Drungi – Ragnar Jónasson
Veröld – 2016

Eftir Ragnar Jónasson liggja átta sakamálasögur. Sú fyrsta, Fölsk nóta, kom út árið 2009. Þar kynnast lesendur lögreglumanninum Ara Þór Arasyni, söguhetju næstu fimm skáldsagna Ragnars. Ari er frábrugðinn mörgum kollegum sínum í íslenska sakamálasagnaheiminum að því leytinu að hann starfar í dreifbýlinu, nánar tiltekið Siglufirði. Uppruni sakamálasögunnar sem bókmenntagreinar er í borgarvæðingu átjándu og nítjándu aldar og þeirri nýju samfélagsgerð sem þar fæddist.¹ Enn er borgin ríkjandi sögusvið greinarinnar, þótt vissulega séu á því fjölmargar undantekningar, enda reyfarasjanran svo stór orðin að þar má flest finna. Ari tekur sér ekki hlé á útgáfuferli Ragnars fyrr en með Dimmu sem út kom fyrir tveimur árum. Þar vendir höfundur kvæði sínu í kross og stígur fram með kvenhetju, Huldu Hermannsdóttur, en svipaða sögu er að segja af konum í sakamálasagnahefðinni og sveitinni, þótt þeim bregði fyrir eru þær sjaldnast í lykilhlutverki. Í Drunga, sem leit dagsins ljós í jólabókaflóðinu síðasta og er sjálfstætt framhald Dimmu, heldur höfundur áfram að vinna með og þróa Huldu sem ætla má að sé aðalpersónan í því sem nú er að verða nýr sagnaleikur.

Hulda verður að vísu ekki skilgreind sem aðalsöguhetja síðari bókarinnar nema með ákveðnum fyrirvörum og formerkjum. Kemur þar til að persónugalleríið er umfangsmikið og Hulda nýtur ekki þeirra skýru forréttinda innan fléttunnar sem algengt er að aðalsöguhetjur geri og breiðir ekki úr sér í sögunni. Þá er vitundarmiðjuhugtakið ekki heldur í sjónmáli. Raunar er leitun að aðalpersónu í skáldsögu sem er fjarverandi jafnlöngum stundum og Hulda. Í ákveðnum skilningi grundvallast því skilgreining lesanda á Huldu sem aðalpersónu sögunnar á úrvinnslu vísbendinga, líkt og afhjúpun sökudólgs í reyfara. Vísbendingarnar má finna utan textans sem innan og meðal þeirra „útvirku“ má nefna að Hulda er aðalpersónan í Dimmu, bókinni sem Ragnar gaf út á undan þessari. Ef Hulda er jafn jaðarsett þar og í nýju sögunni – en ég hef ekki lesið fyrri bókina og get því ekki dæmt – væri grafið undan þessum rökum. Það er hins vegar staðreynd að Huldu er hampað langt umfram aðrar persónur í kynningartextum, auglýsingum og á heimasíðu höfundar. Gengið er að miðlægni hennar sem sjálfgefinni í þessum hliðartextum við skáldsöguna. Til innvirkra vísbendinga má svo telja það að þótt pláss Huldu í sögunni sé takmarkað er þeim þráðum fléttunnar sem henni tengjast skýrlega ætlað að fela í sér umtalsvert meiri tilfinningalegan þunga en miðgildið segir til um í bókinni sem heild (hún fer m.a. til Bandaríkjanna í leit að föður sínum).

Hverfráður heimur og hvikul bygging

Drungi er marglaga frásögn og lesanda ber niður á þremur tímaplönum í söguþræðinum þegar allt er talið til. Voðaverk eru jafnframt framin og eiga sér stað annars vegar í samtíma sögunnar og hins vegar í fortíðinni – og auðvitað eru tengsl þar á milli. Skáldsagan hefst næstum því með fortíðarglæpnum – á undan er stuttur kafli, eins konar kynningarstef og tengslin milli þess sem þar á sér stað við meginstofn sögunnar eru óljós nær allan tímann. Þá vekur jafnframt athygli að síðara voðaverkið, glæpurinn sem á sér stað í samtíma söguframvindunnar, kemur ekki fyrir augu lesenda fyrr en uppúr miðri bók. Jafnframt stingur það aðeins í stúf að fyrra voðaverkið, glæpur fortíðar, gerist ári á undan forleiknum eða kynningarstefinu. Ástæðan fyrir því að tilhögun þessi vekur sérstaka athygli er sú að í endurliti af þessu tagi er „jafnan“ (oftast, samkvæmt hefðinni) horfið aftur til stundarinnar sem lengst er liðið frá og svo hefst vinnan við að komast aftur að líðandi stund í samtíma sögunnar. Auðvitað þarf ekki fylgja slíkum hefðum en það vekur athygli þegar það er ekki gert. Ástæðan fyrir þessu tiltekna fyrirkomulagi skýrist auðvitað síðar, en eins og lýsingin hér að ofan gefur vonandi til kynna er byggingin heldur klaufaleg.

Eldisbúskapur (líkams)greinanna

Söguframvindan í Drunga er þvæld (endurlitin tvö í upphafi dæmigerð í því sambandi), en fléttan er jafnframt endurtekningarsöm samhliða því að vera óljós. Segja má að tilraun til að leiða saman tvö leiðandi ljós spennu– og sakamálasagnageiranna sé grunnhugmynd bókarinnar, nokkuð sem áhrif hefur á form jafnt sem efnistök. Er þar annars vegar átt við lágstemmda og að mörgu leyti atburðasnauða frásagnarlist Agöthu Christie og hins vegar sögubyggingu æsingarreyfara á borð við þá sem Dan Brown skrifar. Helsta einkenni síðarnefndu aðferðarinnar er að skrifa örstutta kafla, tvær til þrjár síður helst, og láta hvern þeirra enda í nagandi óvissu (e. „cliffhanger“) þannig að lesandi standi á öndinni og haldi hugsunarlaust lestrinum áfram. Að sumu leyti er viljinn til að bræða undirgreinarnar saman skiljanlegur; sú fyrri skartar gjarnan vel mótuðum og úthugsuðum persónum og andblæ sem litar alla lesreynsluna; hin síðari hækkar blóðþrýstinginn, eða það er í öllu falli markmiðið, æsir og þenur taugar lesandans, og er að því leytinu hálfgerð „líkamsgrein“ svo vísað sé í hugtak Lindu Williams.² En þótt hugmyndin sé sniðug er úrvinnslan eins og gefið hefur verið í skyn ekki nægilega vel heppnuð eða hugsuð.

Það gerðist á níunda áratugnum, það gerðist á níunda áratugnum, það gerðist á níunda áratugnum

Sagan hefst árið 1988. Ungir foreldrar eru á leiðinni út á lífið en barnapían er sein. Hún skilar sér þó og á árshátíðna er haldið, stemmingin ennþá fín. Þau koma svo heim, gera upp við ungu stúlkuna og spyrja svo dóttur sína hvernig kvöldið hafi verið þegar barnapían er farin. Kemur þá í ljós að barnapían virðist ekki hafa verið ein þarna um kvöldið, vitneskja sem fær á foreldrana vegna þess að barnapían hafði augljóslega leynt því af yfirlögðu ráði:

Var ekki annars gaman hjá ykkur í kvöld? Spurði hann varfærnislega.
Jú … jú, bara fínt, sagði hún en svarið var ósannfærandi.
Og var … var hún ekki bara góð við þig?
Jú, svaraði barnið. Jú, jú, þær voru góðar við mig.
Svarið fékk dálítið á föðurinn.
Hvað áttu við? Spurði hann. Þær?
Já, þær voru tvær.
Hann sneri sér að henni og ítrekaði spurninguna blíðlega: Tvær, hvað meinarðu?
Já, þær voru tvær.
Ha? Kom einhver vinkona hennar líka?
Það varð stutt þögn áður en stúlkan svaraði. Nú sá hann óttann í augum hennar og það fór dálítill kuldahrollur um hann.
Nei, nei. Þetta var dálítið skrýtið, pabbi … (bls. 13)

Faðirinn spyr dóttur sína sömu spurningar þrisvar („Hvað áttu við? Spurði hann. Þær?“ / „Tvær, hvað meinarðu?“ / „Kom einhver vinkona hennar líka?“) og svar dótturinnar er endurtekið orðrétt í síðari tvö skiptin („Já, þær voru tvær“). Hér á þriðju síðu prentverksins birtist helsta stíleinkenni Ragnars: endurtekningarklif – og já, endurtekningarklif er vissulega tvítekning en orðið er þannig bæði performatískt og hlaðið þeim íþyngjandi áhersluauka sem nauðsynlegur er í þessu tilviki svo tjá megi umfang endurtekningaráráttu textans. Lítum í framhaldinu til þess þegar Hulda Hermannsdóttir lögreglukona er kynnt til sögunnar í fyrsta sinn. Það er gert með eftirfarandi hætti:

Hulda Hermannsdóttir leit upp frá skrifborðinu þegar barið var að dyrum. Að venju var hún niðursokkin í skjalagerð á þessum tíma dags. Vinnudegi flestra lokið, en hún sat alltaf við lengur, jafnvel þótt hún hefði samið um fastar yfirvinnugreiðslur og bæri því ekkert úr býtum fjárhagslega með slíkum dugnaði. Hins vegar vildi hún standa sig vel, það var ríkt í henni að gera betur en aðrir, taka engu sem sjálfsögðum hlut. Hún vissi að hún var í góðu starfi þótt launin mættu vera betri, og var raunar reiðubúin að taka skref í átt að frekari frama innan rannsóknarlögreglunnar, vissi að á þeim vígstöðvum gæti farið að skapast tækifæri. (skáletrun og undirstrikun mín, bls. 40)

Tekið er fram að hún sé dugleg á fimm ólíka vegu áður en framvonir hennar eru tvíteknar.

Nokkru síðar er starfi hennar lýst en það er gert með því að segja sama hlutinn fimm sinnum aftur:

Starfið í lögreglunni var enginn dans á rósum, verkefnin krefjandi og stundum beinlínis erfið. Það var ekkert sem kalla mátti rútínudag í þessu starfi, hún mátti búast við hverju sem var þegar hún fór í vinnuna að morgni. (bls. 78)

Í upphafsatriðinu gefur einnig að líta annað stílbragð sem einkennandi er fyrir myndheim skáldsögunnar en það er að eigna persónum skammvinn tilfinningabrigði eða líkamleg viðbrögð, gjarnan kuldatengd: „það fór dálítill kuldahrollur um hann“.

Annars staðar: „Það var eitthvað óraunverulegt við þetta allt saman og aftur fór dálítill hrollur um Benedikt, örugglega út af þessum haustkulda.“ (bls. 26). Ákveðna atburði er ekki hægt að „hugsa um án þess að ískaldur hrollur [fari] um líkamann“ (bls. 105).

Ætlunin er að „kynda“ undir stemminguna í frásögninni en fjarlægir í staðinn lesandann, bæði vegna þess að endurtekningin er hvorki áhrifaaukandi né hugvekjandi sálfræði.

Tíu litlir negrastrákar

Í endurlitinu til 1987 fylgjast lesendur með pari í bústaðarferð. Fyrsta voðaverkið er framið í ferðinni; ung stúlka er myrt. Í samtíma sögunnar er farið í aðra ferð út fyrir borgina, til eyju í Vestmannaeyjum. Þangað heldur vinahópur til að minnast látinnar vinkonu sinnar.

Kemur þá í ljós að vinahópur þessi er konum og kvenkyns hópmeðlimum gríðar hættulegur því um helgina er Klara myrt. Þar sem enginn annar en þau var á eyjunni er hér um að ræða afbrigði af sakamálasögunni sem kennt er við „tíu myrt lítil fórnarlömb“ með tilvísun til skáldsögu Agöthu Christie, Ten Little Niggers (1939), en aðalatriðið í þessari tegund af frásögn er að morðinginn er alltaf hluti af sama hópi og fórnarlambið, og að svo sé verður öllum ljóst (lesandanum í öllu falli), sökum þess til dæmis að hópurinn er einangraður á eyju líkt og í upprunalegri skáldsögu Christie. Eyjusviðssetningin í Drunga vísar meðvitað til þessa ur–staðar frásagnarinnar.

Kaflarnir sem gerast í eyjunni eru brotnir upp með öðrum sem lýsa ferðalagi Huldu til Bandaríkjanna þar sem hún leitar föður síns. Ferðalagið ber hana alla leið til hinnar sögufrægu Suðurríkjaborgar Savannah í Georgíu-fylki. Í ljós kemur hins vegar að ferðalag Huldu átti sér stað mörgum mánuðum fyrir morðið í eyjunni, nokkuð sem er truflandi og afhjúpar hversu grunnt er á vinnunni við fléttuna og söguna. Ekkert réttlætir eða kallar eftir því að köflunum sem lýsa Ameríkuferðinni og helgarferðinni út í Eyjar sé blandað saman, og þematísku tengslin (ferðalag, dauði – föður sinn finnur Hulda í kirkjugarði) eru ekki sérlega vel heppnuð. Einsýnt er að hlutverk „kaflafléttunnar“ er einfaldlega að viðhalda hraða sögunnar og örum sjónarhornsskiptingunum, en fátt er jafn einkennandi fyrir byggingu verksins og sjónarhornsflakkið, og til þess virðist ekki hafa fundist betri leið en þessi þvingaða samvist ólíkra tímaplana.

Kemur þar aftur að sköpulagsgöllum verksins. Hin eilífa endurtekning hins sama vegur þar þyngst, enda jaðrar við að um frásagnarlega þrástöðu sé að ræða á köflum. Höfundur virðist til dæmis eiga í stökustu vandræðum með að draga upp mynd af innra lífi Huldu, og er þá leitað á náðir klifsins. Samband Huldu við móður sína var til að mynda flókið og gallað. Sambandið við móðurina er tekið upp þrisvar með það að leiðarljósi (að því er virðist) að ljá Huldu dýpt (bls. 81, 93, 191), án þess þó skilningur lesandans á sambandinu dýpki eða myndin af því taki breytingum. Í staðinn eru sömu upplýsingar lagðar við fætur lesenda í hvert sinn. Tilfinning um hugmyndalegt þrot skapast, fremur en dýpt.

Þrotabúskap af svipuðu tagi er að finna í heimsmynd textans, myndinni sem dregin er upp af áferð og formum og litum hins skynjaða heims. Ragnar er í vandræðum með að lýsa umhverfi og þá sérstaklega náttúru og því sem almennt sést utandyra. Þetta verður pínlegt í ferðalaginu í Vestmannaeyja. Aftur og aftur er lesanda tjáð að landslagið sé stórkostlegt, menn taki andköf. Þegar að því kemur að fanga skynheiminn hins vegar standa örnefni fyrir skrif, hlutir fyrir stíl. Örnefni og sérnöfn eru svo sértæk, ólíkt hugtökum, að þau skortir alfarið allan bókmenntaleika og notkun gengur því af hvaða skáldskap sem er dauðum, eins og gefur að líta hér:

Það var léttskýjað og báturinn tók vel við sér þegar frændi Benedikts gaf loksins almennilega í. „Þarna er Heimaklettur“. Hann benti til vinstri. „Og Miðklettur og Ystiklettur.“
[…]
„Þarna … sjáiði þið“, sagði Benni svo. „Þetta er Bjarnarey, og svo þessi, aðeins lengra í burtu, þetta Elliðaey, og sjálfur Eyjafjallajökull í bakgrunni“ (bls. 105)

Stundum er jafnframt sem rökfestu söguheimsins sé nokkuð ábótavant. Þessum hugsunum skýtur upp í kollinum á lögreglumanni árið 1987 í kjölfar líkfundarins í sumarbústaðnum: „Þrátt fyrir allt fékk þessi hrikalega aðkoma töluvert á Andrés, reynslumikinn manninn. Svona löguðu var ekki hægt að venjast.“ (bls. 49)

Tilvísunin til „reynslu“ Andrésar kallast á við það sem þegar hefur fram komið í skáldsögunni, sem er að hann sé aldursforsetinn meðal lögreglumannana á svæðinu. „Þrátt fyrir það“ fær líkfundurinn á hann, bendir söguhöfundur á, þrátt fyrir áratuga reynslu með öðrum orðum. Ljóst er hins vegar að Andrés hefur aldrei komið nálægt rannsókn á morði áður, hvað þá séð lík á vettvangi glæps, hvað þá jafn illa farið og þetta. Það eru því engar forsendur fyrir setningunni: „Svona löguðu var ekki hægt að venjast.“ Það kann að vera en á það hefur ekki reynt og fullyrðingin því markleysa. Þegar Andrés heldur nokkru síðar til Reykjavíkur veltur öll atburðarásin á því að hann birtist sem einföld sveitalögga, nær reynslulaus þegar að veröld undirheima og myrkraverka kemur, og því auðveld bráð fyrir mikið yngri lögreglufulltrúa í borginni, sem spilar með hann og kúgar. Þar með hrynur hin setningin: „Þrátt fyrir allt fékk þessi hrikalega aðkoma töluvert á Andrés, reynslumikinn manninn.“

„Andrés“ gengur ekki upp sem persóna, til þess eru þversagnir og rökvillur of augljósar. Persónusköpun Huldu er fórnað á altari þrástaglsins. Vinahópnum er skipt í tvennt. Ragnar má eiga það að hann leitast við að áskapa körlunum tveimur sæmilega samhangandi persónugerð (sem þýðir að klisjur eru strengdar saman þangað til snúran hefur náð mannslengd), en konurnar tvær eru ekki jafn gæfusamar, engin vinna er lögð í þær.

Skakki turninn í Písa

Skáldsagan sem heild er eins og skakki turninn í Písa, brestir við byggingu og gallar í grundvallarþáttum frásagnarinnar gera það að verkum að verkið verkið verður skakkt og dálítið bjagað. Mikill gangur er á íslensku sakamálasögunni hérlendis og erlendis, og útgáfusystir Ragnars hjá Veröld, Yrsa Sigurðardóttir, er þar ísbrjóturinn ásamt Arnaldi Indriðasyni. Af fréttatilkynningum að dæma er Ragnar í miðjum klíðum við að fylgja þeim eftir, það er í því ljósi sem ég segi hér að framan að það sé undarlegt hversu augljósir og alltumlykjandi sköpulagsgallarnir við bókina eru. En vel kann að vera að bókinni gangi vel og vonandi á Ragnar í vændum langan feril. Það veitir heldur ekki af.

¹ Björn Þór Vilhjálmsson, „Heimsmynd í upplausn. Íslenska sakamálasagan, fjölmenningarsamfélagið og Vetrarsól eftir Auði Jónsdóttur.“ Tímarit Máls og menningar, 4/2009.

² Linda Williams, „Líkamar kvikmyndanna. Kyn, grein, ofgnótt“, þýð. Guðrún Elsa Bragadóttir, Ritið, 2/2016.

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila