Leikhúslíf í Edinborg

Þessar vikur sem við höfum verið hér í Edinborg hef ég séð fimm leiksýningar.

Þá fyrstu sá ég í Kings Theatre með Helen Hood, vinkonu minni. Það var Cutting the Rug (Dansað upp um alla veggi) eftir John Byrne sem er leikskáld og myndlistarmaður (myndin hér að neðan er eftir hann). Þetta er hluti af þríleiknum The Slab boys (strákarnir í litunarverkstæðinu) eftir Byrne. Þar er lýst verkalýðsstrákum í teppaverksmiðju í Paisley á fimmta áratugnum, raunsæ, fyndin en hörð saga, eins konar skosk Djöflaeyja. Sýningin var leikin á alvöru skoskri mállýsku og ég hefði ekki skilið mikið í þeim samræðum hefði ég ekki verið með túlk. John Byrne er raunar flinkur teiknari og myndlistarmaður og gerði plakatið að sýningunni og myndskreytti loftið í King´s theatre. Hann var á sýningunni – flottur karl!

Næsta var skólasýning hjá Snorra, syni okkar, sem við Kristján sáum með þeim Morag. Snorri leikstýrði ekki en spilaði á bassa í hljómsveitinni. Þetta var sýning hjá yngri skólasveinum sem léku, sungu og dönsuðu The Jungle book með tilþrifum á alvöru sviði í sal skólans – það er hlúð að drengjunum í þessum einkaskóla, ekki verður annað sagt! Bestu strákarnir eiga áreiðanlega eftir að sjást á skoskum sviðum í framtíðinni.

Þriðja sýningin var Hay fever (frjókornaofnæmi) eftir Noel Coward frá 1924 í Lyceum leikhúsinu. Þá sýningu sáum við Kristján, Helen og Geraldine Cook saman. Þessi gamanleikur Noel Coward er ákaflega breskur en hefur um sumt elst vel – hann er svolítið létt-perralegur um margt og sumt minnti á leikrit Antons Chechov um hina blönku, rússnesku yfirstétt sem býður gestum heim til að draga úr lífsleiða sínum en verður því fegnust þegar þeir fara svo að menn geti haldið áfram að hvíla í sínum lífsleiða og vonlausu samskiptum. Það væri vel hægt að setja þetta leikrit upp á Íslandi ef góður þýðandi færði hann á eitthvert millistig milli fyndni og hryllings. Sjálf sýningin í Lyceum var borin uppi af fínum leikurum en ótrúlega erfitt að sjá hvaða leikstjórnarákvörðun réði ferð – ég held því opnu að það sé vegna þess að staða Coward í Bretlandi hefur svo mikla menningarlega merkingarauka að útlendingar skilja ekki hvernig má og má ekki leika hann.

Fjórða sýningin var engu lík sem við höfum áður séð. Hún hét: Dr. Sterlingshire discoveries (Uppgötvanir doktor Sterlingshire) og var leikin í dýragarðinum í Edinborg. Leikritið sjálft var lítið ævintýri eftir Morna Pearson og markhópurinn frá fimm ára. Það var leikið af tveimur leikhópum. Annar leikhópurinn samanstóð af fimm fagmenntuðum leikurum, allir býsna góðir – en hinn leikhópurinn og sýnu fjölmennari var Lung Ha Theatre Company sem skipaður er leikurum með «learning disabilities» af mismunandi toga. Þau léku af hjartans lyst og drógu ekki af sér. Þau léku dýragarðsverði, mörgæsir, stílfært steggja- og gæsapartý og ég veit ekki hvað. Búningaskipti og snöggar «sviðsskiptingar» voru lýtalausar og leikurinn barst hingað og þangað um dýragarðinn – allt gerðu þau fallega og af mikilli gleði og innileika sem sendi alla, unga og gamla, brosandi útúr garðinum.

Síðustu sýninguna sáum við í gærkvöldi, aftur í Lyceum leikhúsinu. Sú heitir A Number eftir Caryl Churchill í leikstjórn Zinnie Harris sem líka er leikskáld. Aðstoðarleikstjóri var Kolbrún Björt Sigfúsdóttir. Leikritið fjallaði um þann róttæka sjálfsmyndarmissi sem verður þegar þú færð að vita að þú ert í raun klónaður! Það er hópur af mönnum í umferð sem eru tvífarar þínir – fjöldaframleiddir! Þetta var í raun svolítið ógnvekjandi framhald á afar áhugaverðum samræðum tveggja eldklárra sérfræðinga um sjálfsmyndir okkar á netinu sem fór fram á undan sýningunni í sér prógrammi en þó tengdu. Sú dagskrá var á vegum vísindahátíðarinnar sem ég hef talað um áður. Yfirskriftin var: Hver heldurðu að þú sért ? Leikritið og sýningin voru ekki auðveld og reyndu á áhorfendur en sýningin var mjög góð, sviðsmynd stílhrein og og fól í sér «mise-en-abyme» þar sem ein mynd opnaðist inn í aðra sem speglar angist leikarans á sviðinu sem hefur enga stjórn á því sem gert hefur verið við hann. Leikarar voru tveir. Það hefði mátt heyra saumnál detta í leikhúsinu því að efnið snerti greinilega alla. Og eftir stóð spurningin: Hver heldurðu að þú sért?

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila