harðardóttir

Hildur Harðardóttir

Hildur er nemandi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila