Hvað ef við værum bara rassar?

Í sýningunni Cul Kombat fjalla Eva Zapico, Guadalupe Sáez & Patricia Pardo um kynbundið ofbeldi. Þær velta því meðal annars upp hvernig sterk skilgreining og aðgreining kynjanna ýtir undir ofbeldið því eftir því sem hver hópur er nákvæmar skilgreindur þeim mun minna svigrúm er fyrir margbreytileika innan hans. Listakonurnar setja efnið fram á gamansaman en um leið ögrandi hátt og nýta þar meðal annars sirkustækni og nekt.

Kynbundið ofbeldi hefur verið mikið í umræðunni hér á landi undanfarið. Á þjóðhátíð í Eyjum klæddust gestir og heimamenn bleiku til stuðnings átakinu „Bleiki fíllinn“ og komu þannig þeim skilaboðum á framfæri að nauðganir og kynferðisbrot yrðu ekki liðin á hátíðinni. Fimm hljómsveitir neituðu einnig tímabundið að spila á hátíðinni nema lögregluyfirvöld í Eyjum endurskoðuðu þá ákvörðun lögreglustjóra að lögreglan og aðrir viðbragðsaðilar sem að hátíðinni kæmu ættu ekki að veita fjölmiðlum upplýsingar um kynferðisbrot sem hugsanlega kæmu upp á hátíðinni. Töldu hljómsveitarmeðlimirnir að ákvörðunin ýtti undir þá þöggun sem einkennt hefur kynferðisbrot í gengum tíðina. Fyrir um ári hófst einskonar bylting á lokuðum hóp á facebook, beauty tips, þegar konur komu fram og sögðu frá kynferðisofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir og vildu með því skila skömminni til þess sem hana átti, það er gerandans. Á svipuðum tíma beruðu konur brjóst sín undir merkjum átaksins „Free the Nipple“ og mótmæltu þannig að líkamar kvenna væru sífellt settir í kynferðislegt samhengi. Þegar þessi grein er skrifuð er Gleðigangan í gangi hér í Reykjavík þar sem þeir sem flokkaðir hafa verið hinsegin vegna kynhneigðar gera sig sýnilega og krefjast þá um leið réttar til að vera eins og þeir eru innan samfélagsins.

Allir þessir ofantöldu viðburðir eru viðbrögð við misrétti sem ýmist helmingur samfélagsins, það er konur, eru beittar eða þá minnihluti eins og hinsegin fólk. Misrétti sem virðist ótrúlega lífseigt eins og sést á því að heimilisofbeldi er ein algengasta dánarorsök kvenna í heiminum.
Allir þessir ofantöldu viðburðir eru viðbrögð við misrétti sem ýmist helmingur samfélagsins, það er konur, eru beittar eða þá minnihluti eins og hinsegin fólk. Misrétti sem virðist ótrúlega lífseigt eins og sést á því að heimilisofbeldi er ein algengasta dánarorsök kvenna í heiminum. Í vikunni sem leið voru bæði fréttir af því að 19 ára piltur væri ákærður fyrir að nauðga tveimur 15 ára stúlkum og að maður hefði verið dæmdur fyrir hrottalega nauðgun á kunningjakonu sinni. Auk þess að gleðiganga hinsegin fólks í Úganda var blásin af vegna þess að stjórnvöld hótuðu göngufólki ofbeldi ef af henni yrði.

Grunnhugmyndin að verkinu Cul Kombat virðist koma frá því að amma annars höfundarins sagði henni frá því, ekki löngu áður en að gamla konan dó, að afinn hefði barið hana í hjónabandinu. Hún bætti því við að hún hefði alls ekki átt það skilið. Með því að segja frá tókst henni að skila skömminni sem hún hafði burðast með um ævina en opinberaði þá um leið lítilmannlega hlið afans sem ekki hafði verið sýnileg. Fyrir ömmuna virtist það vera mikil frelsun að segja frá en einnig skilaboð til nýrrar kynslóðar að hún eigi ekki að þurfa að þola slíka framkomu.

hugras_Cul_Combat2

Þó að Cul Kombat fjallaði um grafalvarleg mál var framsetning efnisins á gamansömum nótum. Trúðsleikur var notaður á milli þess sem fjallað var um alvarlegri efni verksins í töluðu máli. Þó að textinn væri á spænsku komst hann vel til skila vegna þess að íslenskri þýðingu hans var varpað upp á vegg fyrir ofan sviðið. Textinn fjallaði um karlrembu, kynbundið ofbeldi og hvernig áhersla á kyn skapar óeðlilega og óþarfa flokkun einstaklinga allt frá fæðingu.

Hvers vegna að leggja áherslu á það sem aðskilur, eins og kynfæri barna, í staðinn fyrir að leggja áherslu á það sem sameinar, til dæmis það að öll börn hafa jú rass. Þannig væri hægt að segja að fæðst hefði rass en ekki stelpa eða strákur.
Hvers vegna að leggja áherslu á það sem aðskilur, eins og kynfæri barna, í staðinn fyrir að leggja áherslu á það sem sameinar, til dæmis það að öll börn hafa jú rass. Þannig væri hægt að segja að fæðst hefði rass en ekki stelpa eða strákur. Og þó að líkamar okkar séu lagaðir á ákveðinn hátt má þá ekki láta sig dreyma um að vera skeggjaður ófrískur faðir? Kvenlíkaminn var líka í brennidepli og voru kaflar í verkinu þar sem sýnendurnir voru kviknaktir. Líkaminn var þó aldrei settur fram á þann kynferðislega hátt sem hann má svo oft þola á sviði, heldur sem hold og blóð ákveðinna einstaklinga sem vildu koma ákveðnum ákveðnum málum á framfæri.

Cul Kombat var áhugavert verk sem vakti mann til umhugsunar um ýmsa hluti, þó sérstaklega eftir á. Létt framsetning gerði það skemmtilegt áhorfs en ekki mjög krefjandi, að minnsta kosti ekki á meðan á því stóð. Viðfangsefni þess á því miður erindi til allra því enn er langt í land í baráttunni fyrir jafnrétti í víðum skilningi þess orðs og gegn kynbundnu ofbeldi.

Um höfundinn
Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir er menntuð í íþróttafræðum og dansi auk sagnfræði. Hún hefur skrifað gagnrýni og greinar um dans undanfarin ár auk þess að kenna listdanssögu á framhaldsskólastigi og skapandi dans fyrir börn.

[fblike]

Deila