Á Pappír
Hönnunarsafn Íslands
Sýningarnefnd: Ástríður Magnúsdóttir, Harpa Þórsdóttir og Þóra Sigurbjörnsdóttir
Sýningarhönnun: Helgi Már Kristinsson
19.11.2016 – 5.3.2017
Á Hönnunarsafni Íslands í Garðabænum stendur nú yfir sýningin Á pappír. Sýningin er frumleg og sterk sjónrænt séð, umgjörðin er litsterk og litavalið óvenjulegt. Hringformið er óspart notað auk frumlegra gólfstatífa sem hýsa teikningar af ýmsu tagi. Rýmið er einn stór grófur kassi og því hægt að ganga um sýninguna og milli mismunandi verka, teikninga og skissa að vild. Hringformið rammar inn upplýsingar um hvern myndhöfund fyrir sig auk annarra mikilvægra upplýsinga. Helgi Már Kristinsson (f. 1973) á hrós skilið fyrir sýningarhönnunina.

Helgi Már útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2002 og hefur síðan þá tekið þátt í einka- og samsýningum. Í verkum sínum hefur hann gert ýmsar tilraunir með línur og liti sem víkka út frá málverkunum og teygja sig út í rýmið; eins konar Mondrian rammar sem leysast upp og teygja slönguanga í allar áttið. Rýmið er sannarlega orðið viðfangsefni Helga hér á sýningunni og nýtir hann þekkingu sína á formi og litum á glæsilegan máta til að skapa listrænt rými sem spennandi er að ganga inn í og upplifa. Sjónrænt er sýningin mun sterkari en hugmyndafræðilega og þess virði að sjá þó ekki væri nema fyrir þessa glæsilegu umgjörð.

Rýmið er sannarlega orðið viðfangsefni Helga hér á sýningunni og nýtir hann þekkingu sína á formi og litum á glæsilegan máta til að skapa listrænt rými sem spennandi er að ganga inn í og upplifa.
Titill sýningarinnar er heldur lakari. Hvernig þætti okkur til dæmis að fara á málverkasýningu sem héti Á striga? Að minnsta kosti ekki sérlega frumlegt. Vissulega eru verkin unnin á pappír og margt áhugavert er að sjá á sýningunni. Ýmiss konar teikningar úr safneign safnsins eru til sýnis auk verka úr einkasöfnum. Hér eru verk af margs konar tagi svo sem auglýsingar, umbúðir, bókakápur, teikningar tengdar hönnun rýmis og húsgagna.

Kynntir eru til sögunnar ýmsir hönnuðir og listamenn, á hefðbundinn hátt, einn í einu og hver fær sinn bás í aðalatriðum; við fáum tækifæri til að kynnast ýmsum verkum sérhvers þeirra. Um er að ræða verk eftir Jónas Sólmundsson (1905-1983), Jón Kristinsson eða Jónda  (1925-2009), Kristínu Þorkelsdóttur (1936), Lothar Grund (1923-1995), Stefán Jónsson (1913-1989) og Sverri Haraldsson (1930-1985). Textar á sýningunni eru skýrir og skilmerkilegir og gefa umtalsverðar upplýsingar um hvern hönnuð.

Hægt er að glöggva sig á ýmsum útfærslum og upprunalegum hugmyndum að anddyri Hótel Sögu sem er staðsett í vesturbæ Reykjavíkur. Um litríkar teikningar er að ræða af rýminu eftir Lothar Grund.

Áhugavert að er að sjá auglýsingar frá tímum löngu fyrir tíð Photoshop í verkum eftir Kristínu Þorkelsdóttur. Margar auglýsingar voru unnar fyrir rými á Laugavegi 28b sem hýsti mismunandi starfsemi í gegnum tíðina s.s. veitingahús og bíó. Þar er nú, eins og fram kemur á sýningunni, til húsa skemmtistaðurinn Boston og fataverslunin Spútnik.

Mjólkursamsalan kemur við sögu á sýningunni því hér má sjá mismunandi útfærslur af merki samsölunnar og skammstöfuninni MS í litríkum og stílíseruðum teikningum eftir Sverrir Haraldsson. Að auki vann Sverrir að tillögum að útliti bílanna hjá MS og má sjá teikningar sem sýna hinar ýmsu útgáfur sem Sverir vann að í þeim efnum. Litatillögur fyrir bílana voru síðar notaðar hjá MS en þó í dempaðri litum.

Rafskinna var æsispennandi sjálfflettandi auglýsingatæki sem Jón Kristinsson eða Jóndi hannaði auglýsingar fyrir. Um flettibók var að ræða í búðarglugga í miðbæ Reykjavíkur, nánar tiltekið í verslun að nafni Haraldsbúð sem staðsett var í Austurstræti við hlið Hressingarskálans, eða Hressó. Skiltið var í notkun frá 1935-1957. Á sýningunni má sjá ýmsar af hans auglýsingum.

Til sýnis eru ýmsar teikningar eftir Jónas Sólmundsson sem hann teiknaði á námsárum sínum. Jónas var húsgagnasmiður sem hélt til frekar náms í faginu í Þýskalandi og má sjá teikningar sem endurspegla þau öguðu vinnubrögð sem hann lærði þar.

Til að komast að sýningunni Á Pappír þurfum við fyrst að ganga inn í gegnum aðra sýningu sem nú stendur yfir á Hönnunarsafninu sem nefnist Geymilegir hlutir. Sú sýning stendur lengur eða fram til 4. júní og er gjörólík sýningunni Á Pappír; mun hefðbundnari ef svo mætti segja. Að auki göngum við framhjá örlítilli keramiksýningu sem virkar sem millistykki milli sýninganna eða tengir þær saman. Um er að ræða keramiksafn Önnu Eyjólfsdóttur sem er stærsta einkasafn íslenskra keramikmuna með rúmlega þúsund muni sem safnað hefur verið undanfarin 35 ár.  Þessar þrjár sýningar eru allar gjörólíkar að formi og stíl, innihaldi og upplifun. Þessi litla keramiksýning er í hefðbundum white cube: hvítir veggir og hvítir stöpplar sem halda uppi hinum mismunandi gripum.

Einkennandi upplifun í öllu safninu er þyngsl rýmisins, gluggaleysi, ferköntuð steypurými með grófu gólfi.
Einkennandi upplifun í öllu safninu er þyngsl rýmisins, gluggaleysi, ferköntuð steypurými með grófu gólfi. Eitt leiðir af öðru, við þurfum að ganga gegnum allar sýningarnar til að geta séð sýninguna Á Pappír eins og við værum stödd í IKEA völundarhúsi. Öll lýsing er, eins og gefur að skilja, eingöngu rafræns eðlis og engin dagsbirta í boði. Lýsing sýningarinnar Á Pappír er vel hönnuð og fær hér einnig hringformið aftur að njóta sín með sterkum kösturum sem kasta geislabaugum utan um hringlaga ferilskrár- og upplýsingakúlurnar á veggjunum og gólfstatífunum. Flott sýning og spennandi viðfangsefni.

Sýningarskrá er engin en gestir geta lesið sér til um verkin á veggjunum auk þess að sækja sér upplýsingar á heimasíðu safnsins.

Sýningin stendur til 5. mars og er opin alla daga, nema mánudaga, frá kl. 12 til 17.

Um höfundinn
Hulda Hlín Magnúsdóttir

Hulda Hlín Magnúsdóttir

Hulda Hlín er listmálari og listfræðingur. Hún útskrifaðist með MA gráðu í listfræði frá Háskólanum í Bologna árið 2006 en hafði áður lokið námi í málaralist í Listaakademíu Rómar. Hulda Hlín hefur haldið einkasýningar, annast sýningarstjórn og tekið þátt í samsýningum auk þess að fást við ritstörf á sviði myndlistar. Meginrannsóknarsvið Huldu Hlínar er merkingarfræði hins sjónræna með áherslu á liti. Sjá nánar

[fblike]

Deila