Gildin og fjölmenningin

Nú eins og ætíð er framtíðin óræð. Þó eru nokkur fyrirbæri í samtímanum sem munu fylgja okkur eins og skuggar fram á veginn. Eitt er áframhaldandi fólksfjölgun ekki síst í þeim heimshlutum sem standa höllustum fæti. Annað er loftslagsváin sem gera mun mörg svæði enn harbýlli en þau eru nú og þar með þrengja að búsetuskilyrði fólks. Þrátt fyrir Parísarsamkomulagið og önnur viðbrögð alþjóðasamfélagsins er alls óvíst að okkur muni takast að halda hlýnun jarðar innan lífsnauðsynlegra marka. Þá eru allar líkur á að sú gríðarlega misskipting eigna og lífsgæða sem okkur er nú stöðugt að verða augljósari muni halda áfram að aukast. Þessi þrenning — fólksfjölgun, loftslagsbreytingar og misskipting jarðargæða — mun augljóslega hafa í för með sér fjórða fyrirbærið: fólks- ef ekki þjóðflutninga sem þegar eru teknir að gera vart við sig í flóttamannastaumi til Vesturlanda, forréttindasvæðis heimskringlunnar.

Viðbrögð strax!

Af þessari framtíðarsýn getum við dregið þá einu ályktun að ekki eru friðsamir tímar framundan. Ef ekki á illa að fara verðum við sem best erum sett og berum því mesta ábyrgð á lausn vandans að bregðast við þegar í stað.

Í því efni getum við því miður ekki litið til helstu stórvelda heims og leiðtoga þeirra. Þeir munu ekki leysa vandann. Vissulega skiptir máli hvort þeir eru af týpunni Trump eða Obama og Merkel. Það er þó ljóst að stjórnmálamenn munu ekki leysa úr þeim stóru úrlausnarefnum sem mannkyn stendur frammi fyrir og ekki þola nokkra bið ef við viljum tryggja sameiginlega framtíð okkar, jarðarbúa.

Hvort sem um er að ræða leiðtoga á heimsvísu eða okkar eigin stjórnmálastétt er það fólk bundið af allt of mörgum hagsmunum sem trufla það við lausn stóru vandamálanna. Þar munar mest um hugsmuni þeirra eigin ríkja, hvort sem þau eru stór eða smá; þær væntingar sem stjórnmálamenn stýrast af og beinast helst að því að þeir tryggi  hagvöxt og auki hagsæld umbjóðenda sinna. Svo koma allir persónulegu hagsmunir stjórnmálamannsins. Hann/hún þarf að ganga í augu kjósenda og tryggja sér áframhaldandi sæti á þingi eða ráðherrabekk. Svo las ég einhvers staðar þá sláandi fulyrðingu að enginn trygging sé fyrir að hugsjónir þrífist innan stjórnmálaflokka frekar en trú innan kirkna og trúfélaga. En það þarf stórar hugsjónir til að draga úr misskiptingu lífsgæða eða vinna gegn loftslagsvánni á kostnað hagvaxtar.

Við verðum sem sé að bregðast við sjálf, fótgöngurliðar allra landa. Og við verðum að bregðast við strax.

Friðsamleg sambúð

En hvað getum við gert, almennir kjósendur sem lítt geta látið að sér kveða milli kosninga á fjögurra ára fresti?

Jú, öllu getum við unnið að slökun spennu og friðsamlegri sambúð í nánast umhverfi okkar. Ef við berum gæfu til þess hvert og eitt mun það sannarlega breyta ástandi heimsmála á varanlegri og dýpri hátt en stjórnmálamönnum er mögulegt.

Við skulum þó horfast í augu við að þetta verður ekki gert án fórna sem eru þungbærar að margra mati. Við Íslendingar verðum t.d. að horfast í augu við að ef við viljum leggja okkar af mörkum verðum við að gefa einsleitt og hefðbundið samfélag okkar upp á bátinn. Við verðum að viðurkenna að fjölmenning er eina leiðin fram á við. Einangrunar- og þjóðhyggja magnar einfaldlega spennu hvort sem hún er opin og ágeng eða þögul og þumbaraleg.

Umræða um gildi

Frammi fyrir þeirri hraðvaxandi fjölhyggju sem bíður handan við hornið hefur sprottið upp nokkur umræða um gildi okkar á meðal og það er vel. Við Íslendingar höfum verið allt of rög við að ræða gildi, gildismat og gildagrunn samfélags okkar. Hugsanlega er þetta að breytast.

Mörgum hefur verið tíðrætt um að í fjölhyggjunni beri okkur að halda fast við kristin gildi. Síst ætla ég að hafna því viðhorfi en við hvað er eiginlega átt? Sé átt við þau gildi sem rekja má beint til Krists einkennast þau öðru fremur af hógværð, gæsku, góðvild, kærleika, sáttfýsi og miskunnsemi. Kristur ætlaðist til þess að fylgjendur sínir byðu hinn vangann væru þeir slegnir og deildu eigum sínum réttlátlega með öðrum ættu þeir eitthvað á annað borð, t.d. tvo frakka!

Varla getur verið átt við þetta þegar við erum hvött til að mæta t.d. múslimskum hælisleitendum með kristin gildi að leiðarljósi. Af þjóðmálaumræðunni höfum við fyrir löngu lært að þetta er allt saman fáránlegur barnaskapur ekki síst þegar umræðan snýst um fjölhyggju!

Líklega er okkur hollast að spara allar tilvísanir til kristinna gilda og halda okkur bara við gildin sem stjórnarskrá okkar endurspeglar hvort sem þau geta svo kallast sérstaklega kristin eða eitthvað allt annað.

Jöfnuður og frelsi

Við endurskoðun á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar 1995 var svokölluð jafnræðisregla leidd til öndvegis sem upphafsgrein (65. gr.) kaflans um mannréttindi:

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.[1]

Þetta á ekki aðeins við „Íslendinga“ heldur einnig „útlendinga“ óháð uppruna þar á meðal múslima. Færa má rök að því að horft hafi verið framhjá þessari reglu og hún þar með brotin á undanförnum árum. Á það má benda að í óeðlilega langan tíma hefur vafist fyrir yfirvöldum að finna lóð fyrir mosku múslima og þvælst hefur verið fyrir í umræðunni í hvert skipti sem hyllt hefur undir ákvörðun. Á sama tíma virðist hafa gengið greiðlega að úthluta lóð til nýrrar kristinnar kirkjudeildar í landinu, þ.e. rússnensku rétttrúnaðarkirkjunnar.

Hér skal enginn steinn lagður í götu rétttrúnaðarkirkjunnar. Þverstæðan vekur aðeins grun um að jafnræðis hafi ekki verið gætt milli þessara tveggja samfélaga nýbúa í landinu. Hugsanlega álítur einhver að það hafi verið gert á grundvelli kristinna gilda. Ég dreg hins vegar stórlega í efa að þessi ólíka málsmeðferð sé sérstaklega kristileg.

Í stjórnarskránni stendur einnig (63. gr.): „Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins […]“, sem og (64. ): „Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragað sinna […]“. Þetta á einnig við um múslima sem hvað mest eiga undir högg að sækja í umræðunni hér. Þeir hafa sama rétt hér á landi og við hin til að stofna trúfélög, iðka trú sína í samræmi við eigin sannfæringu án þess að réttindi þeirra séu skert. Þetta frelsi sjáum við í framkvæmd í nálægum löndum þar sem múlimar hafa t.d. verið kjörnir á þing.

Þegar hafa tvenn trúarsamtök múslima fengið skráningu hér samkvæmt lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Það er líka alls óvíst að nokkur brot á þessum ákvæðum hafi enn átt hér stað. Líklegt er samt að mörgum múslimum finnist með réttu að sér þrengt í ýmsum réttindamálum þótt ekki sé um brot á stjórnarskrá og lögum að ræða. Staða minnihlutahópa í samtoga samfélögum er þó alltaf viðkvæm. Því ber að standa sérstakan vörðu um réttindi þeirra.

Ábyrgð

Trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar fela þó líka í sér ákveðnar frelsisskerðingar sem fremur ber þó að líta á sem kröfu um ábyrgð, sanngirni og meðalhóf.[2]

Um leið og öllum er tryggður réttur til að iðka trú sína í samræmi við eigin sannfræringur er þessi réttur takmarkaður á þennan hátt (63.): „Þó má ekkert kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.“ Nú kann einhverjum að virðast „gott siðferði“ og „allsherjarregla“ ansi loðin og teygjanleg fyrirbæri. Svo er þó ekki. Það er heldur ekki svo að geðþóttaákvarðanir eða almenningsálit eigi að ráða ferðinni í þessu efni.

Þessu ákvæði verður aðeins beitt með aðferðum réttarríkisins. Ef grunur vaknar um að einhver hafi brotið gegn góðu siðferði og allsherjarreglu  verður sem sé að sýna fram á að einhver lög íslenska ríkisins hafi verið brotin og útkljá málið fyrir dómi. Sannist að einhver trúarleg samtök hvetji félaga sína til að brjóta gegn lögum landsins er á grundvelli stjórnarskráákvæðisins mögulegt að afturkalla réttindi þeirra og banna starfsemina ef þurfa þykir.

Trúfrelsið er einnig takmarkað með því móti að þegar því hefur verið slegið föstu að enginn megi neins í missa af réttindum sínum vegna trúarbragða sinna er sagt (64. gr.): „[…] né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu.“ Þetta er gamalt ákvæði eins og stofninn í stjórnarskrá okkar og í nútímanum er ekki margt sem telst falla undir almenna þegnskyldu í þröngum skilningi. E.t.v. má líta svo á að ákvæðið skyldi okkur til að taka eðlilegan þátt í samfélaginu, breyta samkvæmt lögum, hlýða yfirvöldum eftir því sem eðlilegt er í lýðræðissamfélagi og vera almennt ábyrgir þjóðfélagsþegnar. Í þessu efni þyrfti svo auðvitað að beita aðferðum réttarríkins ef sækja ætti einhvern til sakar í þessu efni.

Er ekki allt í lagi?

Ákvæðin sem hér voru rakin virðast leggja góðan grunn undir frjálslegan trúmálarétt í nútímalegu fjölhyggjusamfélagi. Þau skapa minnihlutahópum með rætur í menningu og trú sem um margt er ólík „okkar“ gott svigrúm í samfélaginu. Um leið skapa þau grunn til að kalla einstaklinga og hópa til ábyrgðar og setja þeim skorður ef þörf er á. Í vaxandi fjölhyggju ættum við að setja traust okkar á þessa öryggisloka réttarríkisins. Yfirvöld ættu líka að vera óhrædd að beita þeim ef rökstuddur grunur vaknar um brot gegn íslenskum lögum af trúarástæðum.

Á hinn bóginn ættum við að slappa af og gera okkur grein fyrir að ekkert í stjórnarskrá okkar eða lögum né heldur í íslenskum eða kristnum gildum krefst þess að við klæðumst öll eins, lítum öll eins út og göngum öll í takt t.d. í trúarefnum. Ef við ætlum að vinna að slökun spennu og friðsamlegri sambúð þurfum við að gera okkur grein fyrir hvað það raunverulega er sem við verðum að vera á varðbergi gagnvart og hvað fer bara í taugarnar á okkur sem einstaklingum eða hópum, pirrar okkur, ógnar eða beinlínis hræðir. — Slíkar tilfinningar og/eða fordómar mega aldrei verða til að hefta trúfrelsi eða önnur borgaraleg réttindi fólks af hvaða uppruna sem það kann að vera.[line]

[1] Hér og annars staðar þar sem vísað er til stjórnarskrár: Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 1944 nr. 33 17. júní, althingi.is, 20. janúar 2017,  sótt 1. febrúrar 2017 af http://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html

[2] Frelsi og ábyrgð hlýtur ávallt að haldast í hendur. Flestum finnst eflaust sjálfsagt að trúfrelsi sé takmarkað líkt og raun er á hér. Margir eiga hins vegar örðugt með að sætta sig við að frelsi á ýmsum örðum sviðum þurfi einnig takmörkunar við. Það á t.d. við um tjáningarfrelsi sem auðvelt er að beita þannig að aðrir skaðist.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila