Flókið hlutskipti þríleiksmiðjubarns

Lilja Sigurðardóttir
Netið
JPV 2016
Netið, nýjasta spennusagan úr smiðju Lilju Sigurðardóttur, er stjörnum prýdd bók og kápan skartar fjölmörgum lofsamlegum ummælum, ekki þó um bókina sjálfa heldur systur hennar, Gildruna, sem kom út fyrir jólin í fyrra. Gildran sló í gegn, fékk góða dóma og nú er búið að selja réttinn til að kvikmynda hana og þýða á nokkur tungumál. Væntingarnar sem nú eru gerðar til miðjubarnsins í þrenningunni, Netsins, eru því óhjákvæmilega þónokkrar.

Í Netinu er áfram haldið sögunni af Sonju sem er föst í flóknu og stórhættulegu neti kókaínsmyglara en þráir ekkert heitar en að losna úr viðjum þess og lifa friðsamlegu og öruggu lífi með syninum Tómasi, án afskipta Adams, kókaínsala og föður Tómasar. Í þessari bók æsast leikar, Sonja kynnist fólki sem er talsvert ofar en hún í stigveldi dópsöluheimsins, tekur þátt í atburðarás sem teygir sig frá Reykjavík til Grænlands, London og alla leið til Mexíkó og lendir í mun alvarlegri lífshættu en í fyrri bókinni. Sonja er ekki siðlaus glæpon heldur kemur hún lesandanum fyrir sjónir sem töffari en fyrst og fremst dálítið óheppin – allan tímann er það ástin á Tómasi og von um framtíð utan smyglhringsins sem rekur hana áfram en ekki græðgi eða valdafíkn.

Sonja er ekki siðlaus glæpon heldur kemur hún lesandanum fyrir sjónir sem töffari en fyrst og fremst dálítið óheppin
Hin meginatburðarás þríleiksins hverfist um bankakrimmann Öglu, sem einnig er ástkona Sonju og samstarfskona Adams. Lesandinn kynnist Öglu betur í Netinu en fyrri bókinni og þær glæpsamlegu fléttur og brask með millifærslur og peningaþvott sem hún og félagar hennar bera ábyrgð á fá mun meira rými en áður. Skyggnst er aftur í tímann og gefið í skyn að ástæðurnar fyrir siðleysi Öglu megi rekja til æsku hennar, aðstæðna og uppeldis en ólíkt Sonju er Agla nefnilega harðsvíruð og sjálfráð í sinni glæpastarfsemi. Hún er í rauninni aðalglæponinn í sögunni – fullkomlega siðlaus þegar kemur að peningum og þeirri ábyrgð sem hún ber á fjármálahruninu og ýmiss konar spillingu. Bókin tekur þó ekki á neinum neikvæðum afleiðingum gjörða hennar og það verður ekki annað sagt en höfundurinn fari um hana fremur mjúkum höndum – jafnvel of mjúkum. Hvað gerist í lokakafla þríleiksins verður forvitnilegt að sjá en ég leyfi mér að vona að Agla muni líta í eigin barm.

Netið er æsispennandi bók, fyrst og fremst vegna þess að atburðarásin er hröð og spennan hefst strax á fyrstu síðum bókarinnar, kaflarnir eru stuttir og oft er skipt um sjónarhorn svo lesandanum leiðist aldrei. Lilja hefur náð gríðargóðu valdi á þessari flettitryllitækni sem gerir lesendur svo lesfúsa að þeir leggja bókina helst ekki frá sér nema þeir séu píndir til þess.

Lilja hefur náð gríðargóðu valdi á þessari flettitryllitækni sem gerir lesendur svo lesfúsa að þeir leggja bókina helst ekki frá sér nema þeir séu píndir til þess.
Vissulega er ýmislegt við bæði kókaín- og bankaheiminn sem er leikmönnum framandi og margt sem gerist, sérstaklega í samskiptum Sonju við erlenda dópkónga og -drottningar, jaðrar við að vera ótrúverðugt – en samt ekki. Líkt og við lestur Gildrunnar gekkst ég inn á forsendur bókarinnar, trúði þeim og leyfði sögunni að gleypa mig og ég held að aðrir lesendur ættu ekki að vera í vandræðum með það heldur. Spennu- og glæpasögur hafa enda leyfi til að nýta sér ákveðna þætti sem kalla mætti fantasíuelement; það þarf ekki endilega allt að vera fullkomlega „eins og í raunveruleikanum“ ef það gengur upp innan söguheimsins og þjónar atburðarásinni.

Samband Sonju og Öglu var það sem vakti helst athygli mína við lestur Gildrunnar og ég var töluvert spennt að sjá hvernig það myndi þróast, ekki síst af því að lesbísk pör eru álíka sjaldgæf sjón í íslenskum skáldsögum og hvítir hrafnar í raunheimum.

Lesbísk pör eru álíka sjaldgæf sjón í íslenskum skáldsögum og hvítir hrafnar í raunheimum.
Í Netinu fær Agla meira pláss en Sonja fjarlægist hins vegar lesandann og að sama skapi birtist samband þeirra lesandanum fyrst og fremst sem samband Öglu við Sonju en ekki öfugt. Þetta er flókið samband af ýmsum ástæðum, ekki síst vegna þess að báðar glíma þær við erfið „vinnutengd“ mál (glæpi) og þær ræða þessi mál ekki sín á milli. Agla á líka erfitt með að horfast í augu við kynhneigð sína og þráast við að viðurkenna fyrir sjálfri sér og öðrum að hún elski konu. Sonja er sátt við sína lesbísku sjálfsmynd en það sem hamlar því að hún geti tekið fullan þátt í sambandinu er að hún setur þarfir og öryggi Tómasar ávallt í fyrsta sæti. Þetta samband er jójó – haltu mér–slepptu mér – sem er í sjálfu sér áhugavert en ég sakna tilfinningalegrar dýptar og þess að átökin, tilfinningarnar og sagan þar á bak við nái til lesandans. Til dæmis hefði verið mun áhugaverðara að fá að skyggnast inn í hugarheim persónanna eða samtöl þeirra um tilfinningar og dýnamíkina sem þær upplifa í lesbísku ástarsambandi en að fylgjast með þeim kasta á milli sín þreyttum bröndurum um „hvor sé kallinn“ í sambandinu. Ég varð með öðrum orðum fyrir vonbrigðum með samband Öglu og Sonju í Netinu, náði litlum tengslum við það og skildi ekki stöðu þess í lok bókar, sérstaklega ekki hlið Sonju.

Eins og mörg önnur miðjubörn fellur Netið dálítið í skuggann af elsta systkininu, enda voru væntingarnar sem Gildran skapaði miklar. Engu að síður er löngu viðurkennt að hlutverk miðjubarna er vanmetið og hlutskipti þeirra ósanngjarnt, kannski ekki síst þar sem þau gegna mikilvægu hlutverki við að halda samskiptum innan fjölskyldunnar gangandi. Ég bind að sama skapi vonir við að þríleikur Lilju verði sterk heild og jafnvel komi í ljós að þræðir úr Netinu, sem kannski virðast skrýtnir eða tilgangslausir núna, þjóni mikilvægu hlutverki þegar upp er staðið. Það verður sérstaklega spennandi að sjá hvernig unnið verður með persónurnar, til dæmis það þegar Sonja og Agla komast að því hvers konar glæpi hin hefur framið og sættast við það (eða ekki), og vitanlega vonast ég til að síðasta bindið kafi dýpra í ástir þeirra, tilfinningalíf og dýnamík sambandsins. Þetta má auðvitað ekki vera á kostnað æsilegrar atburðarásar en á henni hefur Lilja náð svo góðum tökum að ég kvíði engu hvað það varðar.

Um höfundinn
Ásta Kristín Benediktsdóttir

Ásta Kristín Benediktsdóttir

Ásta Kristín Benediktsdóttir er íslenskufræðingur og doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands og University College Dublin. Hún sinnir einnig stundakennslu og landvörslu þegar svo ber undir. Doktorsverkefni hennar fjallar um samkynja ástir í verkum eftir Elías Mar. Sjá nánar

[fblike]

Deila