Óttinn við lífið

David Bowie og Enda Walsh
Lazarus
King‘s Cross leikhúsið, Lundúnum
Dauðinn er öllum mönnum skelfilegust ógna og um leið sú óumflýjanlegasta. Það er þó munur á vissunni um dauðann og vitneskjunni um að hann sé handan við hornið.

Þekkt er að menn bregðast við þeim tíðindum með mismunandi hætti og sumir róa að því öllum árum að ljúka ýmsu sem þeim finnst ólokið þegar tíðindin vondu koma. David Bowie vissi að stutt væri eftir hjá honum þegar hann vann að einu af sínum síðustu verkum, söngleiknum Lazarus sem frumsýndur var í New York 7. desember 2015, rétt rúmum mánuði áður en hann lést. Hann kom fram í síðasta sinn opinberlega á þessari frumsýningu, þá orðinn mjög lasinn og lést hann 10. janúar 2016, tveimur dögum eftir að svanasöngurinn, Blackstar, kom út á 69. afmælisdegi hans.

Vitneskjan um dauðann í fordyrinu var því áreiðanlega einn af drifkröftum þessa söngleiks sem sannarlega sker sig úr því formi sem venjulega snýst um jarðneskari hluti.
Titilinn á söngleiknum mætti þá kannski túlka sem viðspyrnu gegn yfirvofandi dauða, eða ótta við dauðann, óskina um að lifa að eilífu. Það er þó líkast til ekki rétt. Sennilega hefur Bowie verið að velta þessu verki lengur fyrir sér ef marka má framleiðandann, Robert Fox, í leikskránni þar sem hann lýsir gerjunartíma þess. Á hinn bóginn var verkið að mestu unnið á síðustu 18 ævimánuðum Bowies, eftir að hann vissi af sjúkdómi sínum, svo að dauðinn hefur sannarlega vakað yfir hverju skrefi sem tekið var. Vitneskjan um dauðann í fordyrinu var því áreiðanlega einn af drifkröftum þessa söngleiks sem sannarlega sker sig úr því formi sem venjulega snýst um jarðneskari hluti. Meðhöfundur Bowies, leikskáldið og líbrettistinn Enda Walsh bendir einnig á að titillinn sæki nafn sitt ekkert síður til skáldkonunnar Emmu Lazarus en þeirra tveggja Lasarusa sem frá segir í Nýja testamentinu. Annar þeirra var sá sem Jesú lífgaði frá dauðum, en hinn var fátæki maðurinn í líkingunni um ríka manninn og þann snauða. Á sinn hátt tengist verkið þessu öllu; frægast ljóða Emmu Lazarus er sonnettan „The New Colossus“ um innflytjandann sem grafin er á undirstöðu Frelsisstyttunnar við New York; Lasarus hinn snauði er bókstafleg táknmynd fátæklingins í brauðmolahagkerfi okkar tíma og fyrirheit um betra líf; og Lasarus hinn upprisni stendur fyrir vonina um að lifa þrátt fyrir dauðann.

Mynd fengin að láni hér.
Kápa fyrstu útgáfu bókarinnar. Mynd fengin að láni hér.

Lazarus kom til Lundúna frá New York nú á haustdögum og hefur fengið misjafna dóma enda margir góðu vanir þar. En þó verður að segjast að hugsanlega hafi margir látið blindast af frægð Bowies með öfugum formerkjum og lítið leitað að merkingu í verkinu sjálfu, sem vel má finna; nöldur um söguþráð og annað í þá veruna ber vitni um slíkt. Fáir ræða til dæmis hversu þvert á söngleikjahefðina verkið er, sem mér fannst strax áhugavert, alveg óháð öðrum þáttum. Vissulega má finna einhverja byggingargalla hér og þar, sem vísast má rekja til þess að laga þarf leiktextann að áður sömdum lagatextum og kannski of mikilli leit að átökum fyrir söguþráð og táknum fyrir samtímann. En söguþráðurinn margræddi er tiltölulega einfaldur og byggir á vísindaskáldsögu Walters Tevis um manninn sem féll til jarðar sem Nicholas Roeg gerði að kvikmynd með David Bowie í aðalhlutverki.

Upphaflega sagan snýst um geimveru í mannsmynd, Thomas Jerome Newton, sem kemur til jarðar í leit að plánetu fyrir örfáa eftirlifendur á annarri plánetu þar sem mikill þurrkur ríkir eftir kjarnorkustríð og ógnar lífi íbúanna. Tæknileg yfirburðaþekking hans gerir honum kleift að verða forríkur og hann stefnir allan tímann á að snúa aftur til fjölskyldu sinnar með því að byggja sér geimskip til fararinnar. En yfirvöld eru tortryggin og loka hann inni og blinda hann með röntgenrannsóknum og það er útilokað fyrir hann að snúa aftur eftir það. Kvikmyndin breytir söguþræðinum aðeins, hugmyndin þar er að Newton nái í vatn og hann blindast ekki beinlínis, heldur verður hann drykkjuskap að bráð eftir að vonir hans um heimför eru brostnar. Inn í söguna blandast síðan samband hans við einfalda, jarðneska stúlku, (Mary Lou í kvikmyndinni) sem er eins konar tengiliður hans við jarðarbúa og siði þeirra og verður að lokum ást sinni á honum að bráð.

Hann er því að mörgu leyti andstæða við Lasarus Jóhannesarguðspjalls, hann getur ekki dáið og þráir það í örvæntingu sinni …
Lazarus tekur upp þráðinn úr kvikmyndinni 40 árum síðar, þar sem Newton situr fastur í sínu jarðneska fangelsi, og eldist ekki, hann getur ekki dáið og hann kemst ekki aftur til sinna; hann húkir í íbúð sinni og drekkur sig fullan af gini alla daga. Hann er því að mörgu leyti andstæða við Lasarus Jóhannesarguðspjalls, hann getur ekki dáið og þráir það í örvæntingu sinni, rétt eins og ríki maðurinn í Lúkasarguðspjalli þráði að komast í faðm Abrahams úr vítiskvölum. Önnur kona er komin í líf hans, Elly (sem stendur að hluta fyrir Emmu Lazarus að sögn annars höfunda), og annast hún hann eftir bestu getu og verður hrifnari af honum eftir því sem á líður, sem sést á því að hún leitast smám saman við að ummynda sig í Mary Lou. Stúlkan í draumum Newtons er óræðari persóna sem stendur fyrir þrá hans til að lifa, lifa annars staðar, og komast til sinna nánustu sem eru líkast til löngu dánir úr þurrki, önnur íronía í heimi þess drykkjumanns sem hann er.

Ljósmynd: Skjáskot úr kynningarmyndbandi.
Ljósmynd: Skjáskot úr kynningarmyndbandi.

Uppsetningin á söngleiknum í King‘s Cross er einföld og naumhyggjuleg, eitt rúm, einn ísskápur á sitt hvorum vængnum, einn stór skjár fyrir miðju, og hljómsveitin á bak við glerskilrúm beggja vegna við hann. Michael C. Hall, sem leikur Newton, er á sviðinu allan tímann, er þar raunar þegar áhorfendur koma inn í salinn, og hann ber verkið uppi, hlutverksins og frammistöðunnar vegna. Verandi frægur sjónvarpsþáttaleikari kemur hann með tiltekinn „árubónus“, en hann sýnir að hann stendur undir því sem leikari og raunar sem söngvari líka. Rödd hans er ekkert ólík rödd Bowies, en hann reynir vitanlega ekki að herma eftir honum og reyndar eru útsetningar laganna frægu töluvert ólíkar frumútgáfunum, svo að jafnvel gamall aðdáandi eins og ég þekkti þau ekki alltaf þegar í stað.

Ljósmynd: Skjáskot úr kynningarmyndbandi.
Ljósmynd: Skjáskot úr kynningarmyndbandi.
Það er hálfvandræðalegt þegar leikarar eru eitthvað að sýna sig bera að þeir geri það eins og feimið fólk í almenningssundlaug.
Leikkonurnar tvær Amy Lennox (Elly) og Sophia Anne Caruso (Stúlka) standa sig einnig vel í fremur óræðum hlutverkum sem gefur þeim nokkur tækifæri til túlkunar, einkum þó þeirri síðarnefndu. Lennox þarf að reyndar að takast á við dálítið klisjukenna innri baráttu um ást sína á tveimur karlmönnum og það verður svolítið snúið þegar hún þarf að vera „sexí“ og hálfhátta sig á sviðinu; þetta er kannski frekar vandamál í hinni bresk-bandarísku hefð, en það er hálfvandræðalegt þegar leikarar eru eitthvað að sýna sig bera að þeir geri það eins og feimið fólk í almenningssundlaug. Leikstjórar gerðu betur að sleppa þessum vandræðalegu vísunum til nektar ef hún skiptir ekki meira máli en þetta. Aðrir leikarar komast vel frá sínu, ekki síst Michael Esper (Valentine) sem þó er að leika hlutverk sem er dálítið eins og til að fylla upp í mismunandi þarfir eins og áður var bent á (átök, aðlögun að textum).

Vel má lesa a.m.k. tvær allegoríur í þessu verki, fyrir utan þær dæmisögur sem vísað er til með titlinum, en sú fyrri snýst greinilega um örlög hins heimalausa innflytjanda; þar kemur tengingin við Emmu Lazarus, en Newton er „the most travelled of immigrants“ eins og Walsh segir í pistli sínum í leikskránni. Það eru enda örlög margra innflytjenda að þeir ætla aðeins að flytja tímabundið, afla sér fjár og fara heim. En þeir komast aldrei heim, fara aldrei heim af mörgum ástæðum. Og þótt þeir kæmust þá væri „heima“ orðið að annarri og framandi veröld sem jafnvel er erfiðari við að eiga vegna þess hve kunnugleg hún samt sem áður er.

[pullquote type=”left”]Hin allegorían, sem fyrir sitt leyti er líka bókstafleg í stykkinu, snýst um alkóhólisma, fíknina eftir lífinu sem þó er aðeins ótti við lífið.[/pullquote]Hin allegorían, sem fyrir sitt leyti er líka bókstafleg í stykkinu, snýst um alkóhólisma, fíknina eftir lífinu sem þó er aðeins ótti við lífið. Hér mætti tengja við þræði úr lífi höfundanna, Tevis var alkóhólisti og lést úr lungnakrabba aðeins 56 ára að aldri og Bowie var einnig alkóhólisti og kókaínfíkill þótt honum hafi tekist að taka á þeim málum þegar í óefni var komið. Í söngleiknum er Newton ekkert að glíma við fíknina, hins vegar, hún er aflausnin í vonlausri stöðu að hans mati, en það er jú líka tilfinningin fyrir vímunni sem margur fíkillinn hefur lýst með ýmsum hætti. Newton tekst einhvern veginn að skapa sig út úr þessu ástandi og lokin á leikritinu segja okkur ekki nákvæmlega hvernig, en segja má að hann nái að hvíla loks í friði með hjálp ímyndunaraflsins. En fram að því snýst líf hans um það sem hann óttast og kannski er það nákvæmlega það sem fíkillinn, alkóhólistinn óttast, lífið en ekki dauðann.

Um höfundinn
Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans eru almenn þýðingafræði, enskar og þýskar bókmenntir, upplýsingin í Evrópu, þýðingasaga, málstefna á Íslandi og annars staðar og íslenskar samtímabókmenntir. Sjá nánar

[fblike]

Deila